Tilkynning um dagskrá

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 18:49:55 (4145)


[18:49]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í þeim tveim skýrslum sem við hér ræðum þá hefur norrænt

samstarf á síðasta ári og reyndar á mörgum undanförnum árum spannað mjög vítt svið. Það er leitt til þess að vita að hér eru svo fáir hv. þingmenn sem taka þátt í þessum umræðum og að það skuli einungis vera við sem erum starfandi á norrænum vettvangi sem hér tökum til máls, en það er kannski ekki öll von úti enn. Ég tel að norrænt samstarf sé okkur Íslendingum mjög mikilvægt í framtíðinni, ekki síður en það hefur verið undanfarin ár og áratugi.
    Í umræðunni hér á Alþingi og raunar annars staðar hef ég rætt hvað yrði ef svo færi sem nú er orðin raunin að meiri hluti Norðurlandanna gerðist aðili að Evrópusambandinu. Ég hafði af því verulegar áhyggjur að það gæti haft þau áhrif á norrænt samstarf að það mundi verða mjög lítið ef það mundi ekki leiða til þess að það yrði nánast í skötulíki. Því miður sýnist mér að nú séu blikur á lofti og að ýmislegt bendi til þess að sum þau ríki sem nú hafa gengið í Evrópusambandið vilji í raun ekki líta til hinna Norðurlandanna í samstarfi á alþjóðavettvangi og þá er ég þar ekki síst með Svíþjóð í huga.
    Það er auðvitað mjög eðlilegt að við þær breytingar sem nú verða á Norðurlöndum, þ.e. Finnland og Svíþjóð hafa ákveðið að gerast aðilar að Evrópusambandinu auk Danmerkur, þá sé samstarfið endurskoðað í ljósi aðstæðna. En mér finnst á þeim tillögum sem hér hafa aðeins verið reifaðar að það sé ansi langt gengið í því að veikja samvinnuna.
    Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs höfum rætt tillögur nefndar sem hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, er fulltrúi Íslands í og reyndar er hann einnig fulltrúi miðjuhópsins eins og ég held að hér hafi komið fram. Við höfum rætt tillögur þessarar nefndar og höfum við haft þar ýmislegt að athuga eins og hann skýrði hér frá. Ég hef einnig komið athugasemdum mínum á framfæri á fundi sem deildin var á með hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh., samstarfsráðherra Norðurlanda, þar sem ég lýsti áhyggjum mínum yfir þeim tillögum sem þarna væri verið að setja á blað þó auðvitað sé margt þar ágætt einnig.
    Ég hef verulegar áhyggjur af því að það eigi að færa mikil völd frá landsdeildunum yfir til flokkahópanna og tel það af hinu illa, sérstaklega fyrir Ísland. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að Norðurlandasamstarfið sé á jafnréttisgrunni, þ.e. Norðurlöndin hafi þar jafnræði. Ég óttast mjög að með því að auka áhrif flokkanna með þeim hætti sem komið hefur fram í þessum tillögum þá muni það hafa slæm áhrif. Einnig tel ég ekki hepplegt að forsætisnefndin fái eins mikil völd og gert er ráð fyrir í tillögunum. Ég vænti þess og vona raunar að hv. 1. þm. Austurl. fyrir okkar hönd muni geta haft áhrif á þessa tillögur og þeim verði breytt í þá veru sem við munum frekar geta sætt okkur við þær.
    Hann lýsti því hér að hann hefði ekki trú á því að þessar tillögur verði samþykktar í næstu viku og það liggur við að ég verði að lýsa ánægju minni með það ef þær athugasemdir sem komið hafa fram verði kannski til þess að menn setjist aðeins betur yfir þessar tillögur og breyti þeim í betra horf. Þó að e.t.v. eigi ekki að vera að fagna því að ekki sé hægt að ljúka störfum þá liggur við að ég verði að lýsa því hér að það gleður mig.
    Tillaga Svía um það að skera verulega niður fjárveitingar til Norðurlandaráðs lýsir kannski einna best hvaða áherslur þeir vilja leggja í framtíðinni og ef þær tillögur ganga eftir þá óttast ég að samvinnan á mjög mörgum sviðum muni detta niður. Aftast í skýrslu samstarfsráðherra Norðurlandanna sem hér hefur verið gerð grein fyrir er m.a. áætlun um norrænt samstarf í framtíðinni. Þar er talað um nokkuð mörg svið og sýnist mér að þau samstarfssvið muni flest falla niður ef það gengur eftir sem Svíar hafa nú boðað, að fjárveitingar til samstarfsins verði skertar verulega. Þá óttast ég að mjög mikilvæg svið falli utan við. Ég get bara nefnt eitt sem dæmi sem er svið sem fellur undir þá nefnd sem ég starfa í, umhverfisnefnd, en það er sjávarútvegssviðið. Ég óttast að það muni geta dottið út ef fram heldur sem horfir og það óttast ég að geti haft verulega slæmar afleiðingar fyrir Íslendinga. Einnig er talað um að auka eigi samstarf Vestur-Norðurlanda, sem ég er alveg sammála og er ég einnig með verulegar áhyggjur af því að það muni geta verið erfitt ef draga á verulega úr fjárveitingum til Norðurlandasamstarfsins.
    Eins og ég sagði áðan þá er ég í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs og hef starfað þar þann tíma sem ég hef verið í Norðurlandaráði og hefur hingað til verið talað um að umhverfismálin eigi að vera það svið sem eigi að leggja áherslu á fyrir utan menningar- og menntamál, sem hefur verið aðalsviðið sem lögð hefur verið áhersla á. Ég vona að við getum haldið því samstarfi áfram því að ég tel það vera mjög mikilvægt. Ég vil vekja athygli á því sem kemur fram á bls. 132 í skýrslu samstarfsráðherranna, þar sem þeir hafa lagt fram sín stefnumál í umhverfismálum, þ.e. að umhverfisráðherrarnir hafa lagt fram sína stefnu. Samkvæmt stefnuskránni, eins og segir í þessari skýrslu, þá hafa norrænu umhverfisráðherrarnir sameinast um að á sviði umhverfismála eigi ævinlega að miða við meginregluna um ströngustu gildandi kröfur. Þetta er dæmi um það að Norðurlandaþjóðirnar hafa ákveðið að vera í fremstu röð að því er varðar umhverfismál og mér finnst mjög mikilvægt að það geti haldist að Norðurlöndin komi fram saman, t.d. á sviði umhverfismála, sem þjóðir sem vilji vera þar í fremstu röð. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að Norðurlandasamvinna haldi áfram, ekki bara á sviði menningar- og menntamála heldur á sviði allra annarra mála. Ef eingöngu á að vera um að ræða eitt svið þá er ég hrædd um að samstarfið muni smám saman hverfa og reyndar ekki á svo mjög löngum tíma. Ég vil lýsa því að ég vona að þær fréttir sem borist hafa varðandi tillögu Svía um að skerða fjárveitingarnar verulega, sem og þær tillögur sem liggja fyrir, þessu verði öllu saman breytt og þetta muni líta betur út þegar komið er með þessar tillögur til þings í Reykjavík um mánaðamótin febrúar/mars.
    Ég held að ég fari ekki í fleiri atriði að því er varðar þetta samstarf. Það er mjög margt sem hægt

