Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 14:43:52 (4074)



[14:43]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 355 flytjum við þingmenn Alþb. frv. til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er breyting sem felur það í sér í stuttu máli sagt að það verði teknar upp samtímagreiðslur námslána að nýju. Hér er í raun og veru á ferðinni mál sem við höfum flutt áður og ástæðan er einfaldlega sú að við teljum að þetta sé alvarlegasti gallinn á gildandi lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að nú fá menn ekki greidd lánin fyrir en eftir á.
    Það væri kannski fróðlegt fyrir fólk að velta því fyrir sér hvernig það þætti t.d. fyrir alþingismenn ef þeir fengju kaupið sitt á vorin. Ef þeir fengju kaupið sitt á vorin eftir að þing hefði setið allan veturinn. Eða fyrir ráðherra, að þeir fengju kaupið sitt t.d. í lok kjörtímabilsins og þyrftu að taka lán hjá Búnaðarbankanum eða Landsbankanum fyrir framfærslu sinni þangað til kjósendur kvæðu upp úrskurð sinn um það hvort þeir hefðu staðið sig eða ekki. Það gæti líka verið fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig þetta kæmi út fyrir aðrar starfsstéttir og hvort aðrar starfsstéttir í landinu mundu sætta sig við það að þannig væri á málum haldið að fólk fengi ekki launin sín fyrr en löngu eftir að vinna væri hafin og sérstaklega með hliðsjón af því að hjá opinberum starfsmönnum a.m.k. er það þannig að menn fá laun sín greidd fyrir fram. Það er auðvitað ofboðslegt hvernig farið er með námsmenn í þessu sambandi í þjóðfélaginu og ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel að það sé ótrúlegt hvað menn hafa tekið þessum ósköpum með mikilli þolinmæði vegna þess að hér er náttúrlega um þvílíka kjaraskerðingu að ræða.
    Ég hef í sjálfu sér ekki séð útreikninga á því hver kjaraskerðing námsmanna er í tíð núv. ríkisstjórnar, hvað kaupmáttur námslána hefur lækkað mikið í tíð núv. ríkisstjórnar, en ég ætla að fullyrða það hér, virðulegi forseti, að kaupmáttur námslána hefur lækkað miklu meira en kaupmáttur allra annarra stétta sem hafa þurft að búa við kjör frá hinu opinbera. Enda er það kannski ekki að furða, virðulegi forseti, þegar það er skoðað að sá sparnaður sem núv. ríkisstjórn hefur náð í ríkisfjármálum --- hvar er hann? Er það þannig að menn hafa verið að skera niður kaup sérfræðinga í læknastétt? Er það þannig að menn hafa verið að skera niður kaup lyfjafræðinga, apótekara, í stórum stíl? Er það þannig að menn hafa verið að skera niður kaup hátekjumanna í stórum stíl? Ónei. Þegar yfirlit Ríkisendurskoðunar um þróun ríkisbúskaparins er skoðað fyrir árið 1991 til áætlunar fyrir 1995 þá kemur í ljós að þeir einu sem hefur verið skorið niður hjá eru ekki þessir aðilar, það eru ekki hátekjuhóparnir --- hverjir eru það? Það eru námsmenn og bændur sem hafa orðið að sæta mestri kjaraskerðingu í tíð núv. ríkisstjórnar.
    Talan fyrir námsmenn er náttúrlega langhrikalegust, hún er sennilega í kringum 1.000 millj. kr. og

segir þó sú tala ekki alla söguna vegna þess að af þeirri námsaðstoð sem menn fá úr Lánasjóði ísl. námsmanna eru námsmenn núna að borga eru vextir til bankanna. Þannig að það sem ríkisstjórnin hefur haft upp úr krafsinu er það að hún hefur verið að fita bankana. Bankarnir taka nú vexti af námsmönnum, verulega fjármuni, sérstaklega og ekki síst banki hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem hefur þanist út í tíð núv. ríkisstjórnar og ég verð ekki var við að hv. þm. hafi kvartað undan þeim tekjum Búnaðarbankans. Þannig að það eru hinir fátæku námsmenn sem hafa borgað hundruð millj. kr. inn í bankakerfið og hafa ekki fengið til þess peninga eða stuðning annars staðar frá.
