Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 16:19:25 (4123)


[16:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst að mörgu leyti leitt að hv. þm. Björn Bjarnason skuli ekki vera í salnum vegna þess að ég ákvað að nota þennan síðari tíma minn í dag til að reyna að fara yfir það viðfangsefni sem er sá vettvangur sem Ísland hefur verið í glímu stórveldanna og annarra áhrifaríkja á undanförnum áratugum. Auðvitað er það þannig að okkar litla land og sú stjórnmálastarfsemi sem hefur verið í landinu hefur með margvíslegum hætti tengst stjórnmálaátökum heimsins og Evrópu sérstaklega.
    Við lásum um það þegar við vorum í skóla ungir menn að á áratug kreppunnar 1930--1940 hefðu verið á Íslandi hreyfingar sem fyrst og fremst voru útibú fyrir alþjóðlegar hreyfingar, annars vegar kommúnista og hins vegar nasista. Þessar hreyfingar gengu um götur höfuðborgarinnar í einkennisbúningum og undir flöggum þessara alþjóðlegu hreyfinga og boðuðu það að íslenska ríkisvaldinu skyldi breytt í ríkisvald nasista, fasista eða kommúnista. Margt má segja um þessa sögu og margt af þessu unga fólki gekk svo í aðrar stjórnmálahreyfingar og urðu þar mætir menn. Bæði innan Alþfl., Sósíalistaflokksins, Alþb. og Sjálfstfl. Síðan að loknu stíðinu tók kalda stríðið við. En samt er rétt að rifja það hér upp, hv. þm., að þeir sem glímdu á kreppuárunum undir merkjum þessara alþjóðlegu hreyfinga báru samt sem áður gæfu til að

taka höndum saman og stofna íslenska lýðveldið og stóðu þar saman í því að semja þau skjöl sem urðu grundvöllur íslenska lýðveldisins og sýnd voru í þessu húsi í sumar, hv. þm., með nöfnum forustumanna þeirra flokka og m.a. þess manns sem hefur nú sérstaklega verið gerður að umtalsefni hér í dag, Einars Olgeirssonar, sem forustusveit Sjálfstfl. og Framsfl. í aðdraganda lýðveldistímans gerði að ritara þeirrar nefndar sem undirbjó íslenska lýðveldið.
    Síðan tók kalda stríðið við og Ísland varð þá vettvangur margvíslegrar íhlutunar þeirrar heimsglímu sem þar var háð. Það eru engar nýjar fréttir og þarf ekki sjónvarpsþátt til að á vegum Sósíalistaflokksins hafi verið sendur til náms í Austur-Evrópu þó nokkur hópur af ungum mönnum og Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, hafi valið þessa menn persónulega. Það eru engar nýjar fréttir, það hefur verið vitað lengi. Það eru heldur ekki nýjar fréttir að þótt Alþb. væri stofnað sem kosningabandalag 1959, Sósíalistaflokksins annars vegar og Málfundafélags jafnaðarmanna hins vegar þá hélt Sósíalistaflokkurinn áfram sínum flokkslegu tengslum við Austur-Evrópu og valdi m.a. þessa ungu menn þar til náms. Það var Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, sem gerði það en ekki Hannibal Valdimarsson, formaður Alþb. Hannibal Valdimarsson var formaður Alþb. á öllum þessum tímum og kom hvergi nálægt þessu vali mér vitanlega eða hefur nokkur maður leitt fram einhver gögn um það þótt jafnvel tveir synir hans stunduðu nám í Austur-Evrópu á þessum árum?
    Auðvitað hlaut það að taka ákveðinn tíma, hv. þm., að slíta algerlega þau tengsl sem forustumenn, fyrst Kommúnistaflokksins og síðan Sósíalistaflokksins vildu gjarnan hafa við þá sem þeir litu á frá fornu og nýju sem sína samherja. En þeir menn voru ekki í flokkslegri forustu Alþb.
