Svör við fyrirspurnum

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:08:36 (4153)


[15:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. vil ég taka fram eins og reyndar hefur komið fram fyrr á þessum fundi að hæstv. forsrh. er veikur og hefur fjarvistarleyfi en ég skal á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið taka það upp sem dagskrárlið að ræða þær fyrirspurnir sem hefur ekki verið svarað. Ég veit að í mörgum tilvikum, þar á meðal tilvikum sem snúa að fjmrn., er um að ræða flókin viðfangsefni sem tekur langan tíma að svara. Því miður er það svo að embættismenn hafa í mörgum tilfellum öðrum störfum að gegna en svara fyrirspurnum frá hv. þm. þótt vissulega sé það verkefni sem njóti forgangs. Ég mun koma þessum viðhorfum til skila. Ég get ekki lofað því að fyrirspurninni verði svarað strax þess vegna en mun taka málið upp og óska eftir því við aðra ráðherra að þeir geri grein fyrir því að hve miklu leyti þeir treysta sér og embættismönnum sínum til þess að svara fyrirliggjandi fyrirspurnum en það er auðvitað skylda þeirra samkvæmt þingsköpum að senda inn svör við fyrirspurnum á þeim tíma sem tilskilinn er í þeim lögum.