Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:00:09 (4129)


[17:00]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræðustóll hefur á áratugum lýðveldisins verið vettvangur rökræðna, skoðanaskipta, átaka, stundum harðvítugra og heiftúðugra átaka sem skipt hafa mönnum í flokka út af spurningunni: Hver á að vera staður Íslands í samfélagi þjóðanna? Hvar eigum við að skipa okkur í sveit? Með hverjum eigum við samstöðu? Hvað ber að varast?
    Stóru spurningarnar í lýðveldissögunni hafa verið þessar eftir að draumurinn um ævarandi hlutleysi var gefinn upp á bátinn: Eiga Íslendingar heima í varnarsamstarfi lýðræðisríkjanna, varnarsamstarfi Evrópu- og Ameríkuríkja? Eiga Íslendingar að tryggja öryggi sitt, herlaus þjóð, með varnarsamningi við Bandaríkin? Hver eiga að vera samskipti þessarar fámennu eyþjóðar við að byggja upp nútímalegt atvinnulíf? Eigum við að efna til samstarfs við erlenda aðila í okkar atvinnulífi við að byggja upp nútímalegt atvinnulíf?
    Deilurnar hafa staðið um álver og þátttöku erlends fjármagns og aðra stóriðju. Deilurnar stóðu um aðild okkar að fríverslunarsamtökunum EFTA. Sl. fjögur ár hafa staðið harðvítugar deilur um það hvort Íslendingar ættu að vera með í samstarfi annarra Norðurlandaþjóða og bandalagsþjóða í EFTA og í framhaldi af því í EES. Um allar þessar spurningar hafa staðið harðvítugar deilur. Svo það er ástæða til að spyrja: Hvar er það sem víglínan er dregin í innlendum stjórnmálum í afstöðu til utanríkismála? Kemur nokkurs staðar fram með jafnskýrum hætti afstaða manna, grundvallarviðhorf manna til stjórnmála, eins og í afstöðu til ýmissa utanríkismála?
    Margir eru þeirrar skoðunar að menn skipti sér í stjórnmálaflokka undir gömlu hugtökunum um hægri og vinstri og nota orð eins og félagshyggja, sem mönnum hefur gengið illa að skilgreina, eða frjálshyggja, sem hina tvo andstæðu póla. Mér er nær að halda að innihald þessara hugtaka sé orðið rýrt og sem tæki til þess að lýsa raunverulegum stjórnmálaágreiningi séu þau afar ófullkomin. Og þessi stóru mál sem skipt hafa mönnum í flokka á lýðveldistímanum hér á landi gefa frekar tilefni til þess að spyrja sem svo: Hverjir eru það sem eru þeirrar grundvallarskoðunar --- út frá hagsmunum þessar eyþjóðar, sem er mjög háð milliríkjaviðskiptum --- að við ættum yfirleitt að fylgja fram málstað fríverslunar í viðskiptum þjóða? Og hverjir eru það sem eru harðvítugastir talsmenn verndarstefnu? Hverjir eru það sem eru fyrst og fremst fylgjandi alþjóðasamvinnu, eru fyrst og fremst fylgjendur alþjóðahyggju og eru fylgjendur alþjóðasamvinnu þegar kemur að sem víðtækustu samstarfi lýðræðisríkja í okkar heimshluta? Og hverjir eru það sem eru helstir talsmenn einangrunarhyggju, oft stutt gildismati sem við kennum gjarnan við þjóðlega íhaldsstefnu? Ég held að þessi hugtök dugi miklu betur til þess að skilgreina og skýra þær deilur sem staðið hafa um stærstu ágreiningsmálin sem upp hafa komið í íslenskum stjórnmálum. Og sannleikurinn er sá að þegar við lítum til framtíðar, af því að þessi umræða hefur nú fyrst og fremst snúist um stjórnmálasögu, þegar við lítum til framtíðar þá er mjög líklegt að Íslendingar skipti sér í afstöðu sinni til stjórnmála fyrst og fremst út frá þessum og álíka spurningum.
    Þessi ágreiningur kemur skýrt fram í afstöðu manna og hugmyndum til spurningarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þessi ágreiningur kemur skýrt fram í þeim hugmyndum sem menn hafa um framtíð og stöðu þjóðríkisins. Sá sem hér stendur er eindregið fylgjandi sem víðtækastri samvinnu lýðræðisríkja og er í þeim skilningi alþjóðahyggjusinni og sem jafnaðarmaður og sem formaður í flokki sem á aðild að alþjóðasamtökum jafnaðarmanna þá er ég alþjóðasinni.
