Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:08:25 (4096)


[12:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það kjörtímabil sem nú er á enda hefur að mörgu leyti verið merkilegt tímabil í sögu heimsmálanna. Árin hafa skilað margvíslegum prófraunum til þeirra sem láta sig þessi mál varða. Þær prófraunir fela ekki aðeins í sér nýja sýn á gamla tíma. Þær fela líka í sér prófraun um það hvort menn hafa eiginleika til að vaxa eða hvort menn sitja fastir í fornum tíma.
    Ég hef á þessu kjörtímabili innan vettvangs utanmrn. átt að mörgu leyti ágætt samstarf við hv. þm. Björn Bjarnason. Ég hef sagt það víða á undanförnum missirum að ég tel að hann hafi með formennsku sinni í utanrmn. að mörgu leyti sýnt vit og manndóm til þess að reyna að varða veginn inn í nýja tíma í íslenskum utanríkismálum. Þeir nýju tímar tækju mið af því að menn væru fyrst og fremst að fást við þann veruleika sem blasir við samtímanum og framtíðinni en væru hvorki þrælar fortíðarinnar né svo helteknir af dómarahlutverki sínu í sögunni að annað kæmist ekki að. Mér þykir leitt að síðasta ræðan, sem hv. þm. flytur hér sem formaður utanrmn. á þessu kjörtímabili, skyldi að nokkrum hluta vera svo brennimerkt þeim hugsunarhætti kalda stríðsins sem skipti íslenskri þjóð í fjandsamlegar fylkingar, sem skapaði dýpri sár með Íslendingum en nokkuð annað. Ég hélt að það væri verkefni okkar sem nú erum á Alþingi og berum ábyrgð gagnvart íslenskum þjóðmálum að hefja okkur upp yfir þessa fornu tíð og takast í sameiningu á við það sem í raun og veru eru viðfangsefni Íslendinga í utanríkismálum um þessar mundir og í framtíðinni.
    Að fella dóm yfir fortíðinni er vandaverk. Það er vandaverk, hv. þm., m.a. vegna þess að málsskjölin eru ekki öll komin fram. Það vita allir sem til þekkja að stórveldin á tímum kalda stríðsins í áratugi stunduðu margvíslega óeðlilega starfsemi á Íslandi og gagnvart Íslendingum. Njósnastofnanir stórveldanna og fylgiríkja þeirra vörðu töluverðum kröftum til þess að eiga samskipti við Íslendinga af margvíslegu tagi. Það gerðu njósnastofnanir Sovétríkjanna, njósnastofnanir Austur-Þýskalands, njósnastofnanir Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Það er líka vitað mál að stjórnmálamenn í öllum flokkum á Íslandi, í Sjálfstfl., í Framsfl., í Alþfl., í Sósíalistaflokknum áttu margvísleg trúnaðarsamtök við fulltrúa þessara njósnastofnana og fulltrúa þessara ríkja á þessum ártug. Sem betur fer hafa sum af þessum skjölum verið birt. Önnur eru enn hjúpuð leynd, mikilli leynd, svo mikilli leynd að jafnvel fulltrúar rannsóknastofnana og háskóla í viðkomandi löndum eins og í Bandaríkjunum fá engan aðgang að þeim skjölum. Þess vegna getum við ekki enn þá flett upp samtölum bandaríska sendiráðsins, sem margir störfuðu á vegum CIA, við forustumenn Sjálfstfl. t.d. á tímum Víetnamstríðsins eða á þeim árum sem hv. þm. nefndi áðan, 1956--1958. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. Það er nú ekki þannig að það sé hægt að fletta þeim upp. Sum þeirra hafa fengist, sum þeirra eru verulega útstrikuð, önnur eru ekki til reiðu og m.a. ekki þau sem aðalstofnanir Bandaríkjanna hafa sett saman.
    Ég verð að segja alveg eins og er að það er nánast dapurlegt að þurfa að taka tíma í þessari umræðu til að fara inn á þessa braut. Ég hef ekkert að fela í þessum efnum, hv. þm. Ég hef aldrei þurft, svo að ég noti orð hv. þm., að framkvæma neitt uppgjör. En hef verið formaður Alþb. síðan 1987 og það var formaður Alþb. sem skrifaði áramótagrein áður en Sovétríkin hrundu, áður en Austur-Þýskaland hrundi með fyrirsögninni ,,Hrun kommúnismans``, þar sem formaður Alþb. áður en stjórnkerfi þessara ríkja hrundi lýsti eindregið í áramótagrein sinni, aðalgrein formannsins á hverju ári, afstöðu til þessara stjórnkerfa og hruns kommúnismans og þeirra sögulegu deilna sem staðið hafa um þessi stjórnkerfi þar sem því var lýst yfir að þeir úr röðum sósíaldemókrata, sem höfðu gagnrýnt þessi stjórnkerfi fyrr á árum, hefðu haft rétt fyrir sér.

