Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 10:35:58 (4089)

[10:35]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Alþingi Íslendinga samþykkti undir árslok niðurstöður Úrúgvæ-viðræðna GATT og stofnaðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. U.þ.b. 80 ríki eða ríkjasambönd sem samanlagt velta 90% af heimsviðskiptum með vörur og þjónustu hófu nýja árið sem stofnaðilar. Þetta er einhver heillavænlegasta ákvörðun sem tekin hefur verið varðandi tengsl okkar við útlönd. Fá ríki eiga eins mikið undir því og Ísland að festa í sessi öruggar reglur um alþjóðaviðskipti.
    Á vettvangi hinnar nýju stofnunar höfum við góða aðstöðu til þess að tryggja íslenska hagsmuni. Þetta á ekki síst við um fjarlæga markaði en sókn íslenskra fyrirtækja á markaði í Austur-Asíu er einhver athyglisverðasti þáttur í þróun íslenskra utanríkisviðskipta undanfarin ár. Innan stofnunarinnar verður úrlausn deilumála skilvirkari en áður og möguleikar ríkja að leita réttar síns verða betri.
    Óhætt er að fullyrða að Alþjóðaviðskiptastofnunin og samningar hennar muni leiða til bætts efnahagsástands í heiminum á næstu árum með tilheyrandi áhrifum á efnahagsumhverfi og viðskiptakjör Íslands. Samningsniðurstöður Úrúgvæ-viðræðnanna fela í sér verulegar tollalækkanir fyrir íslenskar útflutningsvörur og sóknarfæri á mikilvægum framtíðarmörkuðum.
    Umfang Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verður mun meira en GATT sem náði eingöngu milli vöruviðskipta. Stofnunin mun að auki fjalla um þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi í viðskiptum og fjárfestingar í viðskiptum. Jafnframt styrkir stofnunin og samningar hennar upphaflega ákvæði GATT-samningsins. Hefðbundin en viðkvæm svið eins og viðskipti með landbúnaðar- og vefnaðarvörur eru færð með skýrum hætti undir hennar umsjón. Þá verður stofnunin vettvangur fyrir nýja samningalotu með það að markmiði að stuðla að enn frekara frjálsræði í viðskiptum.
    Mikilvægt er fyrir okkur að ganga ákveðin til verks innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og nýta til fulls þau tækifæri sem þar gefast. Á það t.d. við um þær umræður sem þegar eru hafnar um tengsl viðskipta- og umhverfismála. Umræðurnar eiga ekki síst erindi til okkar Íslendinga sem byggjum þjóðarbúskap okkar á nýtingu náttúruauðlinda í hreinu og ómenguðu umhverfi.
    Viðskipta- og umhverfisnefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur þessi mál nú til umfjöllunar og er full ástæða til að fylgjast þar með frá upphafi. Innan nefndarinnar virðist vera víðtæk samstaða um að koma í veg fyrir að verndarstefna í viðskiptum verði dulbúin sem umhverfisvernd.
    Eitt af meginviðfangsefnum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er að tryggja að samningsaðilar framkvæmi skuldbindingar Úrúgvæ-viðræðnanna. Það hlýtur að vera metnaðarmál okkur Íslendingum að forðast að fyrstu skref okkar á þessum vettvangi leiði til gagnrýni og hugsanlegra gagnaðgerða.
    Í GATT-umræðunum hér á landi var um fátt meira rætt en áhrifin á íslenskan landbúnað. Af þeirri umræðu mátti oft og tíðum draga þá ályktun að samningurinn um Alþjóðviðskiptastofnunina fjallaði einungis um landbúnað eða að samningurinn feli í sér aðför að íslenskum landbúnaði og bændastétt. Því fer fjarri. Sá samningur um landbúnað sem hér um ræðir á rætur að rekja til þess að almenn samstaða hefur myndast á alþjóðavettvangi um að verndarhyggja hafi leitt viðskipti með landbúnaðarvörur á villigötur. Kostnaðarsöm og óhagkvæm styrkja- og verndarkerfi eru að sligast undan eigin þunga, bændum jafnt sem neytendum til óþurftar.
