Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 11:33:34 (4091)


[11:33]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Margt hefur breyst í alþjóðamálum á þeim tæpum fjórum árum sem liðin eru síðan þetta kjörtímabil okkar alþingismanna hófst. Þá voru þjóðirnar sem bjuggu við ofríki kommúnismans í Austur- og Mið-Evrópu að hefja framgöngu sína til frelsis og framfara undir merkjum lýðræðis og á grundvelli markaðsbúskapar. Þá voru menn vissir um að þessi ganga yrði bæði löng og ströng. Sú spá hefur reynst rétt. Verst er þó ástandið í þeim löndum þar sem fleiri en ein þjóð voru neyddar til að lúta sömu harðstjórn kommúnista eins og í fyrrverandi Júgóslavíu og Rússlandi. Átökin í Júgóslavíu varpa skugga yfir alla Evrópu. Ráðþrota stöndum við frammi fyrir því sem þar er að gerast. Af litlum mætti höfum við Íslendingar lagt mikilvægan skerf að mörkum til friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Framlag okkar hefur vakið verðuga athygli ekki síst fyrir þá sök að við erum vopnlaus þjóð. Innan vébanda Atlantshafsbandalagsins höfum við einnig staðið að ákvörðunum sem miða að því að koma á friði í umboði Sameinuðu þjóðanna. Við eigum að standa áfram að þessum aðgerðum eins og utanrmn. Alþingis lagði samhljóða áherslu á í áliti sínu vegna fjárlagafrv. fyrir árið 1995.
    Ég er þeirrar skoðunar að við nýjar aðstæður í alþjóðamálum þar sem meira er en áður um alþjóðlega íhlutun á svæðum þar sem spenna eða ófriður ríkir eigum við Íslendingar óhikað að láta að okkur kveða ef það mætti verða til að létta undir með fórnarlömbum átaka eða stilla til friðar. Minnumst þess einnig að gæsla lýðræðislegra stjórnarhátta og mannréttinda er snar þáttur í viðleitni manna til að koma í veg fyrir átök og draga úr líkum á að hættuástand skapist. Í því efni ættum við Íslendingar e.t.v. að geta lagt eitthvað af mörkum.
    Þróunin í Rússlandi er því miður ekki á þann veg að ástæða sé til mikillar bjartsýni. Stríðið í Tsjetsjeníu hefur dregið athygli manna að þeirri staðreynd að Borís Jeltsín Rússlandsforseti stjórnar í krafti óljósra heimilda og hefur vilja þingsins í Moskvu t.d. að engu þegar honum býður svo við að horfa. Er nú svo komið að eini kunni rússneski þingmaðurinn sem óhikað lýsir yfir stuðningi við Jeltsín er öfgamaðurinn Vladímir Zhírínovskí sem bætir því gjarnan við í ofsafengnum þjóðernisræðum sínum að hann verði næsti forseti Rússlands.
    Ástandið var slæmt í Rússlandi á tímum kommúnista en það hefur því miður versnað enn síðan. Leyndarhyggjan ræður enn ríkjum í Kreml og svo virðist sem svokallað öryggisráð forsetans fari með öll völd. Undir forustu þess hefur verið sótt á villimannlegan hátt gegn íbúm Tsjetsjeníu. Lýðræðislegir stjórnarhættir eru að engu hafðir, allir alþjóðasamningar um mannúðlega meðferð á almennum borgurum í hernaðarátökum eru hundsaðir, hjálparsveitum er meinað að komast á vettvang þar sem hundruð þúsunda manna búa við eða hafa flúið undan stríðseyðileggingu. Við sem búum við öryggi og velsæld Vesturlanda getum ekki einu sinni gert okkur þetta ástand í hugarlund. Því miður stöndum við næsta bjargarlausir andspænis ofbeldinu. Vissulega er það ekki á valdi okkar að koma í veg fyrir að Rússland liðist í sundur. Við getum hins vegar lagt að ráðamönnum í Rússlandi að sýna miskunn og sanngirni í stað ofbeldis og grimmdar.