Vilji hv. þm. þess vegna hafa það sem sannara reynist um Alþb. og forustu þess er rétt að hafa öll málsskjölin á borðinu, hv. þm., en ekki bara hengja sig aftan í afmörkuð skjöl, satt að segja flest sárasaklaus sem birt voru í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum dögum. Þess vegna er rangt, hv. þm., að af hálfu Alþb. hafi þeirri stefnu sem ríkti í þessum heimshluta og og því stjórnkerfi ekki verið afneitað, það er bara fals að segja það. Það er bara fals að segja það. Alþb. neitaði öllum samskiptum við ráðaflokka þessa kerfis þrátt fyrir það að ýmsir aðrir flokkar, t.d. Framsfl., héldu uppi árum saman nánum flokkslegum samskiptum við kommúnistaflokka Austur-Evrópu. En af hverju kýs hv. þm. að minnast ekkert á það að Framsfl. hafði áratugum saman haft flokksleg samskipti við ráðandi öfl í Austur-Evrópu, m.a. í Austur-Þýskalandi þar sem aðalforustumaður Framsfl. í utanríkismálum, formaður utanrmn., Þórarinn Þórarinsson, hafði náin samskipti við stjórnvöld í Austur-Evrópu, í Austur-Þýskalandi til að vinna að viðurkenningu þess ríkis? Alþb. hefur ekki haft nein flokksleg tengsl við þessi öfl. Alþb. hefur með mótun afstöðu sinnar bæði á Alþingi og annars staðar í stefnuskrá sinni, í formlegum yfirlýsingum formanns flokksins fordæmt það stjórnkerfi sem þarna var við lýði.
    Ég gekk með hv. þm. um Washingtonborg í maímánuði á síðasta ári. ( Gripið fram í: Góður fararstjóri.) Og hv. þm. segir: góður fararstjóri, það er rétt, það var ánægjuleg ganga og komið hefur í ljós að ég þekkti kannski meira til í Washingtonborg en ýmsir ferðafélagar mínir. Ég fór m.a. ásamt hv. þm. Páli Péturssyni og hv. þm. Árna R. Árnasyni að minnismerki sem Bandaríkin hafa reist um þá sem féllu í Víetnamstríðinu.
    Bandaríkjamenn hafa gert upp við Víetnamstríðið að mörgu leyti og það hefur verið mjög sársaukafullt uppgjör fyrir bandarísku þjóðina. Þetta minnismerki á grasgrundinni í Washington er vitnisburður um það sársaukafulla uppgjör og sýning sem haldin var í Þjóðminjasafni bandarískrar sögu í Washington á liðnu ári um muni og merki sem bandarískur almenningur hefur skilið eftir við þetta minnismerki er líka vitnisburður um hið sársaukafulla uppgjör sem farið hefur fram í Bandaríkjunum gagnvart Víetnamstríðinu. En ég spyr, hv. þm.: Hvar er uppgjör þeirra sem á Íslandi studdu Bandaríkin eindregið í þessu stríði? Hvar er uppgjör forustumanna Sjálfstfl., hvar er uppgjör ritstjóra Morgunblaðsins, hvar er uppgjör þeirra blaðamanna sem skrifuðu réttlætingargreinar fyrir Víetnamstríðinu í þetta málgagn Sjálfstfl.? Hvar er uppgjör þeirrar ungliðasveitar Sjálfstfl., sem nú er forustusveit flokksins, sem studdi Víetnamstríðið af hálfu Bandaríkjanna? Hvar er það uppgjör, hv. þm.? Hvergi. Ekki orð, ekki setning, ekki grein.