    Alþjóðlegu umbótaferli hefur nú verið hrint í framkvæmd. Almennt séð færir það landbúnaðarviðskipti úr myrkviðum hafta og banna í átt til frjálsari viðskiptahátta. Stuðlað er að opnun markaða, reglur settar um beitingu innanlandsstyrkja, dregið úr útflutningsbótum en tollar koma í stað magntakmarkana og annarra innflutningshindrana. Háar tollabindingar sýna að ekki var um sársaukalausar breytingar að ræða þegar vopnabúr verndarhyggjunnar var umreiknað í tollígildi. Landbúnaðartilboð Íslands er dæmi um þetta. Þar má finna tollabindingar upp á mörg hundruð prósentustig. Full ástæða er til að óttast að verði heimildir til tollálagningar nýttar til hins ýtrasta muni umbótaferlið ekki hafa tilskilin áhrif hér á landi.
    Alþingi hefur ályktað að nauðsynlegar laga- og tollabreytingar skuli gerðar með hliðsjón af landbúnaðartilboði Íslands til að veita innlendri framleiðslu nauðsynlega vernd. Varast ber þó að túlka nauðsynlega vernd sem hámarksvernd. Það væri andstætt markmiði landbúnaðarsamnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og okkar eigin hagsmunum. Sóknarfæri eru fyrir íslenskan landbúnað jafnt og aðra framleiðslu í því frjálsræði sem Alþjóðaviðskiptastofnunin boðar. Vanda verður til framkvæmdarinnar ef þau eiga að nýtast.
    Hvað varðar framtíð EES-samningsins hefur nú það mat mitt að hann stæðist áfram verið staðfest af öllum hlutaðeigandi aðilum á fundi ráðherraráðs EES 20. des. sl.
    EES-samningurinn verður áfram traustur grunnur samskipta Íslands og Evrópusambandsins. Það sem þó hefur ekki gengið eftir er að EFTA-megin borðsins er Ísland ekki eitt á báti. Norðmenn munu leggjast á árar með okkur og ef að líkum lætur einnig Liechtenstein frá 1. maí nk. Þetta breytir því þó ekki að róðurinn verður þyngri en áður. Stofnanir EES verða hins vegar umfangsmeiri en annars hefði orðið og ýmiss konar hagræði má af þeim hafa. Fæstum mun til hugar koma að fela okkar ágætu bræðraþjóð Norðmönnum forsvar í íslenskum utanríkis- og viðskiptamálum. Samstarf Íslands og Noregs verður því að vera á jafnréttisgrundvelli. Íslensk stjórnsýsla verður að vera þess umkomin að leggja sjálfstætt mat á þróun og horfur innan ESB og það hvernig íslenskum hagsmunum verður best borgið. Því er nauðsynlegt í ljósi stöðugrar þróunar á löggjöf Evrópusambandsins að tryggja að Íslendingar fylgist vel með málaflokkum

EES-samningsins og byggi upp samskiptanet innan einstakra stofnana sambandsins og við aðildarríki þess.
    Í þessum tilgangi hefur ríkisstjórnin ákveðið að fjölga fulltrúum ráðuneyta í fastanefnd Íslands í Brussel þannig að flest ráðuneyti geti frá miðju ári fylgst með og haft áhrif á þróun einstakra málaflokka. Yfirumsjón með samningnum í heild sinni verður í höndum utanrrn.
    EES-samningurinn býður einnig upp á eflingu pólitísks samráðs sem nauðsynlegt er að nýta. Ríkisstjórnin samþykkti 27. jan. sl. að í samvinnu við Noreg verði leitað eftir sem víðtækustu samráði við aðildarríki ESB um utanríkis- og öryggismál á grundvelli yfirlýsingar EES-samningsins um pólitísk skoðanaskipti. Rétt er að leggja áherslu á að um er að ræða framkvæmd heimildar sem þegar er fyrir hendi á grundvelli EES-samningsins.
    Ljóst má vera að EES-samningurinn býður upp á mikla möguleika til frekara samstarfs við viðskiptaaðila okkar og bandamenn í Evrópu sem rétt er að þróa sem mest með íslenska hagsmuni í huga.