    Á sama tíma og þetta gerðist var ljóst að með margvíslegum öðrum hætti var reynt að hafa áhrif á íslenskt þjóðfélag. Við vitum það margir í þessum sal að þegar sovéska sendiráðið og austur-þýska sendiráðið náðu ekki árangri í að efla tengsl sín á Íslandi gegnum Alþb. sem flokk fóru þessi sendiráð að byggja upp tengsl við ýmsa aðra aðila. Þeir byggðu upp tengsl við verkalýðshreyfinguna og fóru að bjóða verkalýðsforingjum úr öllum stjórnmálaflokkum í boðsferðir, vináttuferðir og heiðursferðir til Austur-Evrópu. Í þær boðsferðir fóru verkalýðsforingjar úr Sjálfstfl., Alþfl., Framsfl. og fleiri samtökum og verkalýðsforingjar utan flokka. Þeir fóru síðan að rækta margvísleg tengsl við viðskiptaaðila, m.a. úr Sjálfstfl., fyrirtæki sem voru umboðsaðilar fyrir sovéskar vörur, m.a. öflugt og myndarlegt fyrirtæki hér í borginni sem upphaflega varð til vegna þess að Ólafur Thors bað stofnanda þess fyrirtækis að taka að sér þau viðskipti. Síðan var þetta spunnið yfir í samvinnuhreyfinguna sem líka var öflugur viðskiptaaðili. Þessi tengsl voru með þeim hætti. Og eins og ég hef vikið að fyrr í dag að þegar Austur-Þýskaland var að berjast fyrir sinni alþjóðlegu viðurkenningu lagði það mikið kapp á að fá ýmsa forustumenn úr Framsfl. til að heimsækja sig og kynna sín mál fyrir þeim mætu mönnum. Hv. þáv. þm. Þórarinn Þórarinsson, sem gegndi formennsku í utanrmn. og er þess vegna einn af forverum hv. þm. Björns Bjarnasonar, tók virkan þátt í því.
    Síðan var líka ljóst að í glímunni um utanríkisstefnuna hér á landi voru stofnuð margvíslega samtök. Þá voru stofnuð samtök um vestræna samvinnu, það voru stofnuð samtökin Varðberg. Það vita líka allir að forustumenn þeirra samtaka völdu einstaklinga til þess að fara í boðsferðir og vera sérstakir gistivinir bæði bandarískra og annarra stjórnvalda. Menn fóru oft í herflugvélum til Bandaríkjanna sérstaklega í slíkar ferðir, voru fluttir með herflugvélum til Brussel og til Bandaríkjanna til að geta sótt þar fundi, ráðstefnur o.fl. Bandaríkin ráku líka sérstakt kerfi þar sem mönnum var boðið að ferðast um Bandaríkin í nokkrar vikur sér að kostnaðarlausu og fengu meira að segja kreditkort í hendur til þess að geta notað það hvar sem var án þess að þurfa að greiða neitt úr eigin vasa. Ég held að hér sitji á þingi þó nokkrir þingmenn sem hafa farið í slíkar svokallaðar VIP-ferðir til Bandaríkjanna og fengið slík kreditkort. Engin hefur vænt slíka menn um að það hafi haft einhver annarleg áhrif á þeirra skoðanir eða viðhorf.
    NATO hefur líka um áraraðir beitt hér margvíslegri styrkjastarfsemi. Auglýst alls konar styrki fyrir fræðimenn og vísindamenn og það er mikill fjöldi slíkra á Íslandi sem hefur notið slíks fjárstuðnings. Við sem höfum fylgst með í íslensku þjóðfélagi vitum líka að sendiráðin hafa tíðkað hér margvísleg boð, sérstaka viðræðufundi, samráðsfundi og annað af því tagi með sínum liðsmönnum áratugum saman.
    Öll þessi saga er hin margbreytilegasta. Það er nokkuð erfitt, hv. þm., að ætla sér að draga upp einhver mörk og einhverja mælikvarða og segja hvað er eðlilegt og hvað er ekki eðlilegt. Það er mjög snúið, hv. þm. Ég hef t.d. verið þeirrar skoðunar að þiggja boðsferðir frá erlendu ríki þannig að menn séu fluttir í herflugvélum á þess vegum sé hlutur sem menn í áhrifastöðum hljóti að þurfa að velta fyrir sér. Ég hef heldur ekki talið skynsamlegt og þess vegna sótti ég aldrei um það sem fræðimaður að þiggja fræðistyrki frá samtökum eins og NATO sem ekki eru stofnuð til þess að efla fræðistörf heldur fyrst og fremst í öðrum tilgangi. Engu að síður hafa margir þegið slíka styrki með ýmsum hætti en enginn og allra síst ég er að væna þennan mikla fjölda manna sem hefur þegið margvíslega gistivináttu, boð, eða samneyti af þessu tagi eða viðskiptaaðila sem stunduðu árum saman vináttusambönd við sovéska sendiráðið eða verkalýðsleiðtoga úr öllum flokkum sem voru boðnir í sérstakar heiðursferðir til Sovétríkjanna og Austur-Evrópu um að það sé eitthvað annarlegt og að þeir þurfi að gera eitthvað upp.
