Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:38:54 (4080)


[15:38]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir lokaorðin að ríkisstjórnin getur hugsað sér að málið fari til nefndar. ( Menntmrh.: Ég var bara að tala fyrir mig.) Nú, ég bið ráðherrann að afsaka, ég tók hann kannski valdameiri en hann er en alla vega finnst mér ástæða til að gefa honum a.m.k. einn og hálfan fyrir viðleitni.
    En varðandi breytingarnar sem hafa orðið þá er það náttúrlega þannig að lánþegum hefur fækkað á þessum tíma um 2.000, úr 8.100 í 6.000. Það er mikil fækkun. Það er hægt að tala um að menn hafi verið hraktir þúsundum saman frá þessu kerfi. ( Menntmrh.: Ekki frá námi.) Frá þessu kerfi. Auk þess er það þannig að þó að það séu svipað margir skráðir í skólann og áður veit ráðherrann ekkert um það hvernig námi þessa fólks er háttað m.a. vegna þess að verulegur fjöldi af þessu fólki er núna miklu lengur í námi en var áður, sérstaklega í háskólanámi. Ég ætla að nefna eina tölu: Á næstu árum áður en breytingin átti sér stað fjölgaði lánþegum í iðnskólanámi um 400. Á jafnmörgum árum eftir að breytingin á sér stað fjölgar lánþegum í iðnnámi um hvað? Um 60. Og ef við skoðum tímann, jafnlangan tíma, fyrir nám í tækniskóla fjölgaði lánsþegum á næstu árum áður en breytingin átti sér stað um 170. Á jafnmörgum árum frá því að breytingin átti sér stað hefur lánþegum í tækniskóla fækkað um 70. Með öðrum orðum sú breyting sem hefur átt sér stað hefur sannarlega komið illa við landsbyggð, illa við efnalitla námsmenn og sérstaklega illa við verknámið í landinu.