    Vegna breytinga á tollum fyrrverandi EFTA-ríkja um síðustu áramót skerðast viðskiptakjör Íslands í þessum löndum ef ekkert verður að gert. Framkvæmdastjórnin gat ekki tekið upp viðræður um málið fyrir áramót þrátt fyrir kröfur íslenskra stjórnvalda. Í því sambandi óskaði framkvæmdastjórnin eftir upplýsingum um viðskipti Íslands við fyrrverandi EFTA-ríki nokkur ár aftur í tímann. Íslensk stjórnvöld urðu við þeirri ósk og bíða nú eftir viðbrögðum. Á grundvelli upplýsinganna mun framkvæmdastjórnin gera tillögur um bráðabirgðatilhögun í formi tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir okkar mikilvægustu afurðir. Þetta gefur aðilum lengri frest til að ljúka samningaviðræðum vegna breytinga á viðskiptakjörum fyrir Ísland.
    Það féll í hlut Íslands að stýra EFTA-fleyinu í sinni gömlu mynd síðasta spölinn. Ísland tók við formennsku samtakanna 1. júlí á sl. ári. Á formennskutímanum síðari hluta árs 1994 þurfti að ganga frá viðskilnaði og uppgjöri við þau ríki sem yfirgáfu stofnunina. Þau ríki sem gengu úr samtökunum munu taka þátt í rekstri stofnunarinnar fram á mitt þetta ár en frá og með þeim tíma munu Noregur, Ísland, Sviss og Liechtenstein kosta reksturinn.
    Frá upphafi var ljóst að Stokkhólmssamningurinn yrði áfram við lýði og myndaði ramma um samskipti EFTA-ríkjanna sem eftir yrðu. Nú hafa einnig náðst samningar um það hvernig rekstri EFTA sem stofnunar verði háttað í nýrri mynd. Hið nýja EFTA verður minna að vöxtum. Gert er ráð fyrir því að starfsmenn verði um 55 talsins en voru 170 þegar mest var.
    Eftirlitsstofnun EFTA verður áfram rekin í Brussel en hún verður minni í sniðum. Ætlunin er að tryggja ýtrasta sparnað með samnýtingu húsnæðis og rekstrarkostnaðar EFTA og eftirlitsstofnunar. Það virðist geta verið hagstæður kostur að flytja EFTA-dómstólinn til Lúxemborgar m.a. til þess að auka aðgang dómara að aðstöðu Evrópudómstólsins þar. Þetta er nú til athugunar en reynt verður að tryggja að röskun á starfsemi dómstólsins verði sem minnst.
    Aðild að Evrópusambandinu er ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar. Á undanförnum árum hafa þó ýmsir, þar með talinn sá sem hér stendur, hvatt til þess að allir kostir verði athugaðir vandlega þegar rætt er um framtíð Íslands í Evrópu. Það ræðst ekki fyrr en á hólminn er komið hvaða kjör standa til boða. Full samstaða er um það meðal íslensku þjóðarinnar að fiskimiðin séu ekki föl. Þau eru að lögum sameign Íslendinga allra og verða aldrei skiptimynt í samningaviðræðum. Stjórnarskrárbinding sameignarákvæðis fiskveiðistjórnarlaganna tæki af öll tvímæli um það.
    Fullvíst er að Evrópusambandið mun seint sækjast eftir því að Ísland verði aðildarríki. Þaðan munu því ekki berast nein boð. Frumkvæði um að sækjast eftir aðild getur aðeins komið frá Íslendingum sjálfum og ekki fyrr en um það hefur skapast pólitísk samstaða.
    Vel má vera að Evrópusambandið hafni frekari aðildarviðræðum þar til úrslit ríkjaráðstefnunnar liggja fyrir en hún er þegar á næsta ári. Kýpur og Malta gera sér reyndar vonir um að aðildarviðræður þeirra geti hafist fyrr en Evrópusambandið hefur enn ekki tekið um það endanlega ákvörðun. Hvað sem því líður verður pólitísk umræða að fara hér fram áður en við getum með góðri samvisku sagt að sérstaða Íslands sé slík að Evrópusambandsaðild komi ekki til greina.
    Út á við tel ég að við eigum að senda þau boð að Ísland eigi sér þegnrétt í samfélagi Evrópu og sanngjarna kröfu á því að tekið verði tillit til lífshagsmuna Íslands. Ákvörðun um að sækja ekki um aðild eða höfnun umræðu um hugsanlega aðild er út af fyrir sig afdrifarík ákvörðun.