    Ég tel að ef litið er á þetta fræðilega, hv. þm., og hlutlaust þá sé það þannig að á þessum áratugum hafi margir einstaklingar á Íslandi átt margvísleg tengsl við baráttuöfl kalda stríðsins. Það er margbrotin saga og einhvern tímann kann hún að verða skráð en kannski ekki. En það sem mér finnst hins vegar ekki við hæfi, hv. þm., er að segja að stjórnmálaflokkur, í þessu tilviki sá sem ég hef veitt forustu síðan 1987, skuldi einhverjum eitthvert uppgjör og hafi ekki farið í eitthvert uppgjör sem flokkur. Ég hef lagt allar bækur Alþb. fram á borð og boðið hvaða fræðimanni eða einstaklingi í þessu þjóðfélagi, þar með talið hv. þm., að skoða öll þau gögn. Það eru fundargerðabækur sem fjalla um innanríkismál sem og aðra þætti. Alþb. hefur þess vegna gengið lengra í því en nokkur annar stjórnmálaflokkur á Íslandi að opna allar sínar fundargerðabækur fyrir hverjum sem vill. Það hefur Sjálfstfl. ekki gert, það hefur Alþfl. ekki gert, það hefur Framsfl. ekki gert. Engu að síður stend ég ekki hér upp og segi að það sé eitthvað gruggugt og Sjálfstfl. skuldi þjóðinni það að opna fundargerðabækur sínar, að Framsfl. skuldi þjóðinni það að opna fundargerðabækur sínar. Eða er í einhverri leikfimi í ræðustól af því tagi.
    Auðvitað var það þannig að ýmsir eldri menn sem gegndu ekki neinum flokkslegum áhrifum í Alþb. á þeim árum sem hér er verið að tala um urðu fyrir þessari nálgun sendiráða Austur-Evrópuríkjanna alveg eins og viðskiptajöfrar í Sjálfstfl., alveg eins og verkalýðsleiðtogar í ýmsum öðrum flokkum og alveg eins og forustumenn samvinnuhreyfingarinnar. En að heimfæra það yfir á Alþb. sem flokk, hv. þm., er efnislega rétt. Mér þykir það leitt að að mörgu leyti ágætur fræðimaður eins og Þór Whitehead skuli láta frá sér fara í Alþýðublaðinu í gær þessar almennu fullyrðingar sem hann lætur þar frá sér fara og standast ekki fræðilega greiningu. Þá á ég ekki bara við það sem hv. þm. vitnaði í heldur ýmislegt annað í þeim texta.
    Ég hélt nú satt að segja, hv. þm. Björn Bjarnason, að það þjónaði kannski betur þeim málstað lýðræðis og þingræðis og mannréttinda sem hv. þm. vill vera fulltrúi fyrir að fagna því framtaki sem bæði Alþb. sem flokkur og við forustumenn þess sem einstaklingar höfum haft í þessum efnum um langt árabil. Ég hefði litið svo á að það væri kærkomið tilefni fyrir aðra lýðræðissinna og stuðningsmenn mannréttinda að lýsa yfir staðfestingu á þeirri breiðu samstöðu frekar en að skipta mönnum upp hér í þingsalnum eftir því hverjir eigi eftir að gera upp eitt eða annað.
    Ég segi það, hv. þm., að ég er viss um það að þegar öll skjöl hafa verið opnuð í öllum þeim erlendu ríkjum sem seilst hafa til áhrifa á Íslandi þá muni það koma í ljós að í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi, og það er engin samanburðarfræði heldur bara lýsing á því sem ég held að sé rétt, hafi ýmsir einstaklingar átt samskipti við fulltrúa þessara ríkja sem ég veit að við báðir erum sammála um að séu óeðlileg. Ég ætla ekki að setjast í dómarasæti yfir þessum einstaklingum, þeir voru uppi á öðrum tíma mótaðir af öðrum þjóðfélagslegum veruleika en ég er sannfærður um það getur engin stjórnmálahreyfing á Íslandi sagt þegar upp verður staðið úr þeirri könnun: ,,Enginn í mínu húsi hefur tekið þátt í slíku``.