    Er það virkilega þannig, hv. þm., að krafa samtímans séu játningar í þingsalnum um fortíðina? Enn þá er margt fleira á borðinu en hörmungarnar í Austur-Evrópu. Það er m.a. stríðið í Víetnam, hv. þm. Þeir eru nokkuð margir í þessum sal sem hér á Íslandi stóðu vörð um morðin í Víetnam, napalmið í Víetnam, stríðsreksturinn í Víetnam. Ég er ekki að knýja á um slíkt sögulegt uppgjör. Ég tel það ekki vera verkefni okkar í samtímanum. En það væri óskandi að hægri menn á Íslandi, m.a. hv. þm. sem hér talaði, m.a. prófessorinn, Þór Whitehead, sem á líka dálítið skemmtilegan feril í skrifum um utanríkismál fyrir nokkrum áratugum, hafi til að bera sama heiðarleikann og margir í Bandaríkjunum hafa haft til að fara í gegnum það sögulega uppgjör. Í þeim efnum geta þeir sótt sér fyrirmyndir til Bandaríkjanna því að það verður að virða bandarísku þjóðina fyrir þann heiðarleika og það afdráttarleysi og þá opnu umræðu sem þar hefur farið fram um þetta sorglega tímabil sem kennt er við Víetnamstríðið.
    Þessi svokallaði sagnfræðingur, sem gegnir prófessorsembætti í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir í grein sem birtist í Alþýðublaðinu í gær, og hv. þm. vitnaði til, að ,,hugmyndafræðilegir erfingjar Einars Olgeirssonar ráði þar ríkjum innan Alþb.`` Það vita allir, hv. þm., að sá sem hér stendur er ekki hugmyndafræðilegur erfingi Einars Olgeirssonar, fjarri því. Það vita líka allir að ávallt hefur verið grundvallarágreiningur milli mín og þessa látna stjórnmálaskörungs í afstöðunni til hugmyndafræði kommúnismans. Ég ætla ekki að fara í neina lýsingu á valdakerfi Alþb. en ég segi hins vegar: Maður sem lætur fara frá sér jafnfáránlega fullyrðingu og sagnfræðingurinn gerir í Alþýðublaðinu í dag um nútíðina ætti að athuga sinn gang hvað fortíðina snertir. Ég vil þess vegna biðja þá sem vilja vanda sig í þessari umræðu að átta sig á því að það er ekki sæmandi að þeir setji fram ályktanir sem standast ekki og af hálfu forustu Alþb. var stjórnkerfi Austur-Evrópuríkjanna afneitað formlega, skýrt og afdráttarlaust og það fordæmt og gagnrýnt löngu áður en það hrundi. Þeir sem vilja m.a. fá staðfestingu á því geta flett upp nokkur ár aftur í tímann þeirri áramótagrein sem ég skrifaði sem formaður Alþb. og bar heitið Hrun kommúnismans. Ég bið líka marga í þessum sal og ekki síst hv. þm. Björn Bjarnason að skemma ekki þá vegferð sem Íslendingar eru í í samtímanum að móta sameiginlega afstöðu til þeirra vandamála sem við glímum við nú með því að setja sig í dómarasæti yfir fortíðinni án þess að hafa öll málsskjölin. Vilji hv. þm. setja réttarhald yfir kalda stríðinu á Íslandi og öllum þeim þáttum þess og hinum hörðu stjórnmáladeilum þeirrar tíðar og samskiptum forustusveitar íslensku stjórnmálaflokkanna allra við erlenda ráðamenn, erlend ríki og leyniþjónustu þeirra ber að hafa það allt á borðinu, hv. þm., en ég tel það ekki þjóna neinum tilgangi. Ég tek undir að mér fannst ósæmilegt að reyna að bendla hv. þm. Hjörleif Guttormsson eins og gert var hér áðan hvað eftir annað af hv. þm. við leyniþjónustu Stasi þegar meginniðurstaða þáttarins er þvert á móti sú að ekkert er hægt að finna af neinu tagi sem bendir til þess.
    Verkefni þessarar umræðu er hins vegar ekki að fara að setja á á Íslandi ný kaldastríðsréttarhöld og ég vona að hv. þm. Björn Bjarnason hugleiði í rólegheitum að sú braut sem ég tel að hann hafi verið á í starfi sínu sem formaður utanrmn. á undanförnum missirum er vænlegri fyrir íslenska samtíð og íslenska framtíð en að heyja í þingsalnum áfram ritdeilur fortíðarinnar úr Morgunblaðinu og Þjóðviljanum.
