Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:31:31 (4103)


[14:31]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það eru aðallega nokkur atriði í ræðu utanrrh. og skýrslu sem liggur fyrir þinginu um allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem ég ætla að gera að umtalsefni. Ég kemst þó ekki hjá því að láta fáein orð falla, ekki mörg, um fremur ógeðfellda ræðu sem hv. þm. Björn Bjarnason flutti fyrr í umræðunni. Satt best að segja er nokkuð langt síðan ég hef heyrt svo ógeðfellda ræðu flutta á Alþingi.
    Hv. þm. varði stórum hluta ræðutíma síns í afar sérkennilegar dylgjur um þingmenn. Hafði að vísu ekki manndóm í sér til að nafngreina þá og hefur örugglega ekki manndóm í sér til að endurtaka þessi ummæli utan þings, en notaði þá lævíslegu aðferð að taka upp blaðagreinar og gera að sínum í skjóli þinghelginnar og bar menn m.a. þeim sökum að um væri að ræða Stasi-tengsl sem þeir þyrftu að gera grein fyrir, Stasi-tengsl. Þetta er auðvitað mjög alvarlegur áburður, hæstv. forseti, órökstuddur og ósannur rógur og verður að teljast fremur ógeðfellt að heyra menn bera starfssystkini sín slíkum sökum á grundvelli löngu liðinna atburða, fyrir um 30 árum síðan, sem ekki er einu sinni hægt að færa rök fyrir.
    Það sem mér finnst reyndar verst við þennan málflutning og ömurlegast er sá hroki og það sjálfskipaða dómaravald sem menn taka sér þegar þeir fjalla um söguna með þessum hætti, í raun og veru að hætti faríseana, því í öðru hverju orði felst milli línanna: drottinn, ég þakka þér að ég er ekki eins og þessir menn. Það er nú einhver munur með mig sem er tandurhreinn og hef alltaf rétt fyrir mér og er fullkominn í einu og öllu.
    En það er nú þannig, hæstv. forseti, að oft er dramb falli næst eins og sagt er. Út af fyrir sig er það þannig að ef menn vilja fara að grafa á þessum öskuhaugum sögunnar þá eru þeir öskuhaugar margir. Ekki bara einn. Ég á að vísu ekki von á því að upp úr þeim komi mjög merkilegt eða nytsamlegt sem gagnist Íslendingum í nútímanum eða framtíðinni og satt best að segja skil ég ekki þessa áráttu til einhvers konar pólitísks rétttrúnaðar og rannsóknarréttar í nútímanum yfir löngu liðinni sögu. Ég hélt að það væri aðallega viðfangsefni sagnfræðinga og þeirra sem hafa það að atvinnu að sannreyna heimildir og kunna með þær að fara að fást um slíkt. Auðvitað er það kostulegt þegar hv. þm. Björn Bjarnason reynir að draga inn í nútímann á Íslandi atburði frá fjórða áratugnum eins og þeir eigi einhver efnisleg tengsl við atburði líðandi stundar í íslenskum stjórnmálum. Hvernig var fjórði áratugurinn, hvernig var upphaf hans? Það var andrúmsloft heimskreppunnar miklu. Það var uppgangstími nasismans í Evrópu. Er það þangað sem við ætlum að sækja okkur einhver tengsl við samtímann? Verður þá ekki að láta söguna njóta þess sannmælis að dæma hana út frá forsendum þeirra tíma þegar hún gerðist en ekki dagsins í dag? Ég hélt a.m.k. að þeir sem hafa einhverja lágmarksnasasjón af sagnfræði létu hana þó gjarnan njóta þess sannmælis. Ef menn vilja reyna að endurskapa, eins og stundum er gert í kvikmyndum, andrúmsloft liðins tíma hvort heldur er andrúmsloft kreppunnar miklu og uppgangstíma nasismans eða andrúmsloft kalda stríðsins þá er það út af fyrir sig hægt með leikmyndagerð og öðru slíku og tæknibrellum af ýmsu tagi. En hvaða tilgangi það þjónar í umræðum um skýrslu utanrrh. uppi á Íslandi á því herrans ári 1995 þar sem væri áhugaverðara fyrir þjóðina að horfa eitthvað til frambúðar fæ ég ekki í fljótu bragði séð. Alla vega er það afar slæm sagnfræði að fjalla þá bara um helming sögunnar, grafa bara á sumum öskuhaugum en ekki öðrum.