    Upplausnin í Rússlandi er þó ekki síst ógnvænleg fyrir þá sök að þar er mikið magn öflugra kjarnorkuvopna. Eru hagsmunir alls mannkyns í húfi þegar leitað er leiða til að koma í veg fyrir að þessi vopn komist í hendur óábyrgra afla eða jafnvel glæpamanna. Þegar litið er á þróunina í Mið- og Austur-Evrópu hafa mestu breytingarnar orðið í austurhluta Þýskalands annars vegar og Tékklandi hins vegar. Þjóðverjarnir sem bjuggu við sósíalisma og kommúnisma hafa notið góðs af sameiningunni við vesturhlutann. Vestur-Þjóðverjar hafa flutt gífurlegt fjármagn til frænda sinna í austri. Er ævintýralegt að koma inn á fyrrverandi hernámssvæði Sovétríkjanna í Þýskalandi og sjá þá endurreisn sem þar fer fram. Er nú svo komið í Þýskalandi að þar telja menn sig komna yfir erfiðasta hjallann í sameiningu þjóðarinnar í eitt ríki. Hljóta allir að geta tekið undir að Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, hafi leitt þjóð sína af óvenju miklum þrótti í gegnum þessar breytingar.
    Sömu sögu er reyndar að segja um Václav Havel forseta Tékklands og Václav Klaus forsætisráðherra þess ríkis. Þeir brugðust við spennu innan lands vegna togstreitu milli Tékka og Slóvaka á þann hátt að skilja á milli þessara tveggja hluta Tékkóslóvakíu og stofna tvö ríki. Segja má að í Tékklandi hafi markvisst verið fylgt frjálshyggjustefnu við endurreisn landsins úr rústum kommúnismans. Klaus forsætisráðherra hefur í senn mótað þá stefnu og fylgt henni fram. Hann varar mjög við því að hlaupa frá hálfkláruðu verki við þessar breytingar og líkir því við að læknar yfirgefi sjúkling á skurðarborðinu. Það hefur því miður gerst í nokkrum hinna nýfrjálsu landa þar sem sósíalistar og gamlir kommúnistar hafa komist til

valda.
    Sagt var þegar þetta breytingarskeið var að hefjast að eitt væri að endurreisa efnahag þessara þjóða og koma á lýðræðislegum stjórnarháttum, annað að lækna þau sálrænu mein sem af ofstjórninni leiddu. Það yrði erfitt fyrir marga að laga sig að frelsi og kröfum lýðræðisins. Auk þess væri ljóst að margir teldu sig hafa harma að hefna. Í Þýskalandi hefur verið gengið skipulega til verks að þessu leyti. Meðal ráðstafana sem stjórnvöld hafa gripið til er að opna verulegan hluta af leyniskjalasöfnum austur-þýsku öryggislögreglunnar Stasi. Tilgangurinn með því var í sjálfu sér ekki að koma höggi á neinn heldur leiða í ljós hina hliðina á hinu kommúníska þjóðfélagi til að menn gætu áttað sig á henni og því sem gerðist á bak við tjöldin. Þá var það einnig markmið með því að opna skjalasöfnin að almenningur ætti þess kost að vara sig á þeim sem höfðu starfað í skjóli Stasi. Í Þýskalandi voru þær upplýsingar sem sagt gerðar opinberar til að koma í veg fyrir að kúgarar fortíðarinnar og samstarfsmenn þeirra gætu kúgað og kvalið á ný.
    Umræður urðu um Stasi-skjölin hér á landi strax eftir að austur-þýska kerfið hrundi. Sjálfur fór ég sem blaðamaður til Austur-Berlínar og Prag snemma árs 1990 og átti þess m.a. kost að heimsækja höfuðstöðvar Stasi í Berlín. Þá höfðu starfsmennirnir lagt þær undir sig. Síðan hef ég skoðað safn í Leipzig þar sem dregið er fram ýmislegt úr starfi Stasi. Minnir það allt mjög á söfn til minningar um starfshætti nasista og úrræði þeirra til að hrella fólk og ná tökum á því. Íslenskir sagnfræðingar og fréttamenn hafa síðan komist í skjölin sjálf. Þau staðfesta að formleg og mjög náin tengsl voru milli stjórnmálamanna hér á landi og ráðamanna kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi. Tveir hv. alþm. nutu m.a. góðs af þessari samvinnu þar sem þeir voru valdir á flokkslegum forsendum til að stunda nám í Austur-Þýskalandi. Hinn sálræni og pólitíski vandi sem tengist hruni kommúnismans teygir sig því hingað til lands og raunar inn fyrir veggi Alþingis. Er ekki unnt að láta þess ógetið þegar rætt er um þróun utanríkismála í lok þessa kjörtímabils.
