Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:45:42 (4167)


[15:45]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta mál ekki bera rétt að og undarlega að því unnið að ýmsu leyti. Það hafa komið yfirlýsingar frá þingmönnum Vestfjarða um það að þeir geti jafnvel ekki neitað slíku tilboði eins og það geti út af fyrir sig verið í myndinni að verið sé að kaupa menn fram og til baka út af því hvort verkefnið sé stórverkefni eða ekki. Ég tel fulla ástæðu til að ræða það í alvöru að þessi framkvæmd sé stórverkefni en það á ekki að setja það í samband við rekstur ferju á svæðinu. Það er allt annað mál. Ég tel að það sé mjög langt í það enda hefur þetta verið áætlað 1.200 millj. kr. verkefni að leggja þennan Djúpveg og það sé þá langt í að hann geti fullnægt samgöngum og öryggi á þessu svæði og þess vegna sé útilokað að setja þetta tvennt í samhengi.
    Það er líka annað sem menn verða að skoða í þessu. Það er nýlega búið að ákveða að bæta við stórverkefnum í stórverkefnasjóði. Ég minni á það að núna er gert ráð fyrir að Búlandshöfði sé í stórverkefnasjóði. Það sést ekki í hann á þessari tillögu. Ég ætla ekki að fara að ræða nánar um þessar útfærslur en úr því að farið er að ræða þetta mál í þinginu þá hlýtur það að verða að koma fram að það er ekkert sjálfsagt að það komi ný verkefni inn í stórverkefnasjóð og fari fram fyrir önnur. Og ég held líka að það eigi alls ekki að tengja saman rekstur ferjanna og það að gera þetta að stórverkefni. Þetta er satt að segja orðið farsakennt hvernig hæstv. samgrh. kemur fram í þessum málum. Það koma nýjar tillögur á hverju ári sem hann dregur upp úr pússi sínu um breytingar og að fara allt öðruvísi en gert hefur verið í vegamálum fram að þessu. Síðan eru menn að hæla sér af stórverkefnum og átökum í vegamálum en hver er svo niðurstaðan? Það er verið að fresta t.d. Gilsfirði um tvö ár á þessu kjörtímabili og stórverkefni sem ákveðin voru fyrir tveimur árum eru sett út af borðinu.