Svör við fyrirspurnum

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:06:27 (4151)

[15:06]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Á haustmánuðum lagði ég fram skriflega fyrirspurn á hinu háa Alþingi til forsrh. um sérverkefni fyrir Stjórnarráðið. Mér bárust þau skilaboð að fyrirspurnin væri býsna flókin og erfitt að svara henni þannig að ég tók mig til og vann hana upp á nýtt og skilgreindi hvað átt væri við með fyrirspurninni. Nú hafa vikur og mánuðir liðið og ekki berst svar. Mér er kunnugt um að tveimur ráðuneytisstjórum var falið að ræða við mig um þetta mál ef það mætti leiða til þess að hægt væri að svara þessu en vikurnar hafa einnig liðið frá því að þeim var falið að vinna það verk og ég hef ekkert heyrt frá þeim.
    Nú kann að vera að það sé rétt af hálfu ráðuneytanna að hér sé um flókna og viðamikla fyrirspurn að ræða en ég er að sjálfsögðu reiðubúin til þess að ræða við framkvæmdarvaldið um það hvernig hægt sé að skilgreina málið þannig að auðveldara væri að vinna það. Hins vegar er algerlega óásættanlegt að þingmönnum berist ekki svör við fyrirspurnum. Því vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta að hann kanni hvernig stendur á því að ekki berst svar frá ráðuneytunum eða að ekki hafi verið leitað til þess þingmanns sem hér stendur um það hvernig hægt verði að leysa málið. Það er óviðunandi að ekki berist svar.