    Í upphafi þess hvatti ég þá sem starfa í Alþb. til að gera upp við þessa fortíð sína og flokks síns. Þeim kröfum var í engu sinnt og gjarnan svarað með skætingi, flissi og útúrsnúningi. Ég heyri ekki betur en að tónninn hafi dálítið breyst eftir þann sjónvarpsþátt sem sýndur var hér á landi um síðustu helgi. Við höfum m.a. á þingi mann sem segist hafa flúið ófrelsið, eins konar pólitískan flóttamann sem þó var sendur á flokkslegum forsendum til náms í Austur-Þýskalandi. Ég hvet enn til þess að Alþb. geri hreint fyrir sínum dyrum. Það fer ekki vel á því að skjöl frá útlöndum hreki menn úr einu víginu í annað.
    Með leyfi hæstv. forseta, vil ég í þessu sambandi vitna í ummæli dr. Þórs Whiteheads, sagnfræðiprófessors við Háskóla Íslands, sem ræddi um Alþb. og samskipti þess austur á bóginn í Alþýðublaðinu í gær. Hann sagði m.a.:
    ,,En uppgjör við fortíðina hefur ekki farið fram heldur þvert á móti, þessi gamli kjarni í flokknum hefur alltaf færst undan öllu slíku. Þetta væri ekkert fréttaefni ef svo væri ekki. Hvers vegna sögðu þeir ekki frá þessum tengslum sínum við austur-þýsku leynilögregluna Stasi? Framburður þessara manna var ekki mjög trúverðugur í sjónvarpsþættinum.
    Við höfum einungis séð toppinn á ísjakanum. Það eiga eftir að koma fram margvíslegar heimildir sem sanna það. Þetta er líka athyglisvert í því ljósi að það sýnir að hér á landi var háð alþjóðleg barátta á milli fylgismanna alræðisríkjanna annars vegar og lýðræðisríkjanna hins vegar.
    Þeir sem vildu Sovét-Ísland hafa alltaf svarið af sér þessi tengsl og vilja draga upp þá mynd af sér að þeir hafi verið þjóðlegir verkalýðssinnar sem hafi barist gegn erlendum áhrifum af föðurlandsást. Mér finnst nú eins og vanti eitthvað upp á þjóðlegu reisnina þegar maður heyrir þeirra eigin lýsingar á samskiptum þeirra við þessa illræmdu leynilögreglu. Þeir lýsa sér sem ofsóttum minnihlutahópi í ríkjum þar sem þeir voru í raun heiðursgestir á vegum síns eigin flokks.``
    Hæstv. forseti. Um leið og ég geri þessi orð dr. Þórs Whiteheads að mínum vil ég árétta að hér á landi eins og alls staðar er nauðsynlegt að líta á þessi mál bæði í samhengi við þróun alþjóðamála og pólitíska starfsemi innan lands. Gleymum því ekki að Stasi var skilvirkasta njósnastofnun Evrópu og sú sem náði mestum árangri gagnvart NATO og Vesturlöndum. Í sjónvarpsþættinum kom fram hjá austur-þýskum viðmælendum sjónvarpsmannanna að áhugi austur-þýskra kommúnista og Stasi á Íslandi byggðist ekki síst á tilraunum til að grafa undan aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
    Enn skiptir aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin sköpum fyrir okkur Íslendinga þegar við hugum að öryggishagsmunum okkar. Á kjörtímabilinu hefur tvennt gerst sem ástæða er til að fagna varðandi þróun íslenskra öryggismála. Í fyrsta lagi hefur náðst víðtækari sátt en áður um það innan lands að nauðsynlegt sé fyrir okkur að vera í NATO og eiga náið samstarf við Bandaríkin í varnarmálum. Vísa ég til umræðna um þetta mál hér á þingi við sambærilegar aðstæður t.d. á síðasta ári.
