Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:25:27 (4110)


[15:25]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil mótmæla því að menn hafi verið með einhverjar dylgjur hér. Mál hafa verið lögð fyrir og rædd og þau eru til umræðu og ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir hans greinargerð. Hún er að vísu ekki ný því að eins og hv. ræðumaður hefur sagt er allt þetta komið fram sem hann fór með. Ég minnist þess m.a. að á meðan ég starfaði á Morgunblaðinu þá birtum við viðtal við hann þar sem þetta kom allt meira og minna fram og meira til sem hann hefur frá að segja þegar hann útskýrir afstöðu sína til þessara mála. Það er rétt.
    Vandinn sem við höfum verið að ræða er flokkslegur vandi Alþb. og það er málið sem við erum að tala um og sú staðreynd að á flokkslegum forsendum voru námsmenn sendir til Þýskalands, og fyrir liggja gögn um það, til að vera til þess búnir að taka við völdum í Alþb. og breyta íslensku þjóðfélagi í svipað þjóðfélag og var í Austur-Þýskalandi. Um þetta eru til skýrslur sem hv. síðasti ræðumaður ritaði á námsárum sínum þarna úti og um þetta liggja fyrir yfirlýsingar sem voru fluttar í sjónvarpinu á sunnudaginn var.
    Það er þetta sem við erum að tala um og það er þetta sem ég hef vakið máls á í þessum umræðum og það er þessi pólitíski vandi sem við stöndum frammi fyrir þegar við ræðum um stjórnmál á Íslandi á líðandi stundu.