    Staðreyndin er sú að fyrir okkur sem yngri erum þá er þetta í rauninni óskiljanleg þráhyggja og nauðhyggja að reyna sífellt að draga þá sem nú eru að starfa í stjórnmálum og eru á dögum inn í löngu liðna tíð og endurskapa eitthvað löngu liðið andrúmsloft sem til að mynda í mínu tilviki er mér óskiljanlegt í raun enda var ég ekki þátttakandi í því og tæpast fæddur þegar þessir atburðir voru að gerast sem hv. þm. Björn Bjarnason er svona upptekinn af.
    Það er að vísu þannig að auðvitað hefur maður lesið sitt af hverju um þetta af sagnfræðilegum

áhuga en að reyna að draga það inn í stjórnmálaumræður á Íslandi hef ég ekki tíðkað. Það hafa komið út ýmsar bækur og verið opinberaðar skýrslur, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem út af fyrir sig eru áhugaverðar um samskipti íslenskra stjórnmálamanna við Vesturlönd á tímum kalda stríðsins og til að mynda mikið rit hér um uppgangstíma nasismans á Íslandi. Það hefur aldrei hvarflað að mér að fara að draga það inn í nútímann með þeim hætti að reyna að rekja til einhvers skyldleika við t.d. starfandi stjórnmálaflokk á Íslandi í dag í þeim efnum. Það er svo fjarri öllu lagi að slíkt þjóni einhverjum vitrænum rökrænum tilgangi. Ég get ekkert annað gert að lokum umfjöllunnar minnar um þetta, hæstv. forseti, en að votta þessum hv. þm., eina og síðasta þingmanni kalda stríðsins, hv. þm. Birni Bjarnsyni, samúð mína að eiga ekki merkilegra erindi í stjórnmál á Íslandi nútímans heldur en það að vera hérna síðasti fulltrúi kalda stríðsins. Að reyna að rembast við það eins og rjúpan við staurinn, eins og sagt er á íslensku, að bera hingað inn í þingsali á því herrans ári 1995 andrúmsloft löngu liðinna heiftarátaka í íslenskum stjórnmálum fyrir 30 eða 60 árum síðan. Verði honum að góðu, þessum hv. þm., að sitja einn eftir uppi núlifandi íslenskra stjórnmálamanna með það hlutskipti að vera þingmaður kaldastríðstímans.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, vil ég snúa mér að ræðu hæstv. utanrrh. sem er athygliverð að ýmsu leyti eins og oft er hjá þeim hæstv. ráðherra en gjarnan er það einnig svo að ég er honum um margt ósammála og það fer að vonum.
    Ég tel til að mynda í fyrsta lagi að í umfjöllun hans um Alþjóðaviðskiptamálastofnunina gæti mikillar tilhneigingar til oftúlkana. Ég vara hæstv. utanrrh. og aðra við þeirri miklu bjartsýni sem hæstv. ráðherra hefur þar um að menn hafi höndlað hamingjuna og hinn endanlega sannleika í alþjóðaviðskiptum með þessari stofnun. Það er rétt og skylt og eðlilegt að menn beri í brjósti vonir um að hún nái að einhverju leyti markmiðum sínum fram í fyllingu tímans en það er löng og erfið vegferð fyrir höndum í að bæta ástandið og koma á heilbrigðara viðskiptaumhverfi í alþjóðaviðskiptum. Ég vara til að mynda við þeirri tilhneigingu til oftúlkunar sem kemur fram í umfjölluninni á bls. 1 þar sem annars vegar er fullyrt að Alþjóðaviðskiptastofnunin og samningar hennar muni leiða til bætts efnahagsástands og hins vegar að náðst hafi fram verulegar tollalækkanir fyrir íslenskar útflutningsvörur. Þetta er bara því miður held ég oftúlkun. Það hafa náðst fram nokkrar lækkanir en í sumum tilvikum eru það lækkanir á tollbindingum sem aldrei hafa verið virkar og er jafnvel búið að fella niður eins og í tilvikinu Bandaríkin. Ég vara við svona bjartsýni.