    Í öðru lagi var stofnað til viðræðna við Bandaríkjastjórn um gildi varnarsamningsins við breyttar aðstæður í öryggismálum. Í viðræðunum kom fram að í Washington var enginn áhugi á því að hrófla við samningnum og í ársbyrjun 1994 var samið um breytt fyrirkomulag á vörnunum sem að mínum dómi tryggir öryggishagsmuni okkar við núverandi aðstæður. Utanrmn. hafði tækifæri til að ræða þessi mál við bandaríska þingmenn og fulltrúa Bandaríkjastjórnar í fyrstu heimsókn sinni til Washington á síðasta ári. Dreg ég þá niðurstöðu af þeim viðræðum að hið nána samstarf sem við höfum átt við Bandaríkin í varnarmálum í rúma fjóra áratugi muni þróast og laga sig að breyttum aðstæðum. Að sjálfsögðu skiptir mestu máli fyrir okkur að í landinu sé viðbúnaður til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Þar skipta traustar loftvarnir ekki síst máli. Að mínu mati eigum við að stefna enn frekar að því að auka hlut Íslendinga í starfsemi Keflavíkurstöðvarinnar. Jafnframt þarf að taka nýjar stefnumótandi ákvarðanir um framtíð þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa starfað fyrir varnarliðið ekki síst Íslenska aðalverktaka.
    Atlantshafsbandalaginu hefur gengið vel að laga sig að breyttum aðstæðum. Hlutverki þessa mikla friðarbandalags er síður en svo lokið. Samvinna þess og ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu eykst stig af stigi. Á þessu ári verður unnið að því innan vébanda þess að kanna hvernig staðið skuli að stækkun bandalagsins. Litlar umræður hafa farið fram um það mál hér á landi. Þær eru hins vegar nauðsynlegar. Fyrir okkur Íslendinga er stækkun NATO hins vegar minna mál en þær þjóðir sem leggja mest af mörkun til hernaðarsamstarfsins innan þess, þær er í raun að axla ábyrgð á öryggi nýrra ríkja og taka á sig nýjar skuldbindingar í þeirra þágu.
    Um leið og athygli NATO beinist í austurátt þegar rætt er um stækkun vaxa áhyggjur ráðamanna innan þess þegar litið er til Miðjarðarhafssvæðisins. Í Norður-Afríku vex öfgasinnuðum múhameðstrúarmönnum ásmegin og beita þeir grimmilegum úrræðum í þágu málstaðar síns eins og hvað best sést í Alsír. Mörg ríki Atlantshafsbandalagsins hafa öryggishagsmuna að gæta á Miðjarðarhafi og því er ekki óeðlilegt að bandalagið leggi áherslu á gæslu öryggis á því svæði eins og nú er á döfinni. Ráðagerðir í því efni tengjast einnig ótta margra við það að til átaka kunni að koma á milli hinna ólíku menningarheilda sem byggjast á kristinni lífsskoðun annars vegar og múhameðstrú hins vegar. Má leiða nokkur rök að því að átökin í Júgóslavíu fyrrverandi og Norður-Kákasus séu að öðrum þræði átök milli menningarheilda þótt þau séu almennt ekki skilgreind með þeim hætti.