    Við hugsum gjarnan á þá leið að hugtökin úr sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, þ.e. um þjóðríkið sem endastöð sjálfstæðisbaráttunnar, þau hugtök dugi okkur lítt í aðdraganda nýrrar aldar eða á næstu öld vegna þess að fyrir okkur er heimurinn augljóslega gerbreyttur. Heimurinn er orðinn að alheimsþorpi. Og þjóðríkið er einfaldlega of lítið til þess að ráða við þau stóru vandamál sem við er að fást á þeim tímum sem eru risnir og fram undan eru. Þetta þekkja fáir betur en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem náttúrufræðingur þegar hann fjallar um afleiðingar mengunar og umhverfisslysa. Þær spyrja ekki um landamæri. Þegar við komum að vandamálum hafréttar þá rekum við okkur á það að fiskstofnar spyrja ekki um lögsögu þjóðríkja. Fjármagnið er orðið algjörlega alþjóðlegt, við búum við alþjóðlegan fjármagnsmarkað. Menntunin, vísindin eru alþjóðleg og þannig mætti lengi telja.
    Það er hægt að nefna dæmi frá nýlegum atburðum þess efnis að gjaldeyrisspekúlantar fyrir framan tölvuna sína, sem eru að spá í gríðarlegan hagnað í viðskiptum milli gjaldmiðla, hafa fært til á sekúndubroti stærri fjárhæðir heldur en eru fólgnar í gjaldeyrisforðabúrum svona miðlungsríkja eins og Svíþjóðar, Danmerkur, Noregs. Og geta þannig skipt sköpum með aðgerðum sínum um efnahagslega stöðu viðkomandi ríkja. Ákvarðanir sem teknar eru í einu voldugu ríki, nefnum sem dæmi Þýskaland, um vaxtabreytingar geta skipt meiri sköpum um efnahagslega afkomu í öðrum ríkjum en flestar þær ákvarðanir sem teknar eru innan lands af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum.
    Út frá þankagangi eins og þessum þá er það svo að við segjum: Það getur orðið til þess að styrkja áhrif smáþjóða, sem eiga allt sitt undir lögum og rétti, að láta af hendi hluta af hinu svokallaða skilgreinda fullveldi sínu, sem auðvitað er ekki veruleiki, gegn því að færa það til samþjóðlegra stofnana þar sem við erum aðilar og höfum áhrif á jafnréttisgrundvelli. Þess vegna teljum við að Ísland í samfélagi Norðurlandaþjóða sé líklegt til þess að hafa meiri áhrif á sína eigin hagsmuni innan Evrópusambandsins með þjóðum sem eru okkur skyldar og hafa svipaðra hagsmuna að gæta heldur en með því að standa einangraðir

fyrir utan sem þiggjendur, áhrifalaus þjóð. En verðum samt sem áður að sæta afleiðingum þeirra ákvarðana sem teknar eru innan dyra. Við vekjum upp spurninguna um það hvort Ísland geti hugsað sér það sem eitt af lýðræðisríkjum Evrópu með þegnrétt í Evrópu að vera eitt eða eitt af örfáum ríkjum sem ætla sér að standa til frambúðar utan allsherjarsamtaka lýðræðisríkja í Evrópu.
    Þetta eru auðvitað stóru spurningarnar sem við er að fást þegar við horfum til framtíðarinnar. Ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiðum annarra sem eru andstæðrar skoðunar. En þetta hefur nú verið rauði þráðurinn í stjórnmálaágreiningi lýðveldissögunnar.
    Í þessum umræðum, sem snerust um fortíðina, þá er það svo að hv. þm. Björn Bjarnason vakti máls á fortíð Alþb. sérstaklega sem stjórnmálaflokks og gerði að umtalsefni flokksleg tengsl þeirrar hreyfingar frá Kommúnistaflokki/Sósíalistaflokki til Alþb. við alræðisríki kommúnista í Austur-Evrópu. Og vakti einnig máls á spurningunni um það hvort Alþb. hafi nokkurn tíma af andlegum heiðarleika og áræði gert upp við þessa fortíð sína þannig að trúverðugt sé og tók dæmi af ýmsum öðrum flokkum andlega skyldum. Og eins mætti spyrja í framhaldi af því: Er það svo að fortíðin sé nú í ösku og að Alþb. geti með trúverðugum hætti skilgreint sig sem jafnaðarmannaflokk með sama hætti og við vitum að kommúnistaflokkar í gervallri Austur-Evrópu taka nú til þess bragðs að kenna sig við jafnaðarstefnu? Sumir hverjir án þess að nokkurn tíma hafi farið fram nokkurt trúverðugt uppgjör við fortíð þessara flokka sem kommúnistaflokka. Þetta eru auðvitað stórar spurningar en eru fyrst og fremst spurningar sem alþýðubandalagsmenn verða að gera upp við sig sjálfir.
