Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:48:46 (4115)



     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að sú umræða sem hefur farið fram hér í dag hefði getað verið miklu betri og gallinn við innlegg hv. 3. þm. Reykv. var sá að það var verið að stífla eðlileg skoðanaskipti um hlutina og það er það sem hann vill. Það er leitt til þess að vita. Mér hefur fundist hv. 3. þm. Reykv. væri að sækja sig sem málefnalegur forustumaður í utanríkismálum. Hann setti mjög ofan með ræðu sinni hér í dag því miður og það er leitt til þess að vita. Að sjálfsögðu á hann leiðréttingu orða sinna og gjörða eins og allir menn og vafalaust eru einhverjar skýringar á því af hverju hann féll í viðjar persónuleikans með þeim hætti sem hann gerði hér í dag. Ég vona satt að segja að ummæli hans og framganga í dag sé ekki til marks um það að hann ætli sér stjórnmálaferil með þeim hætti sem hann sýndi á þessum fundi, hæstv. forseti.
    Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst aðalgallinn við árásir hv. þm. vera sá að hann er á móti skynsamlegu samtali um utanríkismál. Hann vill stífla, hann vill loka, hann vill ekki ,,díalóg`` á milli manna hér inni. Hann vill ekki brjóta niður múra, hann vill hafa múra. Hann vill að einhverju leyti hafa kalt stríð áfram. Það er slæmt og það er leitt til þess að vita eða þannig upplifði ég hans framgöngu í dag. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það dálítið hart, svo ég segi ekki meira, að bregða samþingsmönnum sínum um landráð en það gerði hann í dag. Ég tel að yfirlýsingar hans um það að einstakir þingmenn hafi Stasi-tengsl séu yfirlýsingar um landráð þessara manna. Það sé verið að segja að þeir hafi unnið fyrir tiltekna sveit í ofbeldisríki gegn Íslandi. Það eru landráð. Það er yfirlýsing um landráð. Ég segi fyrir mitt leyti þó ég hafi verið nokkuð lengi í stjórnmálum, satt að segja um áratuga skeið, frá barnungum aldri, þá finnst mér að yfirlýsingar af þessu tagi fyrir utan það að þær eru auðvitað ósanngjarnar og ósannar á allan hátt, þá finnst mér vont að heyra þetta nema hv. þm. vilji meiða okkur persónulega og honum sé persónulega í nöp við okkur sem hér erum með honum í þessari stofnun og það er auðvitað mjög alvarlegt ef hann setur sig þannig á bekk í almennri stjórnmálaumræðu að hann ýti samstarfsmönnum sínum hér úr öðrum flokkum persónulega til hliðar af einhverjum einkaástæðum sem ég kann ekki og skil ekki. Ég harma þess vegna ræðu hv. þm., hann veikir sína stöðu sem framtíðarforustumaður Sjálfstfl. og það tel ég slæmt vegna þess að það er nauðsynlegt að menn geti talað saman hvar svo sem þeir eru í stjórnmálaflokki.
    Ég verð einnig að segja það að ég tel að það sé til bóta að fara yfir staðreyndir íslenskrar stjórnmálasögu. Ég hika ekki við að segja það. Ég vil það. Og ég vil gjarnan að menn dragi fram staðreyndir eins og kostur er alls staðar að, bæði að austan og vestan eins og mögulegt er. Ég held það væri gott fyrir okkur ef við færum í það með faglegum hætti, eins og mögulegt er, að fara yfir þessi mál öll því það er alveg rétt sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði áðan, auðvitað taka menn afstöðu til nútíðarinnar út frá lærdómum fortíðarinnar. Það gera allir væntanlega. Þess vegna er skynsamlegt að fara yfir þessa hluti en við megum ekki gleyma okkur svo mikið í þeim að við skoðum ekki framtíðina.
