Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:04:50 (4094)


[12:04]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki bætti hv. þm. úr með orðum sínum hér áðan. Hann leggur að jöfnu það að menn hafi dvalist í einhverju landi og það að þeir hafi haft tengsl við leyniþjónustu viðkomandi ríkis. Þetta er satt að segja alveg ótrúlegur málflutningur.
    Á hvaða forsendum sá sem hér talar hafi verið í þessu ríki? Hann gæti spurt ýmsa. Hann gæti spurt hæstv. núv. utanrrh. hvers vegna hann hafi dvalist þar um skeið, að vísu sem ferðamaður eða bróðir hæstv. utanrrh., nú frambjóðandi Sjálfstfl. á Vestfjörðum, hafi verið við nám í þessum ríkjum og átt þar dvöl og annað þessar háttar. Hvar ætlar hv. þm. að draga mörkin? Þetta er með slíkum fádæmum að ég mótmæli svona dylgjum harðlega. Mér finnst þær fyrirlitlegar. En það kom kannski ekki svo sérstaklega á óvart frá þessum hv. þm. Hann hefur verið mjög iðinn við þann kola að reyna að koma slíku að, bæði í ræðu og riti, en það er ekki sæmandi fyrir þingmenn á Alþingi Íslendinga að ganga fram með þessum hætti.
    Það er sjálfsagt mál að ræða alþjóðamál í ýmsu samhengi, einnig þá sögu sem er verið að víkja til. Ekki skorast ég undan því og ég hef verið þátttakandi í því. En ég mótmæli áburði og dylgjum af þeim toga sem hér eru hafðar uppi.