Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:32:38 (4114)


[15:32]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með þeim umræðum sem hér hafa farið fram eftir skýrslu hæstv. utanrrh. en hann gaf hér yfirgripsmikla skýrslu. Við sjáum á henni, eins og raunar á miklum hluta þeirra umræðna sem hér hafa orðið, að á undanförnum næstliðnum árum, einmitt á því kjörtímabili sem nú líður senn að lokum, hafa orðið mikil umbrot í Mið- og Austur-Evrópu sem rekja má til falls veldis Sovétríkjanna fyrrverandi og vandasamra viðfangsefna í framhaldi af því í stjórnmálum hinna nýfrjálsu ríkja og samskiptum þeirra við okkur í vestanverði Evrópu. Á sama tímaskeiði hafa stór spor verið stigin í samvinnu Vestur-Evrópuríkja á sviði efnahagsmála og sú samvinna nær til æ fleiri málaflokka. Við þurfum ekki að rekja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða fjölgun aðildarríkja að Evrópusambandinu. Á hinn bóginn, svo við víkjum einnig augum okkar að öðrum heimshlutum, staðfestum við nýlega aðild okkar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni eða undir lok síðasta árs.
    Mér virðist um þetta efni að sú þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu um miklu nánara samstarf ríkja um frjáls viðsipti en áður sé að ryðja sér braut til annarra heimshluta, en þá er mjög mikilvægt að við náum að vekja tiltrú manna á þetta samkomulag, á þessa stofnun og væntanlega framkvæmd samningsins í hverju aðildarríki.
    Ég varð svolítið uggandi við nýlegar fréttir um að víða væri mikil vantrú á þeim árangri sem menn hafa gert sér vonir um og ég verð að segja að yfirlýsingar sjálfs hæstv. utanrrh. um væntanlega framkvæmd vissra þátta þessa samnings hér heima hafa ekki orðið til að vekja tiltrú manna hér. Raunar hafa þær yfirlýsingar hans verið í bága við þau varnaðarorð sem hann setur fram í skýrslu sinni. Ég verð að segja að þær aðvaranir um hversu mikilvægt er að túlka ekki nauðsynlega vernd sem hámarksvernd finnst

mér við hæfi, en hins vegar fyrri staðhæfingar hans ekki við hæfi.
    Það er mjög mikilvægt hversu stóraukið gildissvið er tekið til þessa samnings frá því sem var í GATT-samningnum sem skapar færi á frjálsum viðskiptum, lausum við höft og bönn með flestar afurðir, vörur og þjónustu auk fjármagns þannig að miklu fleiri svið viðskipta eru nú frjáls eftir að þessi samningur verður framkvæmdur. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur hér heima á Íslandi sem höfum þá reynslu að frjáls viðskipti, ekki síst milli þjóða og yfir landamæri, eru okkur betri og hagfelldari en viðskipti með höftum og bönnum. Það þekkjum við gjörla bæði af fyrri og seinni tímum hver áhrifin hafa verið á okkar kjör. En ég legg áherslu á að skapa tiltrú á þennan samning og framkvæmd hans og þar verðum við að standa okkur í stykkinu hér heima og gæta þess, ekki aðeins við framkvæmdina heldur líka orðin að menn hafi nokkra trú og fái trú á því að við stöndum við okkar skuldbindingar um leið og við ætlumst til að aðrir samningsaðilar geri hið sama.
    Eftir að Norðmenn hafa hafnað aðild að Evrópusambandinu hefur mikilvægi stofnana og samráðs um samninginn um Evrópskt efnahagssvæðið stórum aukist sem vettvangur Evrópuþjóða til samskipta um fjölmarga málaflokka og til samstarfs um efnahagsmál og viðskipti. Nú má öllum vera ljóst að samningurinn mun verða við lýði og framkvæmd og þróun hans munu gegna mikilsverðu hlutverki um næstu framtíð, miklu lengri framtíð en menn hér höfðu talað um, stundum gáleysislega og af þeim ástæðum að fleiri Evrópuþjóðir en við hafa ekki séð sér hagkvæmt að ganga í Evrópusambandið. En vegna aðildar þriggja fyrrum EFTA-ríkja að Evrópusambandinu og brotthvarfs þeirra frá EFTA er ljóst að aðild okkar að EFTA og EES-samningnum verður okkur kostnaðarsamari en hingað til auk þess sem hún hlýtur að leiða til umskipta í samráði og samstarfi Norðurlandanna utan hins eiginlega Norðurlandasamstarfs eða samstarfsins innan vébanda Norðurlandaráðs. Flest af þessu kemur okkur þó ekki á óvart því að þegar við samningsgerðina um Evrópska efnahagssvæðið lá það fyrir að fullur helmingur EFTA-ríkjanna hugðist sækja um aðild að Evrópusambandinu og skipta um borð, ef svo mætti segja.