    Hér er auðvitað um að ræða alveg ótrúlega stefnu og ríkisstjórnin hefur haldið því fram að með þessari stefnu sé hún að spara í ríkisfjármálum en í raun og veru er hún fyrst og fremst að flytja fjármuni til, frá almanaksári til almanaksárs, af því að þessir fjármunir koma til greiðslu til námsmannanna eftir á þegar þeir hafa lokið sínum námsári með tilteknum árangri.
    En bíðum nú við. Er það þannig að þetta hafi kannski mjög lítil áhrif haft? Er það þannig að hér sé um að ræða svo litlar upphæðir að það þurfi ekkert að tala um þær? Skoðum það aðeins nánar.
    Á bls. 291 í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 kemur fram hvað framlögin til námsaðstoðar hafa lækkað mikið. Árið 1991 voru þau 2.787 millj. kr. en árið 1995 í fjárlagafrv. voru þau 1.600 millj. kr. Þannig að hér er um að ræða lækkun um u.þ.b. 1.200 millj. kr. á framlögum ríkisins til Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessum árum núv. ríkisstjórnar. --- 1.200 millj. kr. --- Og það er nauðsynlegt að hafa það í huga, hæstv. forseti, að þessir peningar hafa ekki verið notaðir til að auka við háskólann, til að auka við rannsóknir, til að auka við grunnskólann, til að auka við framhaldsskólann, til að auka við endurmenntun og fullorðinsfræðslu. Nei. Þessir peningar hafa ekki verið notaðir til þess vegna þess að allir þessir liðir hafa verið skornir niður. Í heildina tekið hefur menntmrn. verið skorið niður í rauntölum miðað við verðlag frv. til fjárlaga fyrir 1995 --- menntmrn. hefur verið skorið niður um liðlega 2 milljarða kr., úr 18,7 millj. í 16,7 milljarða kr. Þetta er veruleikinn sem blasir við, hæstv. forseti. Þannig að það er ekki um það að ræða að þessir peningar sem hafa verið teknir af Lánasjóði ísl. námsmanna hafi farið til þess að byggja upp skólastarf á Íslandi að öðru leyti á þessum tíma.
    Og hvar hefur þetta svo komið við, hæstv. forseti? Það er fróðlegt að skoða það og ég er hér með nýjar tölur í þeim efnum sem ég hygg að hafi ekki sést mjög víða áður. Hvernig hefur þetta t.d. komið við námsmenn, sérstaklega í dreifbýlinu --- vegna þess að ég tek stundum eftir því að menn taka stundum frekar við sér þegar talað er um dreifbýlið í þessari stofnun heldur en þéttbýli af einhverjum undarlegum ástæðum þó að þetta séu allt sömu Íslendingarnir sem búa í öllu þessu landi. En það er ástæða til að spyrja að þessu sérstaklega með dreifbýlið. Hver er niðurstaðan? Samkvæmt upplýsingum sem ég hef hér frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, í bréfi sem var sent fjárln. 22. des. 1994, kemur fram að lánþegum á landsbyggðinni fækkaði um 40% frá því að lögunum var breytt til ársins 1994 --- um 40%. Það segir svo í þessu bréfi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, sem ég hygg að fjárlaganefndarmenn hafi fengið, með leyfi forseta:
    ,,Lánþegar utan að landi voru 40% fleiri fyrir breytingar á lögunum um LÍN. Þeim fækkaði úr 1.668 í 1.178 ef Reykjavík og Reykjanes eru tekin út.``
    Sem sagt, lánþegum Lánasjóðs ísl. námsmanna af landsbyggðinni fækkaði um 40%. Þetta eru athyglisverðar tölur og það eru líka athyglisverðar þær tölur sem birst hafa um kostnað námsmanna við að halda gangandi bankalánunum, en þar er um að ræða kostnað á hverju einasta ári sem fátækir námsmenn þurfa að borga bankakerfinu á Íslandi upp á fleiri hundruð millj. kr. eins og komið hefur fram.
    En það er fleira sem liggur hér fyrir í tölum, hæstv. forseti. Það hefur verið athugað hvernig lánþegafjöldinn hefur þróast t.d. hjá barnlausum lánþegum LÍN. Hvernig hefur sá fjöldi breyst?