    Ég hef fengið upp í hendur áramótagrein mína 30. desember 1989 í Þjóðviljanum ,,Hrun kommúnismans --- Sigur lýðræðisins``, áramótagrein formanns Alþb. Ég bið þá sem fara með fullyrðingar af því tagi sem hv. þm. gerði áðan að lesa þá grein. Ein af millifyrirsögnunum er ,,Gjaldþrot lenínismans``. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Kenningin um úrvalsflokkinn og alræði öeiganna hefur í áratugi verið helsti þátturinn í skiptingu hreyfingar jafnaðarsinna í andstæðar fylkingar. Þeir sem fylgdu braut lýðræðis og fjölflokkakerfis vildu hafa í heiðri leikreglur þingræðisins og treysta fólkinu sjálfu til að skapa söguna og varðveita valdið. Byltingarsinnarnir, lærisveinar Leníns, trúðu hins vegar á úrvalssveitina og boðuðu að alræði öreiganna í höndum kommúnistaflokksins væri lykillinn að hliðum fyrirheitna landsins.
    Kommúnisminn var grundvallarþáttur í stjórnkerfiskenningu Sovétríkjanna og í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari var honum komið á með hervaldi í mörgum löndum Austur-Evrópu. Lenínisminn var formúlan sem kommúnistaflokkarnir beittu til þess að réttlæta vald sitt. Úrvali verkalýðsstéttarinnar væri best treystandi til að móta söguna ef flokkurinn væri vettvangur hinna útvöldu. Kommúnistarnir bæru af öðrum mönnum. Flokkur þeirra væri siðferðisgrundvöllur ríkisvaldsins.
    Lenín varð að tákni hinnar nýju yfirstéttar. Hann varð hinn nýi guð. Styttur voru reistar, myndir og merki borin honum til dýrðar.
    Saga mannkynsins geymir fjöldamargar frásagnir af kenningum sem reyndust ekki annað en villuljós og blekkingavefur. Þeirra blómaskeið var stutt því veruleikinn sjálfur er miskunnarlaus gagnrýnandi. Hrun kommúnismans í löndum Austur-Evrópu --- frelsishreyfing fólksins sjálfs --- hefur dæmt kenningar Leníns í úreldingardeild mannkynssögunnar og sett þær á hauginn með falshugmyndum fyrri alda.
    Í tæpa öld hefur jafnaðarhreyfingin liðið vegna mótsagnarinnar milli lenínismans annars vegar og lýðræðisins hins vegar. Veruleikinn sjálfur hefur nú kveðið upp sinn ótvíræða dóm. Kommúnisminn, framlag Leníns og Sovétríkjanna til hugmyndasögu veraldarinnar, hefur beðið endanlegan ósigur. Fólkið sjálft svipti honum burt á fáeinum vikum. Jafnaðarstefna lýðræðissinnanna hefur reynst sigursæl. Samtvinnun jafnaðar og lýðræðis er sú kenning sem ber í sér frelsisþrá fólksins og kraft nýrrar sköpunar. Jafnaðarhreyfing Evrópu getur nú á ný sameinast undir einu merki, tákni frelsis, jafnréttis og bræðralags.
    Hin spillta yfirstétt Austur-Evrópu gerði að lokum sjálf út af við kommúnismann, hinar nýju kynslóðir lýðræðissinna og hugdjarfra andófsmanna vefa nú saman á ný hugsjónir jafnaðarstefnu og lýðræðis.``
    Er hægt, hv. þm., af formanni stjórnmálaflokks að taka sterkar til orða í fordæmingu á þessu kerfi? Ég segi nei, hv. þm. Ég minni hv. þm. enn á það að þetta er skrifað áður en stjórnkerfið í Austur-Þýskalandi hrundi, áður en Sovétríkin hrundu.
    Síðan kemur kafli í þessari grein, ,,Handhafar flokksins: Hin spillta yfirstétt.`` Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Á sama tíma og skortur á flestum lífsnauðsynjum og hversdagslegum þægindum nútímans varð hlutskipti alþýðunnar í lýðveldunum sem við hana voru kennd bjó yfirstétt kommúnistaflokkanna í vellystingum og skóp sér forréttindi sem skáru sig svo úr hversdagslegu hlutskipti fjöldans að helst verður líkt við líf aðalsins í lénsveldum fyrri alda. Handhafar flokksins hófu sjálfa sig til vegs og dýrðar. Þeir bjuggu í sérstökum hverfum þar sem ekkert skorti. Þeir einir höfðu aðgang að sérverslunum með lystisemdum Vesturlanda, þeir voru fluttir í glæsibifreiðum á sérstökum akbrautum og höfðu einir aðgang að umheiminum.