    Frá því að ég greindi Alþingi fyrr í vetur frá stöðu mála á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur það markverðast gerst að utanríkisráðherrar bandalagsins tóku um það ákvörðun á haustfundi 1. des. sl. að hefja athugun á stækkun þess. Áhersla verður lögð á að skoða og skilgreina forsendur fyrir því af hverju bandalagið skuli stækkað og jafnframt hvernig að fjölgun aðildarríkja yrði staðið. Hér er um að ræða vel ígrundað og varfærið skref til undirbúnings hugsanlegrar inntöku nýrra aðildarríkja. Samfara þessu er lögð höfuðáhersla á að tryggja að ekki myndist nýjar átakalínur í Evrópu. Þessi stefnumörkun er íslenskum stjórnvöldum að skapi. Fullsnemmt er að ákvarða hvenær ný ríki fái aðild að bandalaginu og einkar mikilvægt er að stækkunin, ef af verður, fari þannig fram að ekki dragi úr styrk bandalagsins, þessa árangursríkasta varnarsamstarfs vestrænna ríkja. Tryggja þarf þetta höfuðmarkmið bandalagsins.
    Fyrir okkur Íslendinga er og verður aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin á grundvelli hennar bjargföst undirstaða stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum. Áhersla okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og annarra öryggis- og varnarsamtaka hlýtur áfram að verða sú að efla traust tengsl yfir Atlantshafið og styðja áframhaldandi virka þátttöku Norður-Ameríku í öryggis- og

varnarmálum Evrópu. Á þessari öld höfum við í tvígang orðið vitni að því að evrópsk borgarastyrjöld leiddi til alheimsátaka.
    Hin hræðilega atburðarás í rússneska lýðveldinu Tsjetsjeníu hefur óneitanlega áhrif á samskipti Rússlands við umheiminn þótt flestir telji að þar sé um innanríkismál að ræða. Mannréttindi og mannúðaraðstoð eru hins vegar ekki einkamál ríkja eins og alþjóðasamþykktir staðfesta. Á því sviði verður að halda Rússlandi að sínum skuldbindingum ekki síður en öðrum ríkjum.
    Þótt andi köldu í samskiptum Rússlands og Atlantshafsbandalagsins þessa dagana hljótum við að vona að úr rætist sem fyrst. Óneitanlega tekur tíma að byggja upp traust eftir hálfrar aldar spennuástand. Við Íslendingar hljótum að styðja slíka viðleitni, bæði á vettvangi fjölþjóðlegra samskipta og tvíhliða samskipta. Í heimsókn minni til Rússlands 19. des. sl. var undirrituð yfirlýsing um samskipti ríkjanna í þeim anda.
    Fram undan er afar flókin umræða um fyrirkomulag öryggismála í Evrópu. Atlantshafsbandalagið hefur, eins og að ofan greinir, hafið vinnu hvað þetta varðar þar sem áhersla er lögð á væntanlega stækkun þess. Evrópusambandið er nú að móta hugmyndir sínar um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu sem væntanlega verður lögð fyrir milliríkjaráðstefnu þess á næsta ári.
    Vestur-Evrópusambandið hefur þegar hafið vinnu við mótun sameiginlegrar varnarstefnu sem Evrópusambandið gerir væntanlega sinni ásamt því að hefja ígrundun varðandi öryggispólitísk málefni almennt. Vestur-Evrópusambandið er nú orðið samstarfsvettvangur 27 Evrópuríkja um evrópsk öryggis- og varnarmál. Samfara aðild að Evrópusambandinu hafa Svíþjóð, Finnland og Austurríki þegar gerst áheyrnaraðilar. Fjölgun aðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins og sú umræða sem þar er nú að hefjast um sameiginlega varnarstefnu sýnir mikilvægi þess fyrir Ísland að hafa þann aðgang sem aukaaðild veitir til að geta fylgst með og haft áhrif á öryggismálaþróun sem varðar Evrópu alla. Rétt er að vekja athygli á því að með áheyrnaraðild Finna og Svía að Vestur-Evrópusambandinu eru Norðurlöndin nú í fyrsta skipti öll aðilar að sama varnarbandalagi þótt með mismunandi hætti sé.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er einnig að hefja umfangsmikla athugun á hugsanlegri skipan öryggismála í Evrópu. Þrátt fyrir viss vonbrigði varðandi árangur á leiðtogafundi RÖSE sl. desember náðist þó sá árangur að RÖSE-ferlið var gert að stofnun og fer fram vaxandi starf innan hennar. Loks má nefna að Evrópuráðið hefur með óbeinum hætti látið öryggismál til sín taka með áherslu á lýðræðislegt öryggi og aðstoð við uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og stjórnkerfis í fyrrverandi kommúnistaríkjum. Stefnt er að útgáfu ítarlegs upplýsingarits um Evrópuráðið á vegum utanrrn. í náinni framtíð.