    Á milli jóla og nýárs náðist góð sátt um það í utanrmn. hvernig staðið skyldi að afgreiðslu tillögunnar sem heimilaði ríkisstjórninni að fullgilda stofnsamninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina sem er arftaki GATT. Umræður um hið nýja GATT-samkomulag hafa orðið af og til á Alþingi á kjörtímabilinu og tel ég að þannig hafi verið á málum haldið og að hagsmuna Íslands hafi verið vel gætt. Fyrir okkur sem eigum jafnmikið undir utanríkisviðskiptum og raun er skiptir aukið frelsi á þessu sviði mjög miklu. Athyglisvert er að lesa niðurstöður þeirra sérfræðinga sem benda á að aukið viðskiptafrelsi leiði til þess að lítil ríki og smáfyrirtæki njóti sín betur en áður. Fjölþjóðlegu risarnir höfðu afl til að brjótast í gegnum viðskiptamúrana og þeim var stundum beinlínis komið á fót til að vera slíkir múrbrjótar. Þegar múrarnir eru hrundir eru mörg þessara fyrirtækja að leysast upp í smærri einingar. Það hefur vakið sérstaka undrun mína að sá hv. þm. sem helst lagðist gegn aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Hjörleifur Guttormsson, skyldi m.a. rökstyðja andstöðu sína með því að hann vildi ekki þóknast fjölþjóðafyrirtækjum. Hann var einmitt að gera það með því að vera á móti GATT. Risanna er ekki þörf þegar frelsið leyfir hinum smáu að njóta sín. Við sem stóðum að því að afgreiða samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina í utanrmn. höfum úr ólíklegustu áttum mátt sæta ákúrum fyrir að hafa gengið of langt til móts við landbúnaðinn í ályktun okkar. Var m.a. látið að því liggja um þær mundir sem málið var enn til umræðu í þinginu að þennan samning mætti nota sem eins konar skiptimynt til að lækka matarverð í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Allt slíkt tal er til þess eins fallið að villa um fyrir mönnum um efni samningsins.
    Þá er einnig alrangt að láta í veðri vaka að hér á landi séu menn eitthvað sérstaklega varkárir vegna landbúnaðar í tengslum við GATT. Um heim allan er gengið fram af mikilli gát þegar teknar eru ákvarðanir um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur.
    Nú í lok janúar bárust fréttir af tveggja daga sérfræðingafundi Alþjóðabankans um þróunarlöndin og Úrúgvæ-samkomulagið sem lá til grundvallar við síðustu breytingar á GATT-samningnum og við stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Sérfræðingarnir telja síður en svo að við blasi ótvírætt frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Niðurstöður þeirra stangast mjög á við þá almennu skoðun að landbúnaðarþáttur samningsins hafi verið markvisst skref til að létta höftum af heimsviðskiptum með landbúnaðarvörur. Ef umræður um þessi mál hér á landi eiga að endurspegla þessa faglegu túlkun á landbúnaðarmálunum og GATT held ég að við sem stóðum að niðurstöðunni í utanrmn. séum nær raunveruleikanum en hinir sem berja sér á brjóst og láta eins og með þessum samningi hafi verið stigið eitthvert skref sem dugir jafnvel sem framlag til kjarasamninga á líðandi stundu vegna verðlækkunar á landbúnaðarvörum. Ég vona a.m.k. að væntanlegir kjarasamningar verði byggðir á traustari grunni.
    Á fyrri hluta kjörtímabilsins settu deilur um samskipti okkar við Evrópusambandið mikinn svip á störf Alþingis. Hart var tekist á um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég er þeirrar skoðunar að sú sátt sem náðist innan utanrmn. vorið 1993 og staðfest var með samhljóða ályktun Alþingis 5. maí það ár hafi markað heillavænleg þáttaskil í Evrópuumræðunum hér á þingi. Eins og menn muna var EES-samningurinn lagður þar til grundvallar og sagt að gengju fjögur EFTA-ríki inn í Evrópusambandið mundum við semja tvíhliða við sambandið á grunni EES. Nú fór svo eins og við vitum að Norðmenn sögðu nei í þjóðaratkvæðagreislu um aðild að ESB. Engar tillögur komu þó fram um það á Alþingi að hverfa frá ályktuninni sem samþykkt var 5. maí 1993. Var skipulega gengið til þess verks að laga EES-samninginn að breyttum aðstæðum og náðist góð sátt um afgreiðslu þeirra mála milli allra flokka. Verður ekki deilt um EES-samninginn í komandi kosningabaráttu. Eru það í raun veruleg pólitísk tíðindi miðað við hinar hörðu deilur um málið fyrir fáeinum missirum. Hrakspár um að EES-samningurinn yrði lítið annað en orð á blaði eftir stækkun Evrópusambandsins hafa ekki ræst. Sömu sögu er að segja um hræðsluáróðurinn um einangrun Íslands, t.d. í norrænu samstarfi. Þvert á móti má færa sterk rök fyrir því að næsta staðnað norrænt samstarf gangi í endurnýjun lífdaganna vegna viðleitni allra Norðurlandanna til að laga sig að stækkun Evrópusambandsins.
    Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína að við Íslendingar eigum ekki að setja punkt aftan við umræður okkar um samstarf við Evrópuþjóðirnar og aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu. Við eigum að vera lifandi þátttakendur og virkir í Evrópuumræðunum þótt við séum ekki í sama klefa og Evrópusambandsríkin eða ríkin í Mið- og Austur-Evrópu í Evrópuhraðlestinni. Á sínum tíma taldi ég að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu yrði til þess að draga úr kröfum um aðild að Evrópusambandinu. Ég gekk aldrei jafnlangt og hæstv. utanrrh. sem lýsti því hvað eftir annað yfir á Alþingi að vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu þyrftum við ekki að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þetta gerði ráðherrann á þeim tíma þegar við hefðum þurft að taka ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu til að komast þar inn fyrir ríkjaráðstefnuna sem hefst á næsta ári. Ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu á að ráðast af reynslu okkar á næstu árum af aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Umræður um tengsl Íslands og Evrópusambandsins hafa þróast ört á undanförnum árum. Ég tel eðlilegt fyrir okkur Íslendinga að staldra við og njóta þess sem áunnist hefur. Við höfum tóm vegna þess að Evrópusambandið gengur ekki til viðræðna við nýja umsækjendur fyrr en eftir nokkur ár. Við eigum að nýta reynsluna af Evrópska efnahagssvæðinu til að taka ákvarðanir um framhaldið. Það er ekki tímabært að gefa hástemmdar kosningayfirlýsingar um það hvernig framtíðarsamskiptum okkar við Evrópusambandið skuli háttað. Sagan kennir okkur að slíkar yfirlýsingar duga oft skammt og þær eru ekki í samræmi við hefðir íslenskra stjórnmála. Ekki er með nokkru móti unnt að saka okkur stjórnmálamenn um að fara á bak við kjósendur þó að við leitum ekki eftir umboði til að semja um aðild að Evrópusambandinu í komandi kosningum. Aðild kæmi aldrei til álita án þjóðaratkvæðagreiðslu og breytinga á stjórnarskrá og hún verður ekki gerð án þingkosninga. Spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu á því ekki að verða meðal höfuðmála í komandi kosningabaráttu.
    Sumir vilja setja ESB-aðild í samhengi við stefnumótun íslenskra utanríkismála frá því að lýðveldið var stofnað og telja hana rökrétt framhald þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið. Slíkar yfirlýsingar byggjast ekki á sannfærandi rökum ef sagan er skoðuð. Þær minna hins vegar á þá staðreynd að flestar helstu ákvarðanir um íslensk utanríkismál hafa verið teknar án þess að um þær hafi sérstaklega verið ályktað fyrir kosningar. Eitt dæmi má nefna um hið gagnstæða en árið 1956 samþykktu þingmenn Alþfl. og Framsfl. að varnarliðið skyldi hverfa úr landi og fóru með þá samþykkt í kosningar undir merkjum Hræðslubandalagsins svonefnda. Að loknum kosningum bauðst lán frá Bandaríkjunum ef fallið yrði frá því að reka herinn úr landi og var lánið þegið en herinn sat áfram eins og okkur öllum er kunnugt.
