Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:01:00 (4092)


[12:01]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var einn þáttur í máli hv. þm. sem ég vildi víkja að í andsvari. Hann kom í máli sínu að mínu mati með alveg sérstaklega ósmekklegum hætti að þeim sem hér talar og öðrum hv. alþm. sem hann tilgreindi þó ekki með nöfnum og notaði sjónvarpsþátt í íslenska Ríkissjónvarpinu á dögunum til þess að færa það mál inn á Alþingi Íslendinga. Hann tekur undir og gerir að sínum orðum dylgjur, sem komu fram hjá tilteknum söguprófessor í Alþýðublaðinu í gær, og er að láta liggja að því að nefndir þingmenn, ef ég hef skilið hv. þm. rétt, hafi verið með einhver tengsl við erlenda leyniþjónustu. Hann talaði um Stasi-tengsl í þessu sambandi með tilvitnun í umræddan sögupófessor. Ég verð að segja að mér finnst þetta það langt gengið að það er mjög erfitt að vita hvernig við skuli bregðast. Hvað mig snertir hef ég aldrei haft nein tengsl við erlenda leyniþjónustu fyrir austan tjald eða vestan það ég muni eftir eða viti til og ég hafði ekki meiri taugar til þess lands þar sem ég stundaði nám á sínum tíma en svo að ég sótti aldrei um vegabréfsáritun þangað eftir að ég fór þaðan 1963 til þess tíma að það ríki leið undir lok, aldrei nokkurn tíma. Ég kom einu sinni við á kaupstefnu þar sem ekki þurfti vegabréfsáritunar við, ég held 1975, á leið til annars lands. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að hv. þm. skuli kjósa að fara upp með þessum hætti hér. Mér þykir satt að segja leitt þingmannsins vegna að hann skuli leggjast svo lágt.