    Af þessu yfirliti má ljóst vera að gerjun í öryggismálum í Evrópu er veruleg. Áhrif stækkunar Evrópusambandsins og væntanlega Atlantshafsbandalagsins tengjast þessari umræðu. Öll ríki Mið- og Austur-Evrópu sem sækjast á annað borð eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu leggja jafnframt mikla áherslu á aðild að því og Evrópusambandinu. Stjórnvöld í ýmsum Evrópusambandsríkjum hafa einnig lagt áherslu á að stækkun Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins verði að haldast í hendur.
    Ísland verður að halda öllum seglum í þessu ölduróti evrópskra öryggismála. Vissulega er Atlantshafsbandalagið okkar mikilvægasta haldreipi eins og áður segir og verður um fyrirsjáanlega framtíð. Enginn þarf að efa áherslu okkar á mikilvægi þess og tengslanna í vestur. En vel er þó líklegt að öryggispólitískar ákvarðanir sem teknar verða í öðrum samtökum kunni að hafa mikilvæg áhrif á okkar öryggismál. Atlantshafsbandalagið getur ekki orðið eini grundvöllur framtíðarfyrirkomulags í öryggismálum þessarar álfu. Til þess dugir stofnsamningur þess einfaldlega ekki. Einhvers konar verkaskipting milli Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins, Vestur-Evrópusambandsins og hinnar nýju öryggis- og samvinnustofnunar, ÖSE, er ekki ólíkleg niðurstaða af þessari öryggismálaumræðu þar sem jafnvægi skapast og öryggi allra Evrópuríkja verður vonandi tryggt. Í aðdraganda þeirrar ákvörðunar verðum við að taka ábyrgan þátt.
    Í febrúar 1992 samþykkti ríkisstjórnin að tillögu minni breytingar í frjálsræðisátt á fyrirkomulagi varnarframkvæmda sem kostaðar eru af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Í framhaldi af því hafa staðið yfir samningar við mannvirkjasjóðsnefndina og bandarísk stjórnvöld. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var í þessum samningum lögð áhersla á að verk yrðu boðin út innan lands hvenær sem unnt væri og komið væri á opnu og skilvirku kerfi sem stuðlaði að þátttöku fyrirtækja í útboðum. Þá var af okkar hálfu lögð áhersla á að útboðsskilmálar yrðu sniðnir að ákvæðum íslensks staðals um byggingarframkvæmdir. Þetta hefur gengið eftir og er nú verið að leggja síðustu hönd á útboðsskilmála fyrir fyrsta verkið sem boðið verður út hér á landi samkvæmt þessu nýja kerfi. Þessi niðurstaða er fyrsti liður í nauðsynlegri aðlögun á fyrirkomulagi verktöku fyrir Atlantshafsbandalagið og varnarliðið. Við þá endurskoðun þarf að hafa í huga að auka frjálsræði í ljósi breyttra aðstæðna á verktakamarkaði og kröfu varnarliðsins um ráðdeild í rekstri varnarstöðvarinnar í Keflavík. Á hinn bóginn verður einnig að hafa í huga hagsmuni Suðurnesjamanna sem byggja atvinnu- og rekstrarumhverfi að stóru hluta á samskiptum við varnarliðið.
    Sá vonarneisti sem kviknaði við friðarumleitanir Carters, fyrrum Bandaríkjaforseta, í Bosníu-Hersegovínu fyrir jól hefur enn ekki orðið að friðarloga. Enn eru tillögur tengihópsins svokallaða eini raunhæfi samningagrundvöllurinn sem hægt er að byggja friðarsamkomulag á. Það er vissulega ánægjulegt að hægt verður að halda áfram þátttöku Íslands í friðargæslu í Bosníu-Hersegovínu. Þátttaka þessi hefur fært heim sanninn um það að Ísland vill leggja fleira til en orðin tóm og eftir þessu hefur verið tekið meðal

bandalagsþjóða okkar.
