Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:44:54 (4099)


[12:44]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að mótmæla því sem hvað eftir annað hefur komið fram í ræðum hv. alþýðubandalagsmanna að ég hafi ekki mátt tala um þessi mál hér af því að það væri skýrsla utanrrh. Ég setti þetta inn í það alþjóðlega samhengi, sem er eðlilegt, þegar við ræðum um stöðu Íslands og pólitíska starfsemi í landinu. Það er því algjörlega fráleitt að vera alltaf með einhverjar ásakanir um það að um þetta mál megi ekki ræða. Ég skil vel að hv. alþýðubandalagsmenn vilji ekki að málið sé rætt, það er allt annað mál. En að saka menn um að vera að misnota aðstöðu sína hér í þessum ræðustól, að taka þetta mál upp, það er alveg fráleitt. og sýnir hvað málstaðurinn er illur.
    Hitt er rétt og verður ekki mótmælt að Alþb. sem arftaki Kommúnistaflokks Íslands er eini flokkurinn á Íslandi sem hefur átt í þvílíku samstarfi við aðra flokka og hefur verið til umræðu. Það kom fram í umræddum sjónvarpsþætti að forustumenn Kommúnistaflokks Íslands voru meira að segja félagar í Kommúnistaflokki Þýskalands. Þeir menn sem voru sendir á vegum Sósíalistaflokksins og Alþb. til Austur-Þýskalands, voru sendir þangað til þess að þjálfa þá í stjórnmálastörfum með það í huga að þeir kæmu á svipuðu fyrirkomulagi hér á landi og var í Austur-Þýskalandi á þeim tíma. Þetta er yfirlýst. Þetta liggur fyrir. ( Gripið fram í: Hvar?) Þetta kom fram í máli Þórs Vigfússonar í umræddum sjónvarpsþætti og þetta hefur komið fram margsinnis og liggur fyrir skjalfest og þar að auki viðurkennt af námsmönnum sem þarna voru. ( Gripið fram í: Hvenær starfaði Kommúnistaflokkur Íslands?)