Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:38:59 (4164)


[15:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna fjarveru hæstv. iðnrh. og viðskrh. vil ég nota tækifærið í umræðum um þetta mál til þess að koma á framfæri samþykktum sem félög alþýðuflokksmanna við Ísafjarðardjúp og á norðanverðum Vestfjörðum hafa látið frá sér fara í málinu. Eins og fram hefur komið snýst málið um að falla frá ákvörðun um að byggja ekjubryggjur við Ísafjarðardjúp en á móti á að koma 300--350 millj. kr. á næstu fjórum árum í Djúpveg sem er þó framkvæmd sem vitað er að kostar 1--1,5 milljarða kr. og mun þess vegna taka 10--15 ár að fullgera miðað við þessa samþykkt. Ég undirstrika að samþykktir félaga alþýðuflokksmanna á norðanverðum Vestfjörðum eru þær að við erum andvíg því að hætt verði við byggingu ekjubryggja á Ísafirði og í Inndjúpi. Rökin fyrir því eru ferns konar: Í fyrsta lagi hversu vel úr vegi sem Djúpvegur verður gerður mun hann ætíð liggja um hættulegar snjóflóðaslóðir, það er vitað. Einnig vitum við að umferð um Djúpveg mun stóraukast á veturna þegar Vestfjarðagöng opnast. Fagranesið sýndi að það er að öðrum miðlum ólöstuðum notadrýgst af öryggisástæðum við þær aðstæður sem sköpuðust t.d. nýlega í Súðavík þegar aðrar aðgönguleiðir voru tepptar og út frá spurningum um læknishjálp og sjúkraflutninga við veðurskilyrði sem þar ríkja oft um vetrarmánuði er það nauðsynlegt. Í þriðja lagi vekjum við athygli á því að Fagranesið gegnir lykilhlutverki við uppbyggingu ferðamannaiðnaðar á Vestfjörðum. Ef tillögur Vegagerðarinnar ná fram að ganga er grundvellinum beinlínis kippt undan þeirri ört vaxandi atvinnugrein. Í þessari samþykkt alþýðuflokksfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum felst því að menn vilja eindregið beita sér fyrir því að staðið verði við eldri ákvarðanir um ekjubryggjur fyrir Fagranesið og áframhaldandi uppbyggingu Djúpvegar til langs tíma.
    Þetta eru meginatriði málsins. Ég tel það afar óskynsamlega ákvörðun að falla frá þeirri ákvörðun, sem fyrir lá um ekjubryggjur og sú hugmynd að taka upp 30 ára gamalt skip, úr sér gengið, gamla Fagranesið, gengur heldur ekki upp.