    Nú líður óðum að endurskoðunarráðstefnunni um samninginn gegn útbreiðslu kjarnavopna. Afar mikilvægt er að styrkja þann samning og gefa honum ótakmarkaðan gildistíma. Komið hefur í ljós á undirbúningsfundi í lok janúar að enn ber mikið í milli en mikið er í húfi að takist að framlengja þennan tímamótasamning. Í síðustu viku ákvað Bandaríkjastjórn að framlengja einhliða stöðvun kjarnavopnatilrauna, a.m.k. fram í september 1996 en þá eru vonir við það bundnar að hægt verði að undirrita samning um allsherjarbann við kjarnasprengingum. Vonandi mun þessi ákvörðun auðvelda samstöðu allra þjóða varðandi þennan umdeilda en mikilvæga málaflokk almennt og sérstaklega stuðla að ótakmarkaðri framlengingu samningsins.
    Samningurinn um bann við efnavopnum tók ekki gildi um áramót eins og bjartsýnustu áætlanir höfðu gert ráð fyrir þar sem undirbúningur að fullgildingu hefur reynst flóknari en ráð var fyrir gert. Enn vantar verulega upp á þann fjölda staðfestinga sem nauðsynlegur er til að hann öðlist gildi. Stefnt er að því að hægt verði að leggja samninginn fyrir Alþingi til staðfestingar fjótlega.
    Sameinuðu þjóðirnar verða eins og kunnugt er 50 ára þann 24. okt. á þessu ári. Á þeim merku tímamótum gefst kærkomið tækifæri til þess bæði að horfa fram á veginn og beina sjónum að því sem vel hefur tekist í starfsemi þeirra. Samtökin hafa oft sætt gagnrýni, sérstaklega að því er varðar varðveislu friðar og öryggis í heiminum. Allir ættu þó að geta verið sammála um að vel hefur tekist til á mörgum sviðum sem tryggja undirstöðu friðar og öryggis. Þannig hefur starf Sameinuðu þjóðanna á sviði nýlendu- og sjálfstæðismála og við eflingu mannréttinda óneitanlega verið árangursríkt. Umtalsverður árangur hefur einnig náðst á undanförnum árum á sviði umhverfis- og þróunarmála.
    En þessi tímamót í sögu Sameinuðu þjóðanna eru ekki einungis tilefni til að minnast þess sem vel hefur verið gert. Vandamál heimsins sem samtökin þurfa að glíma við hafa síst minnkað og sífellt meiri kröfur eru gerðar til stofnunarinnar. Engin teikn eru á lofti um að stefni í friðarátt í heiminum og ekkert bendir til þess að mikilvægi Sameinuðu þjóðanna við varðveislu sameiginlegs öryggis hafi minnkað. Mikilvægt er því að laga stofnunina að breyttum aðstæðum svo hún verði vandanum vaxin.
    Í þessu ljósi ber einnig að túlka endurskoðun á starfsemi öryggisráðsins sem hefur fengið aukið mikilvægi á undanförnum árum. Ráðgert er að fleiri ríkjum verði gefinn kostur á að eiga sæti í ráðinu í náinni framtíð. Mikilvægt er að fjölgun í öryggisráðinu verði takmörkuð og þannig háttað að hún dragi ekki úr getu þess til að bregðast á árangursríkan og skjótan hátt við vandamálum sem upp koma. Að sama skapi er mikilvægt fyrir Ísland að tryggt að smærri ríki eigi þess kost að eiga sæti í ráðinu.
    Búast má við því að breytingar verði á norrænu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á komandi árum eftir inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Evrópusambandið þótt norrænt samstarf muni halda áfram á þeim vettvangi sem annars staðar. Hætt er við að Norðurlönd verði að draga úr samstarfi sínu og muni koma sjaldnar saman og fram sem einn samstæður hópur. Því veldur einkum að Evrópubandalagsríkin koma fram sameiginlega í flestum málaflokkum. Verulegur tími fulltrúa Evrópusambandsríkja fer í innbyrðis samráð. Lítill tími verður því aflögu fyrir samráð Norðurlandanna.