    Hvað varðar bein áhrif þessarar þróunar og þessa nýju aðildarríkja að Evrópusambandinu á viðskiptakjör okkar óska ég að hæstv. ráðherra láti fram koma síðar hvort Evrópusambandið hefur fram að þessu virt fyrri viðskiptaskuldbindingar nýrra aðildarríkja við ríki utan þess eða, sem haft hefur verið á orði, hvort við eigum undir því að missa þessi viðskipti eða aðgang að nokkuð sérstökum mörkuðum sem fluttust inn fyrir landamæri Evrópusambandsins við fjölgun aðildarríkja þess.
    Um önnur áhrif á aðstöðu okkar þarf að fjalla og nokkur atriði þess hafa komið til umræðu. M.a. hafa starfsmenn utanríkisþjónustunnar og starfsmenn nokkurra annarra aðila hér heima, sem eiga þátt í samskiptum okkar við önnur Evrópuríki, til að mynda um þróun ýmissa þátta Evrópska efnahagssvæðisins, bent á að eftir fækkun aðildarríkja EFTA samfara fjölgun Evrópusambandsríkjanna muni mjög þrengja að samskiptavettvangi, ef svo má orða það eða þeim tækifærum sem við höfum til samskipta við aðrar Evrópuþjóðir um þessa sömu málaflokka. Ég hef áður nefnt að það muni hugsanlega breyta samstarfi okkar við önnur Norðurlönd, en sumir hafa haft af því miklar áhyggjur að við munum allt að því verða utangátta í samskiptum þjóðanna. Þó ég taki ekki undir þær áhyggjur þá tel ég ástæðu til að það verði skilgreint hvernig við höldum uppi nauðsynlegum samskiptum og bætum okkur upp þau tækifæri sem við glötum vegna þessara breytinga, vegna þeirra tækifæra sem við höfum ekki lengur aðgang að. Því óska ég að hæstv. utanrrh. láti það fram koma í umræðunni hvað hefur verið unnið í þessu efni, hvernig við tryggjum í framtíðinni hagsmuni okkar og fylgjumst með þróun og viðræðum grannríkja okkar um ný viðhorf sem varða þessi samskipti og þetta samstarf og hvað þær aðgerðir okkar gætu komið til með að kosta í mannafla og fjármunum.
    Menn hafa vakið hér upp hvernig tilkoma samstarfs Evrópuríkjanna um viðskipta- og efnahagsmál varð til og ég tek undir þá skoðun sem rekja má í gögnum að hún var meðal margra þátta um samstarf Evrópuríkja sem spruttu í kjölfar friðarsamninganna eftir það sem við köllum seinni heimsstyrjöldina. En þær stofnanir sem efnt var til á þeim tíma eru flestar enn við lýði. Við erum aðilar að þeim vel flestum. Það þarf ekki að nefna en þó er rétt að komi fram. Við erum aðilar að Viðskipta- og þróunarsamvinnustofnun Evrópu. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu, að EFTA og nú í framhaldi samninga EFTA við ESB að Evrópska efnahagssvæðinu og við erum aðilar að RÖSE, seinna ÖSE, eða hvaða orðum sem menn kalla þessar stofnanir með stuttum skammstöfunum.
    Það er hins vegar að mínu viti þannig að vegna hagsmuna okkar í auðlindum sjávarins, í einhæfu efnahags- og atvinnulífi og vegna lítilla burða okkar til að halda uppi, líkt og margar aðrar Evrópuþjóðir hafa gert, heilum atvinnuvegum með hafta- og styrkjakerfum þá virðist mér af efnahagslegum ástæðum að við höfum lítið sameiginlegt í svo nánu samstarfi sem fer fram innan Evrópusambandsins. Við verðum að gæta þess að það getur orðið okkur sjálfum erfitt í umræðu að ætla sér að taka nýja afstöðu til spurninga af þessu tagi. Við eigum skamma ferð að baki sem sjálfstæð lýðræðisþjóð, það er þess vegna meira tilfinningamál en ella að deila sjálfstæðinu í nánu samstarfi með öðrum.
    Ég hef talið af þessum ástæðum rétt að bíða með að taka afstöðu til þess hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu, auk þess sem sambandið sjálft er enn þá í svo mikilli mótun og svo lítið séð fram á hver niðurstaða hennar verður þar sem menn tala enn þá um marghraða Evrópusamband, Evrópusamband sem þróist til margra átta í senn, Evrópusamband sem er að skerða réttindi og vald eða áhrif hinna smærri ríkja, sem við erum, þá er ekki líklegt að það henti að öllu leyti okkar hagsmunum að gerast aðilar að því.
