Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:54:45 (4171)


[15:54]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. 1. þm. Vestf. á það að ég bið hann ekki um leyfi til þess að fara upp með utandagskrárumræðu. Hvað varðar það að þingmenn Vestfjarða eigi að hafa samráð um þessi mál þá hafa þingmenn Vestfjarða það vitaskuld.
    Að þessi mál eru rædd hér er vegna þess að frá því í haust hafa verið í gangi viðræður milli samgrh. og Vegagerðarinnar um að brjóta þá samþykkt sem gerð var í fyrra, fyrir tæplega einu ári, um hvernig að þessu máli skyldi staðið. Þá lá fyrir samþykkt Alþingis um þá framkvæmd sem við höfum hér verið að ræða um ferjubryggjur. Það var gengið frá málinu í samgn. Alþingis sl. vor. Í sumar voru undirbúnar framkvæmdir og það eru tilbúnar tillögur um það hvernig skuli byggja þessar bryggjur. Þær hafa bara aldrei farið lengra en ofan í skúffuna hjá hæstv. samgrh.
    Vitaskuld hafa allir þingmenn Vestfjarða og sú sem hér stendur líka ekki hvað síst lagt mikla áherslu á uppbyggingu Djúpvegar. En það tekur það langan tíma eins og menn hafa verið að rekja hér. Það tekur kannski 12 ár að koma þessum vegi í varanlegt ástand. Er á sama tíma hægt að leggja niður það öryggistæki sem við höfum á þessum slóðum? Ég segi að það sé ekki hægt. Það má skoða það aftur þegar vegurinn er kominn í það ástand að hann sé orðinn varanlegur.
    Það hefur verið rakið hér að það kosti í kringum 53 millj. kr. að byggja þessa bryggju á Arngerðareyri, 24 millj. á Ísafirði. Samkvæmt tillögum Hafnamálastofnunar munu þessar bryggjur kosta báðar milli 60 og 70 millj. kr. Það er sú áætlun sem liggur fyrir. Eins og hér hefur verið sagt kostar það 1,2 milljarða kr. að byggja Djúpveg. Við erum að tala um 400 millj. kr. fyrir hverja vegáætlun í fjögur ár og ég segi hér: Það er ekki hægt að segja í dag að Vestfirðingar geti hætt við að reka ferjur vegna þess að þeir eru að fá góðan veg um Djúpið. Sá vegur verður ekki tilbúinn fyrr en eftir 10--12 ár.