    Á sama tíma og íslensk stjórnvöld kappkosta að viðhalda norrænu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eftir því sem við verður komið verður að huga að leiðum til þess að efla þátttöku Íslands í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og fyrirbyggja þannig að rödd Íslands veikist á þeim vettvangi. Ríkisstjórnin hefur m.a. af þeirri ástæðu ákveðið, að tillögu minni, að Ísland sækist eftir aðild að efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna. Aðild mun auka möguleika á nánara samstarfi við ríki sem eiga sömu hagsmuna að gæta og Ísland, t.d. á sviði hafréttarmála, umhverfismála og mannréttindamála.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa á undanförnum fjórum árum boðað til fjögurra alþjóðlegra ráðstefna þar sem mannlegi þátturinn hefur verið í fyrirrúmi, þ.e. leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í New York um málefni barna, ráðstefnu Sameinuðuð þjóðanna í Ríó um umhverfi og þróun, alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi í Vín og loks nýlokinnar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaíró um mannfjölda og þróun. Ein af grundvallarniðurstöðum allra þessara ráðstefna hefur verið ákall um aukna samstöðu samfélags þjóðanna við lausn alþjóðlegra vandamála. Mikilvægur leiðtogafundur um félagsmál stendur nú fyrir dyrum í mars í Kaupmannahöfn.
    Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna verður haldin í Peking næsta haust. Mannréttindi kvenna eru viðfangsefni ráðstefnunnar í Peking. Undirbúningsnefnd Íslands hefur tekið mið af þessu meginþema við undirbúningsstarf sitt. Undirbúningsnefndin hefur látið taka saman handbók um mannréttindi kvenna þar sem helstu efnisatriði samninga og yfirlýsinga sem varða rétt kvenna sérstaklega eru rakin. Einnig er áætlað að gefa út bækling með helstu upplýsingum um ráðstefnuna. Undirbúningsnefndin hefur gætt þess í hvívetna að hafa samráð við kvennahreyfingar og önnur félög sem vinna að jafnrétti kvenna og karla. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir átt fulltrúa í ráðgjafahópi undirbúningsnefndarinnar.
    Skýrsla Íslands til Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna hér á landi er á lokastigi. Við gerð hennar hefur verið haft samráð við fjölda kvenstofnana og annarra aðila. Skýrslan verður send nefndum Alþingis áður en endanlega verður frá henni gengið.
    Athygli skal vakin á því að ítarlegri skýrslu um starfsemi 49. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna árið 1994 hefur verið dreift á Alþingi.
    Starfshópur um stefnumörkun í úthafsveiðimálum hefur haldið áfram vinnu sinni við undirbúning

málflutnings Íslands á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Íslenska sendinefndin hefur á undanförnum vikum unnið að því að kynna tillögur okkar sem taka mið af að tryggja sérstöðu og hagsmuni Íslands sem best. Það að fá aðrar þjóðir til að taka tillit til sérstöðu Íslands vegna mikilvægis fiskveiða, hvort sem þær eru nær eða fjær, er lykilatriði í okkar málflutningi. Breytingartillögum Íslands við texta formanns ráðstefnunnar hefur verið dreift til allra aðildarríkja hennar. Þær taka mið af því að tryggja með svipuðum hætti og í 71. gr. hafréttarsamningsins rétt ríkja sem eru efnahagslega í mjög miklum mæli háð nýtingu lífrænna auðlinda.
    Það er skýlaus stefna okkar að vinna að gerð bindandi alþjóðasamnings um deilistofna og miklar fartegundir á úthafinu, tryggja rétt strandríkja við nýtingu auðlindanna á aðlægum svæðum við efnahagslögsöguna og koma á virku kerfi fiskveiðistjórnunar og fiskverndar utan við 200 sjómílur. Væntanlegur samningur um stjórnun fiskveiða á úthöfunum mun verða stór áfangi í baráttu okkar Íslendinga fyrir verndun fiskstofna og lífríki hafsins. Samningnum er ætlað að setja reglur um stjórnun fiskveiða utan efnahagslögsögunnar. Hann mun því verða ásamt hafréttarsamningnum hinn alþjóðlegi lagagrunnur um verndun, stjórnun og nýtingu fiskstofna.