    Í öðru lagi er náttúrlega ástæða til að spyrja um frágang ríkisstjórnarinnar á GATT-málinu. Hvar er frágangurinn á málefnum landbúnaðarins? Því hefur endalaust verið skotið á frest.
    Í þriðja lagi er orðalag efst á bls. 3 sérlega athyglisvert í þessum efnum. Þar lýsir hæstv. utanrrh. ótta sínum yfir því ef heimildir Íslendinga til að beita jöfnunartollum að fullu á innfluttar landbúnaðarafurðir verði nýttar. Er það stefna hæstv. ríkisstjórnar að það sé eitthvað sem beri sérstaklega að óttast? Er það þá í vændum? Er verið að segja það þarna, hæstv. utanrrh., að þessar heimildir verði ekki nýttar til að tryggja innlendri framleiðslu fullnægjandi og eðlilega vernd í stað þeirra beinu innflutningstakmarkana sem áður var byggt á?
    Sömuleiðis mætti ýmislegt segja um orðalagið hvað varðar EES-samninginn. Þar fullyrðir hæstv. utanrrh. efst á bls. 4 að samningurinn hafi að mestu leyti staðið undir þeim væntingum sem við hann voru bundnar. Voru það væntingar hæstv. utanrrh. um 7 milljarðana á ári? Voru það væntingar hæstv. utanrrh. um öll nýju störfin sem að mestu leyti hafa gengið eftir? Það er von að spurt sé. Staðreyndin er auðvitað sú að ósköp lítið hefur breyst og fátt af því sem lofað var í gylliboðunum hefur komið fram.
    Um umfjöllun utanrrh. um ESB mætti líka margt segja. Þar er auðvitað á ferðinni alveg kostulegur texti þar sem annars vegar er lýst að ekki sé á dagskrá ríkisstjórnarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar en í næstu setningu kemur hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu með sína stefnu um að það eigi auðvitað að gera. Þetta er fínt fyrirkomulag. Annars vegar lýsir utanrrh., sem fer með utanríkismálin í ríkisstjórninni, stefnu ríkisstjórnarinnar að aðildarumsókn sé ekki á dagskrá. Hins vegar segir þessi sami utanrrh. sem þá er sennilega orðinn eitthvað annað, sennilega bara formaður Alþfl., að það sé auðvitað um að gera að drífa inn umsókn að Evrópusambandinu. Svona er nú ástandið í þessu örlagaríka og stóra máli í hæstv. ríkisstjórn. Svo kemur þetta hlálega atriði um stjórnarskrárbindingu sameignarákvæðis fiskveiðistjórnunarlaganna, sem kratarnir hafa allt í einu uppgötvað, og tekið þar upp áragamalt baráttumál Alþb. um sameign á auðlindum þjóðarinnar. Hlálegast af öllu er nú það að upplýst er í grein í Morgunblaðinu í dag að fulltrúar Alþb. í stjórnarskrárnefnd hafa lagt þetta til þar án þess að fá nokkurn stuðning við það frá Alþfl. sem dettur svo ofan á það snjallræði núna í vandræðum sínum rétt fyrir kosningar með allt niður um sig í skoðanakönnunum, og ætlunin var að gera út á þetta Evrópusambandsmál, að það sé snjallræði að setja það inn í stjórnarskrá að þjóðin eigi fiskimiðin. Svo þarf að vísu að breyta henni um leið og sótt er um aðild eða aðild verður að veruleika en það er ekkert verið að segja frá því í leiðinni. Þetta er nú einhver allra aumingjalegasti málflutningur og lágkúrulegasta lending á einu flokksþingi sem lengi hefur sést og verður þá helst til jafnað landsfundar Þjóðvaka og útgönguliðsins sem þar var. Þetta er auðvitað harla hlálegt, hæstv. utanrrh., auðvitað veit hæstv. utanrrh. manna best að það er ekki hægt að ganga í Evrópusambandið nema að breyta stjórnarskránni og þar með færi þetta ákvæði eins og önnur sem rækjust á við Evrópuréttinn, Rómarsáttmálann, fyrir lítið ef svo bæri undir. Auðvitað er það þannig.