    Árið 1989--1990 voru barnlausir lánþegar hjá LÍN alls 5.234. Þeir voru á síðasta ári 4.113, hafði fækkað um 1.121 á þessum tíma, barnlausum lánþegum hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Ef við skoðum stöðuna á Íslandi sérstaklega þá fækkaði þessu fólki úr 3.549 í 2.883 og ef við tökum námsmenn erlendis þá fækkaði þessu fólki úr 1.685 í 1.230 eða u.þ.b. 1 / 4 . Ef við tökum svo lánþega með börn á framfæri þá er talan síst skárri. Þar kemur fram að fjöldi lánþega með börn á framfæri 1989--1990 var 2.283 en 1991, áður en lögunum var breytt, var þessi fjöldi 2.746. Árið 1993--1994 var þessi lánsþegafjöldi kominn niður í 1.823, hafði fækkað um 923 eða um 1 / 3 bara á árunum 1991--1994. Ef við skoðum fjöldann erlendis í þessu samhengi, lánþegar með börn á framfæri sem eru við nám erlendis, þá kemur í ljós að þeir voru 847 1991--1992, áður en lögin voru sett, en voru í fyrra komnir niður í 583. Ef við tökum lánþega á Íslandi með börn á framfæri þá voru þeir fyrir setningu laganna nákvæmlega 1.900 en eru komnir niður í 1.240. Þeim fækkar um 1 / 3 . Það er því alveg sama hvar er borið niður. Lánþegum úti á landi fækkar um u.þ.b. 40%, í öðrum lánþegahópum fækkar yfirleitt um 25--30%. Þarna er menntastefnan lifandi komin. Vandinn við þetta mál pólitískt er sá að það sést ekki fyrir næstu kosningar eins skýrt og það þyrfti að sjást hvaða afleiðingar þetta hefur af því að afleiðingarnar af niðurskurðinum til menntamála munu auðvitað koma fyrst og fremst fram í verri lífskjörum Íslendinga á næstu öld. Vegna þess að meðan við erum að skera niður peninga til menntamála um 2 milljarða á aðeins fjórum, fimm árum þá eru aðrar þjóðir að gera hvað? Bæta við til menntamála þó þær hafi í raun og veru miklu meira fjármagn fyrir hlutfallslega til menntamála en við.
    Eini hópur lánþega hjá LÍN þar sem ekki verður svona gríðarlega mikil breyting eru einstæðir foreldrar, ef maður skoðar tímann 1989--1990 og 1993--1994. En ef maður skoðar t.d. tímann 1991 þá voru einstæðir foreldrar í lánþegahópi LÍN 740, þeir voru í fyrra 430.
Ef við skoðum hópinn sem er í námi hér á landi þá voru þeir 619 áður en lögin voru sett en 345 eftir að lögin voru sett eða í fyrra. Þeim hefur næstum því fækkað um helming.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um það, hæstv. forseti, að sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta lögunum þannig að námslánin séu ekki greidd fyrr en eftir á er aðalskýringin á þessu svakalega falli. Það er aðalskýringin á þessu svakalega falli þar sem um er að ræða 25--40% fækkun eftir hópum eftir því um hverja við erum að tala. Það er fyrst og fremst sá veruleiki.
    Hæstv. forseti. Nú vill þannig til að um þessar mundir gengur yfir sú bylgja --- ekki aðeins hér á landi heldur víða erlendis --- að menn eru að gera sér grein fyrir því að menntamál borga sig, að skólamál borga sig. Að fjárfesting og framlög til menntamála skila tekjum fyrir þjóðirnar í framtíðinni. Þess vegna eru allar þjóðir í kringum okkur að auka við framlög til menntamála og þær sem standa í niðurskurðinum miðjum hlífa menntamálunum sérstaklega, taka þau algjörlega út úr. Þá ber svo við að núv. ríkisstjórn, sem hefur staðið blóðug upp fyrir axlir í að skera niður framlög til Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessu kjörtímabili og til menntamála yfirleitt, áttar sig núna allt í einu á því að það á að fara að kjósa. Þá er lagt þvílíkt ofurkapp á það að þræla í gegn peningalausum frumvörpum um grunnskóla og framhaldsskóla að maður hefur varla upplifað annað eins í nefndum þingsins. Það eru frumvörp, það er ekki einseyringur utan á þeim, það er ekkert nema orð á blaði nema þá helst mínusar. Ólíklegustu menn eru farnir að heimta peninga í skólamál. Þegar ég tala um ólíklegustu menn á ég við hæstv. utanrrh. Það er alveg ótrúlegt hvað sá maður hefur þanið sig á móti framförum í menntamálum um árabil og ævinlega talið sig vita betur en allir aðrir menn um menntamál af því að hann var skólameistari á Ísafirði um skeið af einhverjum ástæðum. Ég veit ekki hverjir sóttu um aðrir en hann lenti í þessu og hann telur sig ævinlega vita betur um skólamálin en allir aðrir menn og þenur sig einlægt um það þegar verið er að tala um þessi mál að þetta þurfi að skera niður og þetta þurfi að lækka og flutti það sem alveg sérstakan boðskap Alþfl. fyrir einhverjar kosningarnar að það þyrfti að skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég hef af því spurnir að það sé ekki aðeins í fyrrv. ríkisstjórn heldur einnig í núv. ríkisstjórn sem hann hafi ævinlega verið með naglaskap þá sjaldan menn leyfðu sér að anda því út úr sér að það þyrfti að hækka eitthvað í menntamálum um svo sem eins og eina krónu, ég tala nú ekki um tvær.