    Kenning Leníns um úrvalsflokkinn reyndist hentugt tæki í höndum hinnar nýju yfirstéttar. Hún fól í sér réttlætingu forréttinda og sérstöðu. Hún tryggði valdið og skóp vopn til að berja niður andstöðu. Flokkurinn og Hreyfingin voru myndbirting hins æðsta valds.`` --- Ég segi, hv. þm., það er ekki hægt með skýrari hætti að fella dóm af formanni stjórnmálaflokks yfir þessu kerfi.
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður varið mestum hluta tíma míns í þessari umræðu hvað þessa ræðu snertir til þess að fjalla um orð --- ég segi ekki svara --- heldur fjalla um orð sem ég hélt satt að segja að ég ætti ekki eftir að heyra í þessum ræðustól og allra síst í þessari umræðu. Ég hefði miklu frekar kosið að ræða um þá heimssýn sem blasir við okkur Íslendingum í lok þessarar aldar og á hinni nýju öld. Heimssýn sem felur í sér að kraftvélarnar í hagkerfi tuttugustu og fyrstu aldarinnar verða ekki í Evrópu. Þær verða í Asíu, væntanlega einnig í ýmsum löndum hinnar amerísku heimsálfu. Og það hvort íslensk þjóð getur náð efnahagslegum framförum á nýrri öld ræðst fyrst og fremst af því hvernig við getum fótað okkur í þessu nýja hagkerfi veraldarinnar.
    Ég fullyrði að á sama hátt og það var afreksverk af forustumönnum í íslenskum sjávarútvegi að byggja upp markaðskerfi í Bandaríkjunum um og upp úr 1950 og gerðu það með erfiðri flugsamgöngutækni þess tíma, vanþróuðu símakerfi og án þeirrar aðstöðu sem menn hafa nú í viðskiptalífi að þá er það jafnbrýnt en auðveldara fyrir Íslendinga að byggja upp sókn á markaðskerfum Asíu, hinum fjarlægari Ameríkulöndum og annars staðar í heiminum.
    Það er alveg rétt sem var sagt áðan að ljósleiðarinn, tölvutæknin og upplýsingabyltingin gjörbreytir öllum hlutföllum, ekki bara milli smáfyrirtækja og hinna stærri heldur einnig milli smáríkjanna og markaðsheildanna. Við ættum að geta fagnað því að íslenskt efnahagslíf eigi slíka möguleika á næstu árum. Þess vegna hefur mér fundist miður að hæstv. utanrrh., bæði í dag og eins á undanförnum vikum og mánuðum, hefur að mínum dómi verið nánast fangaður af því að einblína á þróunina í Evrópu og það sem þar er að gerast og muni gerast. Staðreyndin er sú ef menn kynna sér hvað íslensk fyrirtæki hafa verið að gera á síðustu missirum sem markað getur tíðindi í íslenskum efnahagsmálum eru það ekki aðgerðir á markaðnum í Evrópu. Það er þvert á móti sókn Granda til Suður-Ameríku. Það er sókn Íslenskra sjávarafurða til Namibíu. Það er sókn Hnits til Kamtsjatka. Það er sókn Virkis-Orkint til Kína. Það er sókn Íslenskra aðalverktaka og verkfræðinga og arkitekta til Víetnam. Það er sókn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna til Indlands. Það eru samningar Flugleiða í Indlandi og það eru tilraunir Hampiðjunnar og ýmissa annarra fyrirtækja til að ná öflugri markaðsstöðu í Mexíkó.
    Þetta er myndin sem hinn raunverulegi markaður á Íslandi er að draga upp gagnvart heimsviðskiptunum. Það er þess vegna því miður leitt að á Alþingi skuli utanrrh. flytja skýrslu sem er mótuð af markaðskerfi fortíðarinnar en ekki markaðskerfi framtíðarinnar. Um það, virðulegi forseti, hefði ég kosið að tala. En mér fannst --- sérstaklega vegna ágætrar samvinnu við hv. þm. Björn Bjarnason bæði í vetur og á fyrra þingi --- að ég hlyti að segja það sem ég sagði áðan, þótt ég taki það skýrt fram enn á ný, að ég telji réttarhöld yfir sögunni í þessum sal hvorki raunhæf, skynsamleg né í samræmi við þá reisn sem alþingismenn Íslendinga, sem horfa til nýrrar aldar, eiga að sýna.
    (Forseti ( KE) : Forseti vill að gefnu tilefni minna hv. ræðumann á ákvæði 54 gr. þingskapa þar sem segir: Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann.)