Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:44:15 (4084)


[15:44]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er um þetta mál eins og hv. stjórnarsinnar og hæstv. menntmrh. tali allt annað tungumál en við stjórnarandstæðingar og við sem börðumst gegn þessum vitlausu lögum þegar þau voru

sett á hv. Alþingi.
    Hæstv. menntmrh. sagði áðan að nú með þessu nýja kerfi væru ofgreidd lán hverfandi. Hann nefndi engar upphæðir í því sambandi. Ég barðist gegn 6. gr. laganna eins og ég mögulega gat alveg fram á síðasta dag vegna þess að mér fannst hún vera fyrst og fremst óhagræði og bara vitlaust hugsuð af þeim sem hana studdu. Hún snerist um 50 millj., hæstv. menntmrh., þessi 6. gr. Nú hefur hæstv. menntmrh. sagt að sjóðurinn þyrfti að leggja út í auknum lánum vegna þessa nýja fyrirkomulags sem vaxtabætur 42 millj. þannig að þetta kemur út á sléttu fyrir lánasjóðinn. Þessi grein er ekkert annað en óhagræði fyrir námsmenn og ef hæstv. menntmrh. þekkir enga námsmenn af landsbyggðinni þá held ég að hann ætti að reyna að koma sér í kynni við nokkra og heyra þeirra sögu af því hvernig það er að vera námsmaður í dag. Ég get alveg ímyndað mér að þetta sé ágætiskerfi fyrir námsmenn sem búa á Reykjavíkursvæðinu og geta búið heima hjá pabba og mömmu jafnvel. Þá er þetta bara ágætis kerfi. En það er dýrt að eiga heima á landsbyggðinni og stunda nám í Reykjavík.