Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:06:13 (4117)


[16:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. hafi sleppt því að lesa það sem verst var í hans ummælum í hádeginu í dag. Það voru ummæli sem komu fram í andsvörum. Ég segi það fyrir mig, hæstv. forseti, að ég tel það landráðabrigsl að segja við mig og um mig að ég hafi haft Stasi-tengsl. Ég tel að yfirlýsing af því tagi sé með þeim hætti að ég geti ekki tekið hana öðruvísi. Ég þakka hv. þm. ekki fyrir ummæli af því tagi, þau eru ósönn og þau eru særandi í alla staði. Hafi hann ætlað, hv. þm., að særa undirritaðan með því að tengja hann við landráðahreyfingu þá tókst honum það. En ég fullyrði, hæstv. forseti, það er ekki til þess fallið að greiða fyrir eðlilegum skoðanaskiptum um framtíðarstefnu Íslands í utanríkismálum.