    Á fundi mínum með Andrei Kozyrev, utanríkisráðherra Rússlands, þann 19. des. sl. var ákveðið að halda fund embættismanna til að fjalla um málefni Barentshafs og fiskveiða Íslendinga þar. Einnig var ákveðið að stefna að þríhliða fundi milli Íslands, Rússlands og Noregs. Í sameiginlegri yfirlýsingu um grundvallaratriði í samskiptum Íslands og Rússlands sem undirrituð var á fundi mínum og utanríkisráðherra Rússa eru ákvæði sem lúta að stofnun sameiginlegrar nefndar sem ræða skal samvinnu ríkjanna á sviði efnahagsmála og viðskipta, þar með talin samvinna um fiskveiðar og nýtingu lífrænna auðlinda hafsins. Á fundum embættismanna landanna í Múrmansk þann 20. jan. sl. var síðan rætt um mögulegan samvinnugrundvöll á sjávarútvegssviðinu.
    Íslendingar hafa frá upphafi veiða í Smugunni svokallaðri og frá upphafi ágreinings um þær lýst sig fúsa til samninga um málið. Við teljum eðlilegt að Íslendingar fái varanlegan aðgang að veiðum í Barentshafi og raunhæfan en sanngjarnan kvóta til þorskveiða sem af fiskverndarástæðum væri tengdur stofnstærð Barentsþorksins. Ég vil lýsa þeirri von minni að viðsemjendur okkar, Norðmenn og Rússar, skilji mikilvægi þessara veiða fyrir okkur og að samningar megi takast á næstunni um þetta mál.
    Eins og alþjóð er kunnugt undirrituðu sjávarútvegsráðherrar Noregs og Kanada samning milli landanna þann 9. jan. sl. um fiskverndun og framkvæmd fiskverndarákvæða. Í samningi þessum er ákvæði sem lýtur að fiskverndarsvæðinu við Svalbarða þar sem ríkin viðurkenna rétt Noregs til að fara með óskoraðan fullveldisrétt og lögsögu sem strandríki ber samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og að Svalbarðasamningurinn frá 9. febr. 1920 nái ekki til svæðisins. Kanadísk stjórnvöld hafa fengið lögfræðilega álitsgerð okkar um málið og hef ég óskað þess að þau endurskoði umrætt ákvæði samningsins. Norðmenn geta einungis sótt rétt sinn til fiskverndarlögsögunnar á grundvelli Svalbarðasamningsins og þurfa að virða réttindi annarra ríkja samkvæmt samningnum. Þess skal getið að Noregur og Kanada eiga eftir að undirrita og staðfesta þennan tvíhliða samning.
    Í ræðu minni um utanríkismál síðastliðinn október vakti ég máls á mikilvægi þess að tekist yrði á við hvalveiðimálið sem enn væri óleyst. Rétt er að árétta mikilvægi þess að á því máli verði tekið af varfærni en festu, enda um viðkvæmt utanríkispólitískt mál að ræða sem hefur áhrif út fyrir þrönga, efnislega skilgreiningu þess. Við lausn þessa máls verður að gefa gaum að hvoru tveggja í senn, grundvallarsjónarmiðum okkar og langtímahagsmunum varðandi nýtingu auðlinda og samskiptum okkar við helstu viðskiptaaðila og bandamenn. Lausn málsins verður að finna stað innan alþjóðlegra viðurkenndra vébanda. Undir lok sl. árs ákváðum við sjútvrh. að setja á fót starfshóp til að meta hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið á alþjóðavettvangi í máli þessu og í þeim tilgangi m.a. að undirbúa viðræður við þá erlendu aðila sem málið varðar. Ég ítreka mikilvægi þess að framganga okkar í þessu máli verði vel ígrunduð og markviss.
    Virðulegi forseti. Fáar þjóðir eiga eins mikið undir því að eiga góð samskipti við umheiminn og við Íslendingar. Sagan kennir okkur að þegar þau eru opin og frjáls vegnar þjóð okkar vel en miklu miður þegar hafta- og einangrunarhyggja ríkir. Okkur Íslendingum er hollt að leita jafnan lausna á sviði utanríkismála með þetta í huga. Á þeim stutta tíma sem til þess er ætlaður hef ég gert grein fyrir nokkrum þeim höfuðatriðum á sviði utanríkismála sem fjalla þarf um. Þær umræður sem nú fara í hönd þurfa þó ekki að takmarkast við þetta yfirlit.