Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:26:53 (4161)

[15:26]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við höfum óþyrmilega verið á það minnt enn einu sinni hér á landi hve háð við erum veðurfari í öllu lífi okkar og starfi. Þeir dagar geta komið og stundum orðið margir á ári að ekki er hægt að halda uppi samgöngum á láði eða í lofti vegna veðurskilyrða. Þá er sjórinn eina samgönguleiðin. Þannig háttar ekki hvað síst til á Vestfjörðum þar sem vegakerfið er enn ófullkomið á stórum svæðum. Jafnvel þótt svo væri ekki er vegalagning víða þannig að mikil hætta er á að vegur lokist að vetri til og hættulegt geti verið að ferðast um vegina vegna snjóflóðahættu því að oftar en ekki eru þetta sneiðingar í bröttum hlíðum. Þannig er einmitt ástandið með hinn svokallaða Djúpveg í Ísafjarðardjúpi. Frá því um miðjan janúar hefur tæpast verið hægt að halda þar opnum vegi. Bæði er að mikið hefur snjóað og því erfitt um mokstur og dæmi er um að það taki þrjá daga að opna veginn frá Ísafirði til Hólmavíkur og tekst ekki að halda honum opnum nema um nokkra klukkutíma í senn áður en hann lokast aftur.
    Þá er einnig rétt að gera sér ljósa þá staðreynd að 50--60 km geta verið á milli byggðra bóla. Það hlýtur því hver maður að sjá að ekkert öryggi er í þeim samgöngum að vetri til þar sem svo er ástatt. Ég tel því fullsannað að hér verði jafnframt að vera til staðar samgöngur á sjó og ekki séð fyrir að hægt sé að leggja þær af og treysta eingöngu á vegina.
    Um áratuga skeið hefur Djúpbáturinn hf. þjónað íbúum við Ísafjarðardjúp, haldið uppi samgöngum við eyjarnar í Djúpi, bændur í Inndjúpi og á ströndinni, jafnframt hin síðari ár að flytja bíla milli Ísafjarðar og staða í Djúpi. Árið 1991 var ljóst að endurnýja þyrfti gamla Fagranesið ef það ætti að sinna hlutverki sínu. Endurbætur voru áætlaðar um 80 millj. kr. Var þá ákveðið að festa kaup á notuðu skipi frá Noregi sem bauðst fyrir 45 millj. kr. Það var ekjuskip sem gert var fyrir 24 bifreiðar og 170 farþega. Skipið var keypt með vitund og vilja stjórnvalda og var ætlunin að byggja ferjubryggjur á Ísafirði og í Inndjúpi til að gera reksturinn hagkvæmari.
    Skemmst er frá að segja að þetta mál hefur mjög vafist fyrir mönnum í kerfinu. Ótal nefndir hafa verið settar á fót og gerðar kannanir á mögulegum rekstri. Margar ályktanir og undirskriftalistar hafa borist frá heimamönnum og nú síðast 2. febr. sl. var gerð samþykkt um málið á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar þar sem ítrekuð er ályktun bæjarins frá haustinu 1993 um ferjubryggjur. En í samgrn. virða menn það að vettugi.
    Í 6. gr. fjárlaga árið 1992 var heimild til handa samgrh. um að ganga til samninga við heimamenn um smíði á ferjubryggjum. Á fjárlögum 1993 og 1994 hafa verið fjármunir til verksins. Sl. vor gekk samgn. Alþingis frá því með skýrum hætti hvernig að málinu skyldi staðið.
    Í september lá á borði Hafnamálastofnunar tilbúið útboð í ferjubryggjur en enn gerist ekkert. Hafnamálastofnun fær ekki heimild til að bjóða verkið út. Því vil ég spyrja hæstv. samgrh.:
    1. Hvers vegna voru ferjubryggjur í Ísafjarðardjúpi ekki boðnar út sl. sumar eins og samþykkt samgn. Alþingis gerði ráð fyrir?

    2. Ef framkvæmdarvaldið hunsar vilja Alþingis og með aðgerðarleysi gerir Djúpbátnum ókleift að reka skipið, hvernig á þá að halda uppi reglulegum samgöngum við eyjarnar í Djúpi, við íbúa á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd og sama má segja um aðra staði í nágrenni Ísafjarðar þegar vegir eru lokaðir svo dögum skiptir?
    3. Telur ráðherrann að öryggissjónarmið séu höfð að leiðarljósi ef eingöngu á að treysta á vegasamgöngur í Ísafjarðardjúpi og leggja algerlega af samgöngur á sjó?