    Sérstaklega hefur verið vikið að hlutskipti þeirrar kynslóðar ungra manna sem á sjötta áratugnum fóru í austurveg til að stunda nám í Sovétríkjunum og í ýmsum ríkjum Austur-Evrópu og reyndar til Kína. Það er út af fyrir sig áhugavert efni fyrir sagnfræðinga en um það hef ég fátt að segja á þessari stundu annað en það sem mér finnst vera kjarni málsins. Ekki álasa ég þeim mönnum sem í æsku sinni gengu á hönd hugsjónum sósíalisma og trúðu á þá fölsku en gylltu mynd af framtíðarríki sósíalismans í Sovétríkjunum sem búin hafði verið til af andlegum leiðtogum Sósíalistaflokksins, ekki bara stjórnmálamönnum eins og Einari Olgeirssyni eða Brynjólfi Bjarnasyni, heldur höfuðskáldum Íslands sem áratugum saman boðuðu þetta trúboð. Spurningin er ekki um það því að vafalaust gerðu menn það af einlægum hvötum og þeim verður aldrei álasað fyrir það. Þessi unga kynslóð fékk sögulegt tækifæri á þessum árum til að kynnast þessum þjóðfélögum af eigin reynslu betur en flestir samtímamanna þeirra annars staðar, t.d. í Evrópu eða Ameríku.
    Svo ég taki dæmi af bróður mínum, sem nefndur var til sögunnar af formanni Alþb. Hann fór til Sovétríkjanna árið 1954, stundaði þar nám og lauk því 1959 og var fyrstur manna frá vestrænu ríki eftir stríð til þess að ljúka prófi frá sovéskum háskóla. Hann hafði hins vegar ekki verið lengi þar í landi þegar honum var ljóst að allt var þetta lygi og fals. Að allt það sem honum hafði verið innrætt af höfuðskáldum og leiðtogum þessarar sósíalísku hreyfingar voru ósannindi. Og hann geymdi ekki að gera það upp við sig, samvisku sína og við sína þjóð og Íslendinga almennt. Hann lét ekki stjórnast af þeim hyggindum sem í hag koma að skrifa leynibréf. Hann hegðaði sér ekki með þeim hætti að segja: Það er búið að ljúga svo miklu að almenningur á Íslandi sem trúir þessum mönnum má ekki við því að meðtaka sannleikann. Og hann lét það ekki bíða í einn eða tvo áratugi.
    Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar hv. þm. hér var óþörf þegar hann var að sanna það að hann hefði skrifað tímamótagrein, vafalaust tímamótagrein, árið 1989, á móti Lenín. Lenín dó upp úr 1920 svo að það kostaði prófessorinn hvorki kjark né spádómsgáfu að ráðast á hann, 70 árum síðar.
    Ef menn vilja tala um hlutskipti þessarar kynslóðar þá er spurningin þessi: Hvers vegna var það úr því að þeir kynntust þessu af eigin reynd að þeir gerðu ekki upp á sjötta og sjöunda áratugnum? Hitt er mál Alþb. hvort það sem flokkur hefur einhvern tíma gert þetta; hvort það sem flokkur hefur nokkurn tíma gert þetta með ærlegum hætti og hvort þeir hafa nokkurn tíma dregið réttar ályktanir af því sem þeir sannarlega höfðu rangt fyrir sér með. Hver er prófsteinninn á þau sinnaskipti? Hefur það breytt afstöðu þeirra til Atlantshafsbandalagsins? Hefur það breytt afstöðu þeirra til samstarfs lýðræðisríkja? Hefur það breytt afstöðu þeirra til þátttöku erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi? Hefur það breytt afstöðu þeirra til EFTA, til EES? Spurningin er: Hvernig var það með Alþb. hér út af hinu stóra máli EES? Var ekki afstaðan sú sama og gagnvart EFTA? Greiddu þeir ekki atkvæði allir sem einn gegn útflutningsleiðinni? Jú, jú. Hvað hefur þá breyst? Það er kannski þetta fyrst og fremst sem er ótrúverðugt.
    Látum nú liggja milli hluta fortíðina en spyrjum: Er það trúverðugt þegar þessir menn koma nú fram, berja sér á brjóst og segja: Fortíð okkar er í ösku, það er að vísu rétt. En nú erum við risnir úr öskunni eins og fuglinn Fönix og segja: Við erum hinir einu sönnu jafnaðarmenn.
    Í 50 ár barðist þessi hreyfing gegn íslenskum jafnaðarmönnum og bar þeim á brýn allar vammir og skammir, um að vera handbendi auðvaldsins, um að vera svikarar við málstað sósíalismans o.s.frv. Er það nú trúverðugt að þeir sem eiga slíka fortíð sem flokkur, og ég er ekki að víkja að einstaklingum, geti nú komið fram og sagt: Gleymum fortíðinni. Við erum þrátt fyrir allt hinir einu sönnu jafnaðarmenn.
    Virðulegi forseti. Umræðan sem hér hefur farið fram gerði það óhjákvæmilega að verkum að formaður Alþfl. hlyti að segja um það nokkur orð. Reyndar var hún þess eðlis að það var ekki beint til mín miklum spurningum um utanríkismál. En það sannaðist í þessari umræðu að það er í afstöðu til hinna stóru alþjóðamála sem víglínan er dregin milli þeirra sem hafa framtíðarsýn og hinna sem tilheyra fortíðinni.