Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:41:56 (4098)


[12:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. þm. að Alþb. hafi einn flokka á Íslandi haft samskipti við aðra flokka af því tagi sem hv. þm. var að tala um. Það er rangt, það stenst ekki sögulega, hv. þm. Ég þekki það ósköp vel, ég er búinn að gegna í þessum flokki bráðum í 20 ár embættum formanns framkvæmdastjórnar, formanns þingflokks og formanns flokksins. Og hv. þm. segir mér ekkert um það. Á þeim tíma hafa aldrei, aldrei farið fram nein flokksleg samskipti milli Alþb. og þeirra flokka sem hv. þm. er að vitna til.
    Hins vegar er vitað og hefur lengi verið vitað að á tímum Sósíalistaflokksins, áður en Alþb. varð formlegur stjórnmálaflokkur, voru stunduð samskipti af ýmsu tagi. Ýmsir forustumenn, sem höfðu verið áhrifamenn í Sósíalistaflokknum, reyndu að draga Alþb. inn í slík samskipti. En það var einmitt hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem flutti tillögu í miðstjórn Alþb., sem girti algjörlega fyrir að það væri hægt og eins og kom fram í þeim þætti sem þingmaðurinn vitnar til að Ragnar Arnalds, formaður Alþb. frá 1968--1977, kom einnig algjörlega í veg fyrir það.
    En á sama tíma stundaði Framsfl., hv. þm., víðtæk flokksleg samskipti við flokka í fleiri en einu Austur-Evrópulandi. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það er ekkert rangt, hv. þm., vegna þess að í Búlgaríu starfaði flokkur sem var ríkur þáttur af valdakerfi þess lands sem forustumenn Framsfl. sóttu heim. ( Gripið fram í: Þú hefur nú nóg með að svara fyrir sjálfan þig.) Hv. þm. er alveg velkomið að blanda

sér inn í þessa umræðu ef hann vill og ræða um samskipti Framsfl. en það vill nú svo til að ég var einu sinni í þeim flokki og þekki nokkuð vel til þeirra samskipta. Hv. þm. þarf því ekki að segja mér neitt um það. ( Gripið fram í: Ekki eftir að þú gekkst í Alþb.) Það er greinilega viðkvæmt fyrir Framsfl. að rifja upp þessar staðreyndir og sýnir nú kannski hvað erfitt er að fara í umfjöllun af þessu tagi.
    En ég vil bara segja við hv. þm., ég fór ekki í nein samanburðarfræði, ég var bara að reiða fram lýsingar á því hvað það þjónaði litlum tilgangi að ætla í umræðu um skýrslu utanrrh., á þessum degi að fara að innleiða þessar umræður.