Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 12:46:31 (4100)


[12:47]
     Ólafur Ragnar Grímsson ( andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er erfitt að bera kaldastríðsgrímuna, hv. þm. Það er erfitt að láta hana læsast svo um andlit sitt að maður nái henni ekki af sér. Hv. þm. getur ekki ruglað saman stjórnmálaflokki sem starfaði hér 1930--1938 og stjórnmálaflokki sem stofnaður var 1968, 30 árum eftir að Kommúnistaflokkur Íslands var lagður niður. Á ég að fara að tala um það þegar nasistaflokkurinn, sem starfaði á Íslandi, fór að sameinast Sjálfstfl.? Auðvitað geri ég það ekki, hv. þm., vegna þess að það þjónar engum tilgangi. Eða á að fara að ræða tengsl Alþfl. við jafnaðarmannaflokkana í Skandinavíu og afstöðu Alþfl. gagnvart lýðveldisstofnuninni í framhaldi af því? Auðvitað þjónar það engum tilgangi, hv. þm.
    Þessi umræða sem hv. þm. ætlar hvað eftir annað að halda áfram í salnum er greinilega tilraun manns til þess að vekja upp á ný orðræðisstíl, málflutning og röksemdafærslu sem sjúkdómseinkenni á íslenskum stjórnmálum um langa hríð. Ég segi við hv. þm.: Ég ætla ekki að taka þann sjúkdóm. Ég hef aldrei verið haldinn honum og ætla mér ekki að taka hann. En hv. þm. er greinilega svo haldinn honum að hann losnar ekki við hann. Ég er alveg reiðubúinn að ræða við þingmanninn fram og aftur um þessar fullyrðingar hans en hann getur ekki reitt fram rök í málinu. Hann verður að hlaupa aftur til áranna 1930--1938 eða til áranna 1960 eða svo þegar forustumenn Sósíalistaflokksins voru að velja unga menn til þess að fara til náms í löndum Austur-Evrópu. Það eru engin ný fræði, hv. þm. En að ætla að setja Alþb. undir þann hatt er rangt, hv. þm., ósæmandi og eingöngu gert til þess að villa um, bæði fyrir þingi og þjóð en þó kannski fyrst og fremst vitnisburður um sjúklegt hugarfar hv. þm.