    Ef litið er á hagsmuni okkar annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar með sjávarútvegsmál að leiðarljósi blasir við ágreiningur sem erfitt verður að jafna. Við vitum einnig að aðild okkar fylgdu töluverð útgjöld þótt sumir kunni að hafa hag af aðild að styrkjakerfi Evrópusambandsins. Þetta hvoru tveggja er skýrt og menn þurfa ekki að setjast á rökstóla um samningsmarkmið til að átta sig á staðreyndum af þessu tagi. Á móti nefna menn að með aðild yrðum við þátttakendur í töku ákvarðana á vettvangi Evrópusambandsins. Þetta er rétt að því leyti að aðilar að klúbbi eru almennt betur settir varðandi ákvarðanir um klúbbinn en þeir sem utan hans eru. Á hinn bóginn er það markmið ríkjaráðstefnunnar sem hefst 1996 að breyta innviðum Evrópusambandsins. Hefur smáríkjum á borð við Möltu og Kýpur verið bent á þessa staðreynd í umsögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarumsóknir þeirra með þeirri athugasemd að staða smáríkja kunni að verða önnur en hún er nú að lokinni ríkjaráðstefnunni. Í þessu orðalagi felst ekki að hún muni batna. Um hina jákvæðu hlið aðildarinnar ríkir þannig þó nokkur óvissa fram yfir ríkjaráðstefnuna. Breytingar á innviðum og stjórnskipun Evrópusambandsins hljóta að hafa áhrif á viðhorf hugsanlegra aðildarríkja. Við eigum að bíða og sjá hvernig að þessum breytingum verður staðið. Fyrr er varla tímabært að gera málið að deiluefni hér. Það getur varla verið markmið í sjálfu sér að stofna til pólitískra deilna hér á landi um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.
    Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Noregi lá í loftinu að Ísland yrði eitt Norðurlandanna utan Evrópusambandsins og næsta einmana sem EFTA-ríki. Eftir að Norðmenn sögðu nei hefur þetta breyst. Íslendingar og Norðmenn standa saman að Evrópska efnahagssvæðinu og íbúar Liechtenstein einnig þegar þeir hafa gengið frá öllum formsatriðum. Lyktir atkvæðagreiðslunnar í Noregi fækkuðu röksemdum fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Áður en Norðmenn sögðu nei var bent á það hér að staða Noregs innan Evrópusambandsins mundi spilla fyrir okkur við fisksölu á Evrópusambandsmarkaði. Þó stöndum við að ýmsu leyti betur að vígi á evrópskum fiskmörkuðum en Norðmenn og ekki er lengur unnt að halda því á lofti að einangrun Íslands sé meginvandamál við mótun íslenskrar utanríkisstefnu. Í máli eins og þessu verða menn að treysta á rök sem standast betur tímans tönn. Við erum að fjalla um varanlega hagsmuni íslensku þjóðarinnar en ekki eitthvert skyndiupphlaup í stjórnmálum.
    Vegna varnarsamstarfsins við Bandaríkin kalla öryggishagsmunirnir ekki á aðild okkar að Evrópusambandinu. Við erum auk þess í nánara samstarfi við helstu ríki Evrópusambandsins í öryggismálum en ýmis aðildarríki sambandsins sem eru aðeins áheyrnaraðilar að Vestur-Evrópusambandinu þar sem við erum þó aukaaðilar. Við eigum að taka vel hugmyndum um frekara samstarf í evrópskum öryggismálum ef óskir koma um sérstakar aðgerðir á vegum Evrópuríkja til að tryggja öryggi á hafsvæðum í nágrenni Evrópu.

Ekkert getur þó komið í staðinn fyrir þá tryggingu sem felst í varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
    Hæstv. forseti. Ég vil í lok máls míns þakka utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt. Ég er sammála öllum meginniðurstöum í skýrslunni og tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um hana. Varðandi það mál, sem hér hefur komið upp og kom upp hjá hv. síðasta ræðumanni, þ.e. afstöðu okkar til hvalveiða, vil ég eins og hæstv. utanrrh. hvetja til þess að gengið sé fram af varkárni og ég fagna raunar ummælum hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar um að aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu komi til álita til að tryggja hagsmuni okkar í hvalamálum. Ég tel að það sé mjög brýnt að víðtæk samstaða skapist um að skoða það mál til hlítar og kanna eins og hv. þm. sagði eftir hvaða leiðum við getum gengið til samstarfs við Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju án þess að glata að nokkru þeim rétti okkar til þess að hefja hvalveiðar. Vandinn í því máli er sá eins og hv. þm. er ljóst að árið 1983 samþykkti hið háa Alþingi að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins og undir því oki stöndum við enn og ef okkur tækist að létta því af okkur með aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu teldi ég skynsamlega að málum staðið.