    Á undanförnum árum hafa þingmannasamtök Atlantshafsbandalagsins hvatt til aukinna samskipta og samráðs og raunar samstarfs við ríkin í Mið- og Austur-Evrópu sem ég tel með sanni enn þá hægt að kalla nýfrjáls. Í þessu efni fögnuðu þingmenn Atlantshafsbandalagsríkjanna tillögum um samstarf í þágu friðar sem gert var að umtalsefni í skýrslu ráðherrans. Flest ríki sem áttu aðild að Varsjárbandalaginu fyrrverandi hafa tekið vel og þegið boð um aðild að þessu samstarfi. Raunar höfðu öll þeirra fram að því eindregið óskað þess að þau fengju meira samstarf við Atlantshafsbandalagsríkin, við bandalagið sjálft heldur en menn höfðu fram að falli Sovétríkjanna gert sér grein fyrir að þeir hefðu viljað fyrir. Afstaða Rússa hins vegar vekur nokkrar áhyggjur enda hafa þeir sýnt annars staðar í nágrenni við Evrópu að þeir eru til þess búnir að ráðast á smærri þjóðir. Við þurfum ekki nema að líta til frétta af atburðum í Tsjetsjeníu. Raunar geta atburðir á Kákasussvæðinu sunnar verið jafnmikið áhyggjuefni þó við höfum ekki haft eins miklar fréttir þaðan. Þá verður að segjast að framkoma þeirra gagnvart nágrönnum sínum við Eystrasaltið austanvert er ekki til þess að auka bjartsýni um að þeir ætli sér að standa við þau orð sem þeir höfðu fyrir fáum árum eða þáv. leiðtogar þeirra að þeir vildu viðurkenna rétt smærri þjóða til sjálfsákvörðunar, þeir vildu lifa í sátt við grannþjóðir sínar og þeir væru hættir að reyna að beita þær ofríki. Allt þeirra framferði bendir síður til þess að þetta muni standa.
    Ég tel það skipta máli að við sýnum Eystrasaltsríkjunum þremur áfram að við erum tilbúin til að styðja þau í augljósri baráttu fyrir sjálfstæði gagnvart risanum í austri. Ég hygg að það sé nauðsynlegt að greiða þeim leið betur en gert hefur verið fram að þessu inn í frjáls viðskipti Vestur-Evrópulanda. Það er nauðsynlegt að þau fái öll staðfesta samninga um fríverslun við EFTA-ríkin, við Evrópusambandsríkin, og þeim verði sem fyrst komið til framkvæmda. Ég veit að þar eru ekki öll kurl komin til grafar og menn sem hafa komið hingað frá þessum ríkjum telja nokkuð á skorta að við, til að mynda meira að segja við Íslendingar, greiðum götu þeirra eins og þeir telja sig geta átt von á.
    Það skiptir miklu fyrir framþróun lýðræðislegra stjórnarhátta og stjórnmálastarfsemi í þessum ríkjum öllum að þeir verði fljótir að fá tækifæri til þátttöku og fullrar aðildar, já sem fullgildir aðilar, að samfélagi frjálsra og sjálfstæðra þjóða. Við höfum veitt því athygli að á stundum virðist sem í kosningum til þinga þessara landa sé einhvers konar brotthvarf til fyrri stjórnarhátta eða a.m.k. til fylgis við fyrri stjórnarherra. Ég geri mér það í hugarlund að þar brjótist fram ákveðin vonbrigði. Vonirnar sem menn höfðu til nýfengins frelsis, til nýfengis lýðræðis og til nýrra efnahagslegra stjórnarhátta hafi brugðist. Og þar held ég að sannarlega komi til okkar skipta. Ég er þeirrar skoðunar að gagnkvæm samskipti og samstarf séu ein öflugustu tæki og greiðasta leið til að treysta í sessi og greiða fyrir slíkri þróun og þar skiptir verulegu máli að þeir sem meiri reynslu hafa af slíkum stjórnarháttum veiti þann stuðning. Hann sé fyrir hendi, hann sé einbeittur og óbifanlegur.
    En ég veiti því athygli, virðulegur forseti, að allmargir vilja ræða, meira að segja hér í þessari umræðu, um að einhverjar af þeim stofnunum sem ég fyrr nefndi eigi sér nú óljós hlutverk eða minnkandi hlutverk. En ég verð að álíta vegna þessa sem ég hef rætt að sú umræða og þær skoðanir þessara manna séu á villigötum, ekki síst út frá því sjónarmiði sem birtist í framkomu þessara nágranna okkar.
    Það skiptir okkur geysimiklu máli, virðulegi forseti, að við höldum fast á hagsmunum okkar og málstað á sviði fiskveiðimála. Nú fer fram undirbúningsfundur fyrir næsta starfsfund úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Mjög nýlega kom fram að ein af helstu samstarfsþjóðum okkar á þeirri ráðstefnu var tilbúin að undirrita samning við aðra þjóð sem okkur virtist ganga berlega í bága við okkar hagsmuni og sagðist ekki hafa vitað af okkar sjónarmiðum. Ég vil þess vegna hvetja hæstv. ráðherra til þess að okkar sjónarmið, okkar málstaður, verði kynntur betur en áður og gengið eftir því við samstarfsþjóðir okkar að þær gangi ekki gegn okkur.