Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 14:51:25 (4106)


[14:51]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þm. um að hlutskipti mitt í þessu efni er léttbærara en hlutskipti hans og þeirra sem starfa í nafni Alþb. enn þá í íslenskum stjórnmálum miðað við forsögu þess flokks. Ég tel að þessi hv. þm. hafi ekki efni á því að saka mig um lágkúru eins og hann talar hér og lét orð falla um dr. Þór Whitehead sagnfræðiprófessor og kallaði hann svokallaðan sagnfræðing, mann sem hefur doktorspróf frá háskólanum í Oxford í sagnfræði. Þetta sýnir hvernig þessir menn halda á þessum málflutningi sem hér er að reyna að verja þennan óverjandi málstað að þeir hlaupa úr einu víginu í annað og ráðast síðan á fjarverandi menn og bera þá lítilsvirðandi sökum.