    Ég hef sagt frá því áður úr þessum virðulega ræðustól að ég muni gera grein fyrir því í ævisögu minni hvernig þessi ráðherra hagaði sér í umræðum um menntamál í síðustu ríkisstjórn. Það var ótrúlegt. Hann lagðist ævinlega þversum í öllum málum sem snertu menntun og menningu, alveg sama hvað það var. Þetta var auðvitað þeim mun grátlegra þegar þess var gætt að Alþfl. hafði tekist af einhverjum ástæðum að búa til um sig einhverja gloríu í mennta- og menningarmálum út af Gylfa Þ. Gíslasyni svo undarlegt sem það kann að virðast. Það er að mörgu leyti undarlegt, sérstaklega fyrir þá sem muna það að heimsækja þann ráðherra sem ungir stúdentar í menntmrn. hér forðum og skoða Lánasjóð ísl. námsmanna sem þá var ekki einu sinni til, það var sérkennilegt. ( Gripið fram í: Hvað var verið að skoða ef hann var ekki til?) Og menn bjuggu við fræðslulögin nýju frá 1946 fram til 1974 í skólamálum. Það má margt um það segja.
    Nei, þá gloríu, sem tókst að skapa í kringum Gylfa Þ. Gíslason af einhverjum ástæðum, tókst hæstv. utanrrh. í meginatriðum að rífa af Alþfl. í menntamálum og menningarmálum því að það var alveg ótrúlegt hvernig hann hefur gengið fram í þeim málum en núna sé ég að þingmenn Alþfl. og ráðherrar eins og t.d. hæstv. umhvrh. ( Gripið fram í: Skipaði menningarfulltrúa.) opna ekki svo á sér talfærin að ekki sé nefnd nauðsyn þess að auka peninga til menntamála og menningarmála og svo skipa þeir menningarfulltrúa. Ég kann betur við að tala um það frekar, hæstv. forseti, undir öðrum dagskrárlið, þ.e. um ríkisreikninginn fyrir árið 1993, en hann kemur fljótlega á dagskrá í þessari virðulegu stofnun. Ég efast um að það sé menningarmál.
    Staðreyndin er auðvitað sú að þeir hlutir sem við erum að horfa á varðandi þróun lánamála námsmanna eru hrikalegir. Hér er það að gerast í þessu landi að námsmönnum í virku námi er að fækka og þeir eru lengur að ljúka námi en áður. Það er dýrara fyrir þjóðfélagið og þeir sem hafa lokið t.d. BA-prófum geta ekki haldið áfram á meistarastigi í lánshæfu námi af því að það er ekki boðið nám á meistarastigi sem dugir til þess að tryggja þeim 100% námsframvindu þannig að fjöldinn allur af þeim nemum sem nú eru á meistarastigi í Háskóla Íslands eru að taka BA-kúrsa til að uppfylla kröfur Lánasjóðs ísl. námsmanna til þess að framfleyta sér. Halda menn að þetta sé gáfulegt kerfi?