    Ég tel að það alvarlegasta við meðferð núv. hæstv. ríkisstjórnar á utanríkismálum sé tvennt. Mér finnst að hún hafi ekki mótað fyrir þjóðina neina nýja framtíðarsýn í ljósi þeirrar miklu breytinga sem hafa orðið í alþjóðamálum á undanförnum árum, m.a. frá og með 1989. Ég get tekið undir mjög margt sem hefur verið sagt í þeim efnum í ræðum hér næst á undan, ég held að við eigum ef kostur er, burt séð frá deilum fortíðarinnar, aðeins að reyna að skoða það hvort kannski er möguleiki á því að Íslendingar geti náð saman um utanríkismálastefnu í stað þeirrar sem fylgt var af því að tímarnir hafa breyst. Er hugsanlegt að við getum nú myndað ríkari og breiðari samstöðu um stefnu í utanríkismálum á Íslandi en nokkru sinni fyrr? Ég held að það sé þannig. Ég held að það sé þannig og ég harma að núv. hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa lagt sig fram um að ná upp þessari umræðu um utanríkismálin og framtíðarsýnina um Ísland, ekki aðeins gagnvart Evrópu heldur Ísland í heiminum, um hina alþjóðlegu stöðu Íslands. Ég gagnrýni ríkisstjórnina fyrir þetta og ég gagnrýni hana líka fyrir það hvernig hún hefur stundum komið fram í utanríkismálum í samskiptum við ýmsa aðra aðila. Mér fannst það satt að segja niðurlægjandi hvernig hæstv. sjútvrh. og utanrrh. höguðu sér opinberlega þegar var verið að taka á móti kanadískum ráðherra fyrir nokkru, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra. Ég tel að þar hefðu menn þurft að vanda sig betur áður en menn fluttu sínar pólitísku yfirlýsingar því það er ekki sama hvernig þjóðin birtist og þjóðin birtist jú í sínum ráðherrum hvort sem okkur líkar betur eða ver, yfirleitt ver, okkur sem erum í stjórnarandstöðu og betur hinum eins og gengur.
    Þegar ég er hins vegar að tala um framtíðarsýnina sem mér finnst að við þurfum að ræða í þessari umræðu þá á ég fyrst og fremst við hin alþjóðlegu tengsl sem eru núna að opnast sem aldrei fyrr. Þau hafa aldrei verið önnur eins og núna og það er algjörlega ófyrirsjáanlegt hvernig þau geta þróast.
    Horfum bara á þann veruleika að það er talið að um þessar mundir séu í heiminum um 1,7 millj. eða 2 millj. tölvuneta sem eru tengdar við Internet-kerfið, Veraldarvefinn, með einum eða öðrum hætti. Því er spáð að árið 2001 eða 2002 verði 1,5 milljarðar manna tengdir við Internetið eða Veraldarvefinn með einum eða öðrum hætti. Einn og hálfur milljarður manna eða u.þ.b. fjórðungur mannkyns. Sjá menn ekki dínamíkina og kraftinn sem þetta gefur fyrir heiminn í samanburði við þann heim sem við höfum upplifað á undanförnum árum og áratugum? Og sjá menn ekki breytingarnar í áherslum sem þetta hlýtur að kalla á miðað við það sem verið hefur? Evrópusambandið hefur haldið því fram, Evrópusambandið og talsmenn þess, eins og hæstv. utanrrh. hafa haldið því fram að fram undan séu blokkir, heimur blokkanna, Evrópusambandið sé ein blokkin og síðan verði til ýmsar aðrar blokkir, viðskiptablokkir sem berjist sín á milli um hagsmuni í heiminum gráar fyrir járnum. Og að þjóðríkin sem slík verði brotin á bak aftur og þau hætti að vera til.