    Síðan er, hæstv. forseti, vandræðatexti með NATO eins og venjulega. Liðið er auðvitað í hinum mestu vandræðum með NATO, þeir vita ekkert hvað á að gera með það, og það er vandræðast með það í skýrslunum ár eftir ár að leita að einhverjum tilgangi fyrir þetta hernaðarbandalag sem er auðvitað tímaskekkja eins og önnur slík og ætti að leggja niður og í staðinn að efla þær stofnanir sem eru byggðar á friðsamlegum grunni frá rótum eins og Sameinuðu þjóðirnar og RÖSE til þess að fara með slík hlutverk. Þessi texti er auðvitað hálfneyðarlegur eins og aðrir slíkir hafa verið á undanförnum árum. Sama má segja um kaflann um herstöðina í Keflavík og reyndar er það sérkennilegt að sjá í ræðu utanrrh. að fjallað er um herstöðina í Keflavík í fáeinum línum og ekki er verið að ræða um tilgang hennar eða hlutverk í nútímanum. Nei, hvert einasta orð sem þar stendur er um verktöku fyrir herinn. Það er það eina sem þarf núna að komast inn í skýrslu hæstv. utanrrh. að þessu leyti til og segir kannski meira en flest orð um það. Hvílík tímaskekkja vera þessa hers er orðin og væri auðvitað nær að snúa sér að því sem er að gerast að ganga frá því með samningum við bandarísk stjórnvöld hvernig leifarnar af hernum hverfi úr landi, í hvaða áföngum og hvernig atvinnulíf á Suðurnesjum verði lagað að þeim breytingum.
    Fjallað er um svæðisbundin átök en tími minn leyfir ekki að fara djúpt ofan í þau mál. Auðvitað er ástandið í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu og Austur-Evrópu hörmulegt víðast hvar og næst að segja að austanverð Evrópa sé í upplausn og því miður lítur út fyrir að svo muni verða enn um langa hríð. Kannski hafa það verið spaklegustu orð sem um það hafa verið sögð, sem Helmut Schmidt sagði í Íslandsheimsókn, að það væri barnaskapur og óraunsæi að reikna með öðru en að það tæki a.m.k. 50 ár, hálfa öld, fyrir austanverða Evrópu að komast í jafnvægisástand á nýjan leik.
    Mig langaði svo að gera að umtalsefni, hæstv. forseti, afstöðu Íslands til tveggja eða þriggja mála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem ég vil mótmæla og lýsa óánægju með. Það kemur fram í skýrslu um allsherjarþingið á bls. 23 að Ísland eitt Norðurlanda sat hjá í atkvæðagreiðslu um tillögu um að afnema skyldi viðskiptabann gegn Kúbu. Þessi tillaga hefur verið endurflutt á nokkrum þingum og henni hefur vaxið fylgi ár frá ári enda löngu brostnar og voru í raun aldrei fyrir hendi neinar réttlætanlegar ástæður fyrir þessu grimmilega viðskiptabanni sem hefur haldið þessari þjóð í heljargreipum um langt árabil. Nú styðja allar Norðurlandaþjóðir nema Ísland að viðskiptabannið verði fellt niður. Ég mótmæli þessari afstöðu sem er höfð í frammi fyrir Íslands hönd og ég krefst þess að hæstv. utanrrh. sjái til þess að á næsta allsherjarþingi verði henni breytt.
    Ég sakna þess sömuleiðis að Íslendingar skyldu ekki greiða atkvæði með tillögu um að leita álits alþjóðadómstólsins í Haag um lögmæti hótunar um að beita kjarnorkuvopnum gegn ríkjum. Það er furðulegt að Ísland skuli telja sig í stöðu til þess að greiða atkvæði gegn slíkri ályktun og ámælisvert, hæstv. forseti.
    Ég hefði svo viljað fjalla hér um úthafsveiðar, hæstv. forseti, ef tími minn hefði enst en það gerir hann bersýnilega ekki þannig að ég verð þá bara að láta máli mínu lokið.