Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:31:13 (4162)


[15:31]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það kemur mér örlítið á óvart að efnt skuli til utandagskrárumræðu um þetta mál eins og nú standa sakir þar sem þessi mál eru nú til athugunar hjá þingmönnum Vestfjarða en ég er þakklátur hv. þm. fyrir að taka málið upp vegna þess að þetta er auðvitað flókið mál, ekki einfalt og það snertir Ísfirðinga og Vestfirðinga margvíslega.
    Fyrst er um þetta mál að segja að samkvæmt tillögum Vegagerðar og samgrn. eins og þær eru lagðar fyrir þingmenn Vestfjarða er gert ráð fyrir því að vegaframkvæmdum sé hraðað inn Ísafjarðardjúp. Um það stendur málið að Djúpvegurinn sé tekin í tölu stórverkefna þannig að af sameiginlegu fé landsmanna sé borgað 70% og gert er ráð fyrir því í þeim tillögum að á næstu fjórum árum til 1998 komi af stórverkefnafé alls 338 millj. kr. Miðað við langtímaáætlun eins og hún lá áður fyrir var gert ráð fyrir 56 millj. kr. á þessu tímabili og það kom allt af vegafé Vestfirðinga sjálfra þannig að samkvæmt langtímaáætluninni eins og hún var lögð fram af síðustu ríkisstjórn var ekki gert ráð fyrir því að hefjast handa um Djúpveginn fyrr en um aldamót.
    Ég spyr: Telja Vestfirðingar það ekki til hagsbóta fyrir sig að hægt sé að ráðast strax í uppbyggingu Djúpvegarins? Ef gert er ráð fyrir því að Vestfirðingar leggi heimaframlag til er verið að tala um 438 millj. kr. á næstu fjórum árum. Það er auðvitað verulegt fé og meira en helmingur þess fjár sem þarf til uppbyggingar þessa vegar ef undan er skilin brú eða þverun eins og stundum er sagt yfir Mjóafjörð sem er inni í þessu dæmi við Hrútey sem áætlað er að kosti um 300 millj. kr. Það er þess vegna mjög gott boð, álitaefnið er þess virði að um það sé hugsað.
    En það er auðvitað alveg ljóst að ekki er hægt að hugsa sér hvort tveggja: Að byggja upp fullkomna aðstöðu fyrir ferjuna og reka hana og hefjast samtímis handa um uppbyggingu Djúpvegar enda hygg ég að engum hv. þm. komi það til hugar og hv. þm. lagði málið heldur ekki fyrir með þeim hætti í fyrirspurn sinni. Ef við erum að tala um hafnaraðstöðu á Arngerðareyri kostar hafnargarður, viðlega og ekjubrú 38 millj. kr., bílastæði, vegur, snyrtiaðstaða, lýsing o.fl. lágmarksaðstaða um 15 millj., þá erum við að tala um 53 millj. og 24 millj. sem það kostar við Ísafjarðarkaupstað. Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram þegar rætt er um öryggissjónarmið að það er Slysavarnafélagið sem fengi Fagranesið til þess að reka Slysavarnaskólann og það hefur lýst því yfir að að sjálfsögðu munu þeir stilla svo til að Fagranesið yrði fyrir vestan janúar- og febrúarmánuði. Það er alveg auðgert að það geti verið þar yfir hátíðarnar og fram í mars ef svo viðrar.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem hv. þm. sagði en ég vil ítreka að ég hef alltaf litið svo á að Vestfirðingar, Ísfirðingar teldu það vera mikið öryggis- og mannréttindamál fyrir sig að Djúpvegur yrði byggður upp.
    Ég tek auðvitað undir það með hv. þm. að víða fyrir vestan er mikil snjóflóðahætta, ég geri ekki lítið úr því, mér dettur það allra síst í hug. Þó að ég og nákomnir ættingjar mínir eigi ekki um sárt að binda af þeim sökum nú þá fylgdist öll þjóðin með því sem þar skeði. Á hinn bóginn minni ég á að auðvitað er snjóflóðahætta víða. Má vera að hún sé mest á aðalleiðum og Súðavíkurhlíðinni en í sömu andrá nefnum við staði eins og Eyrarhlíð, Hnífsdal, Óshlíð, Ólafsfjarðarmúla og víða annars staðar er snjóflóðahætta. Ég get nefnt Vattarnes, Kambanes, Auðbjargarstaðarbrekku, Skötufjörð, Vatnadalshlíð þannig að snjóflóðahættan er víða og ég geri ekki lítið úr henni. En ég hef á hinn bóginn rætt þetta mál m.a. við Ólafsfirðinga. Ég minnist þess hversu mikill léttir það var fyrir þá þegar göngin komu á sínum tíma. Eftir sem áður er auðvitað snjóflóðahætta í Múlanum en ég hygg að þeir mundu ekki samt sem áður vilja skipta á Múlavegi og gamla Drang.