væri að taka fyrir í báðum þessum skýrslum. Þetta eru mjög góðar skýrslur sem hér hafa verið lagðar fram og ítarlegar og eins og ég sagði áðan, lýsa hversu mikið samstarfið hefur verið, bæði á vettvangi þingmannasamstarfsins, sem og á sviði ríkisstjórnanna, en þar hefur Ísland haft forustu. Aðeins varð vart við það í upphafi þess tímabils sem Ísland hafði forustu að menn eins og hálfpartinn efuðust um að Ísland gæti tekið þetta að sér, en ég held að það hafi sannast á þessu ári sem nú er liðið frá því að Ísland tók við að við erum auðvitað fullfær um að taka að okkur slík ábyrgðastörf sem í því felst og hefur okkur verið sómi að því að hafa verið þar í forsvari og verið í forustu fyrir Norðurlandasamstarfinu. Ég er viss um að á sviði þingmannasamstarfsins muni það reynast alveg jafn vel, að Íslendingur muni verða þar í forsæti, en eins og fram hefur komið þá hefur Íslandsdeildin einróma sameinast um að styðja Geir H. Haarde í það starf.
    Ég vil leggja áherslu á það að lokum, herra forseti, hversu mikilvæg ég tel að norræn samvinna sé okkur og lít raunar á norræna samvinnu sem einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Ég vona að það geti orðið það áfram og að þær blikur sem ég sé á lofti og sá ótti sem ég ber í brjósti gagnvart norrænu samstarfi gangi alls ekki eftir. Vonandi getur norrænt samstarf haldið áfram þrátt fyrir að meiri hluti Norðurlandaþjóðanna hafi valið að gerast aðilar að Evrópusambandinu og í raun með þeim hætti rýrt möguleikana á því að geta tekið með öflugum hætti þátt í formlegu samstarfi Norðurlandanna.