    Svo mætti auðvitað líka í þessu sambandi, hæstv. forseti, sem ég hef reyndar flutt tillögu um hér áður, rannsaka vinnubrögð stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, hvernig hefur verið farið með hlutina þar. Framkoman við einstaka námsmenn er ótrúleg og um það mætti nefna mörg dæmi þar sem teknar hafa verið ákvarðanir um að skerða rétt námsmanna með nokkurra daga fyrirvara án þess að láta námsmenn eða fjölskyldur þeirra og umboðsmenn vita sem er beint brot á þeim stjórnsýslulögum sem við samþykktum fyrir tveimur eða þremur árum. En þess eru dæmi að stjórn sjóðsins hafi ákveðið að afnema tiltekna lánaflokka með viku eða 10 daga fyrirvara. Þegar þessi mál voru rædd fyrir nokkru í þessari virðulegu stofnun rakti ég 10 dæmi um það hvernig stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefði framkvæmt lögin þannig að það mætti halda því fram að hún hefði brotið gegn þeim eða anda þeirra eða a.m.k. gegn anda hinna nýju

stjórnsýslulaga.
    Nú er það þannig að þessi lög hafa verið í gildi síðan 1992 og það hefur þótt sérstök ástæða til að fjalla um þau m.a. í Háskóla Íslands í sérstakri prófritgerð sem skrifuð hefur verið og ég vænti þess að sem flestir þingmenn geti fengið aðgang að en það er ritgerð sem heitir: ,,Um stjórnsýslulega stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og um réttarstöðu lánþega.`` Höfundur ritgerðarinnar, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson laganemi, kemst þannig að orði í lok ritgerðar sinnar, með leyfi forseta:
    ,,Ef til vill eru helstu annmarkar á núgildandi lögum um LÍN að löggjafinn sjálfur hefur ekki tekið afstöðu til helstu grundvallarréttinda stúdenta og af þeim sökum getur sjóðstjórnin verið að hræra í þessu á milli ára. Réttaröryggi stúdenta væri best borgið ef löggjafinn sinnti stjórnskipulegu og pólitísku hlutverki sínu og tæki af skarið um öll helstu réttindi stúdenta í lögunum þannig að aðeins þyrfti síðan að færa lögin út nánar í stjórnvaldsfyrirmælum. Eins og lögin líta út í dag líkjast þau helst óútfylltri ávísun sem stjórn Lánasjóðsins hefur frjálsar hendur um að fylla út í.``
    Þegar lögin voru til meðferðar á sínum tíma vorið 1992 gagnrýndum við einmitt þetta atriði. Við sögðum: Stjórnin fær of mikið vald. Við sögðum: Þetta vald á annaðhvort að vera hjá Alþingi eða ráðherra. Ráðherra er framkvæmdarvaldshafinn og lýtur vilja meiri hluta Alþingis og þess vegna er eðlilegt að þessi mál séu í höndum hans og nú er svo komið að þeir sem fjalla um þetta á fræðilegum grundvelli undir leiðsögn háskólaprófessora í lögfræði sýna fram á það að í raun og veru séu lögin frá stjórnsýslulegu sjónarmiði séð hreint fúsk fyrir utan önnur efnisatriði sem í lögum þessum eru. Það er af þessum ástæðum, hæstv. forseti, sem við alþýðubandalagsmenn viljum rífa upp lögin með því að breyta ljótustu grein þeirra og gera lánin samtímalán að nýju þannig að námsmenn þurfi ekki að borga hundruð milljóna á ári í bankana og þannig að við þurfum ekki að horfa upp á það að lánþegum í öllum flokkum þeirra sem taka lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna fækki um 25% upp í 40% hjá þeim sem koma af landsbyggðinni. Ég er viss um að a.m.k. vinir mínir á landsbyggðinni sem tilheyra stjórnarflokkunum eru ekki stoltir af þessu afreki.
    Við alþýðubandalagsmenn munum leggja á það áherslu að frv. fái einhverja þinglega meðferð og teljum að ekkert sé að vanbúnaði af því að þetta mál hefur áður verið hér til meðferðar og af því að þetta mál hefur tiltölulega skýrar skírskotanir og afleiðingar. Ég tel að með því að láta þetta mál koma til afgreiðslu við 2. umr. muni reyna á hvort einhverjar innstæður eru á bak við yfirlýsingar ráðherranna eins og hæstv. utanrrh. um að það þurfi að taka á þessum málum. Auðvitað meinar sá ráðherra ekkert með því sem hann er að segja í þessum efnum en það er rétt að gefa honum kost á því í atkvæðagreiðslu að segja sinn hug í málinu.
    Í trausti þess og vissu að málið fái þinglega meðferð þannig að það séu ekki bara stjórnarfrumvörp sem séu tekin í gegnum hv. menntmn. legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.