Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:47:08 (4104)


[14:47]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er einkennilegt að kvarta undan því að rætt sé um söguna þegar við fjöllum um utanríkismál á þessum breytingatímum. Við stöndum frammi fyrir því í Evrópu, sérstaklega þó í Júgóslavíu fyrrverandi og Sovétríkjunum fyrrverandi, að þar eru menn að takast á við vandamál sem eiga rætur að rekja langt aftur í aldir. Það sem ég hef gert að umtalsefni er þó ekki fjær okkur en kannski fimm ár og er enn þá lifandi í íslenskum stjórnmálum, sá vandi sem ég hef verið að fjalla um.
    Ég kvarta ekki undan því, hæstv. forseti, að kenna mig við kalda stríðið. Ef hv. þm. heldur að það sé eitthvert skammaryrði í mínum huga þá er það mikill misskilningur. Hins vegar minnist ég þess að í upphafi þingsins flutti hv. þm. sjálfur tillögur um varnar- og öryggismál sem voru svo úreltar og úr sér gengnar að þær mátti kenna við heimsmynd sem var horfin þegar þetta þing hófst árið 1991 og hann hefur verið frekar fastur í vandamálum sem snerta allt aðrar aðstæður í alþjóðamálum en nú eru.
    Varðandi það að hv. þm. hafa farið hörðum orðum um það sem ég vitnaði í, dr. Þór Whitehead, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, taka það aftur upp sem hann sagði og nokkrir hv. þm. hafa gert að umtalsefni og einnig síðasti ræðumaður. En hann sagði í Alþýðublaðinu í gær, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,En uppgjör við fortíðina hefur ekki farið fram heldur þvert á móti, þessi gamli kjarni í flokknum hefur alltaf færst undan öllu slíku. Þetta væri ekkert fréttaefni ef svo væri ekki. Hvers vegna sögðu þeir ekki frá þessum tengslum sínum við austur-þýsku leynilögregluna Stasi?``
    Þetta sagði hann. Í þessu felast ekki ámælisverð ummæli um nokkra þingmenn, þetta er um þá menn sem komu fram í þessum sjónvarpsþætti og viðurkenndu sumir hverjir að rætt hefði verið við sig af Stasi. Einnig kom fram að fyrsti formaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur starfaði fyrir Stasi.