    Ég fullyrði, hæstv. forseti, að þetta eru villukenningar. Það er merkilegt að hugsa um það að 14. mars 1993 gerist það að smáríkið Andorra með 47.000 íbúum verður sjálfstætt ríki og aðili að Sameinuðu þjóðunum með eigin mynt, eigin gjaldmiðil o.s.frv. Þeir sem horfa á þessa þróun segja núna í vaxandi mæli: Ríkjunum mun ekki fækka, þeim mun í rauninni fjölga af því að eftir því sem samskiptamöguleikarnir á alþjóðlega vísu verða meiri, eftir því verður þörfin líka meiri til þess að framhefja sína þjóðmenningu hver á sínu svæði, hver á sínum stað. Og hverjir eru það t.d. sem eru að horfa á íslenska menningu núna og málrækt? Hverjir eru það sem eru núna að horfa á þá staðreynd að við þýðum erlend tækniorð í stórum stíl? Það eru einmitt þessir aðilar sem eru að velta fyrir sér þessum andstæðum í heiminum. Annars vegar þessari ótrúlegu tölvutengingu heimsins alls og hins vegar þörfin fyrir að varðveita, styrkja og efla menningu hvers þjóðríkis fyrir sig. Menn sjá í þessum hlutum ekki aðeins möguleika á samskiptum heldur möguleika um leið á stórfelldum nýjum hagvexti. Í þeim efnum áttum við, ég og hv. þm. Björn Bjarnason, ágætt samtal þegar verið var að tala um GATT, Alþjóðaviðskiptastofnunina, fyrir nokkru. Hæstv.

utanrrh. var svo vinsamlegur að kalla þau samtöl okkar hv. þm. Björns Bjarnasonar tilhleypingar. Ég kunni nú ekki að meta það, ég segi það alveg eins og er, en það verður alla vega lítið um orðaleppa af því tagi um samband okkar hv. þm. Björns Bjarnasonar hér á þessum fundi í dag, vænti ég. En það eru einmitt að sjálfsögðu þessir hlutir sem við þurfum að horfa á. Þessir nýju möguleikar fyrir Ísland í þessum heimi. Í honum er t.d. athyglisvert að velta því fyrir sér að í dag starfa 210 millj. manna í heiminum við ferðamennsku og ferðaiðnað af ýmsu tagi. Það er talað um að á næstu árum, fram til ársins 2005, 2010, muni bætast við þennan hóp 150 millj. manna. Þannig að í kringum árið 2010 verði starfandi í heiminum 350 millj. manna við ferðalög, ferðaiðnað. Sjá menn ekki kraftinn í þessu líka? Möguleikana í þessu líka fyrir Ísland? Sjá menn ekki kraftinn í þessu og breytingarnar? Ég vona það satt að segja, hæstv. forseti. Mér finnst nauðsynlegt að við sem hér erum gerum okkur grein fyrir þessu um leið og við verðum auðvitað að gera okkur ljóst að með þessu móti færast menn nær hverjir öðrum, ekki aðeins frá einhverjum Norðurlöndum eða Evrópu, heldur í öllum heiminum því það er ekki aðeins veraldarvefurinn Internet sem mun tengja okkur saman eftir nokkra áratugi heldur fleira. Við munum á næstu árum og áratugum gera heimssamninga um verslun og viðskipti, um umhverfismál, um öryggi og frið, sem mun ekki ná til einhverra lokaðra svæða, heldur til heimsins alls. Þetta eigum við að tala um, hæstv. forseti. Þetta eigum við að reyna að tala um þegar við ræðum um það hvernig við sjáum okkar hlut borgið. Það sem þarf í raun og veru að verða til í okkar samtölum á Íslandi um utanríkismál um þessar mundir er það sem ég kalla ný íslensk heimssýn. Hún er öðruvísi, hún er ekki í skotgröfum kalda stríðsins, hún er reist á þessum nýju tæknimöguleikum sem blasa við. Hugsum um það hvaða möguleika þetta skapar og hugsum líka um það þegar börnin okkar og barnabörnin sem ég kalla stundum Nintendo-kynslóðina, sem er alin upp við tölvuleikina. Þegar þessi hópur fer að ráða heiminum þá munu menn ekki spyrja um samskipti á grundvelli flugvéla og flugáætlana, enn síður járnbrautalesta eða bifreiða. Menn munu spyrja um samskipti á nýjum forsendum nýs tækniheims sem skapar möguleika, fyrir hvað? Fyrir Ísland til að vera til sem sjálfstæð þjóð og fyrir heiminn til að lifa af. Það er þessi bjartsýna heimssýn sem menn þurfa að þora að horfast í augu við en það gera menn því miður ekki nema þeir hristi af sér ok fortíðar.