Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:00:32 (4174)


[16:00]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við erum á Alþingi að fjalla um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og margvíslegar breytingar á sviði mannréttinda. Grundvallarhugun þeirrar stjórnskipunar sem tíðkast í lýðræðisríkjum Vesturlanda er að greina ríkisvaldið í sjálfstæðar einingar til að koma í veg fyrir vald hinna fáu. Þannig miðast stjórnskipun okkar við óháð dómsvald og aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það er samdóma álit fræðimanna að á síðari árum og áratugum hafi vald fjölmiðla orðið svo mikilvægt í lýðræðislegum samfélögum að í reynd séu fjölmiðlarnir orðinn fjórði þátturinn í því að tryggja lýðræðisleg samfélög á okkar tíma. Löggjafarvald, framkvæmdarvald, óháð dómsvald og frjálst og óháð fjölmiðlavald. Það er þess vegna mjög mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi, ekki aðeins að tryggja mannréttindi í stjórnarskrá og eðlilegar aðferðir við skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds heldur einnig að tryggja að fjölmiðlakerfið í hverju lýðfrjálsu landi sé opið og frjálst. Hringamyndanir á sviði fjölmiðla ganga þannig þvert á nútíma hugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hafa í ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir, ákvæði sem koma í veg fyrir það að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum og á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru til hér á Íslandi.
    Nú hefur það gerst að myndaður var fyrir nokkrum dögum öflugur fjölmiðlarisi í okkar landi, svo öflugur að hann er að umfangi og veltu stærri en Morgunblaðið. Með samruna DV, Stöðvar 2, Bylgjunnar og fjölmargra annarra fjölmiðla hefur orðið til nýr fjölmiðlarisi. Það er einnig athyglisvert að margir áhrifamenn í þessum fjölmiðlum hafa margvísleg tengsl við Sjálfstfl. Það kemur í ljós að í þriggja manna stjórn þessa nýja fjölmiðlarisa situr aðstoðarmaður forsrh. Sjálfstfl. Fréttastjórinn er fyrrum aðstoðarmaður menntmrh. Sjálfstfl. og starfsmaður Sjálfstfl. Annar ritstjórinn er fyrrum þingmaður Sjálfstfl. og þannig mætti lengi telja.
    Nú er ég ekki að halda því fram að Sjálfstfl. sem heild standi á bak við þessa atburði en það vekur óneitanlega tortryggni og dregur úr tiltrú á óháða og sjálfstæða fjölmiðla að svo mikil ítök áhrifamanna í einum stjórnmálaflokki skuli vera innan þessa nýja fjölmiðlarisa. Ég hef því kvatt mér hljóðs, virðulegi forseti, til að spyrja hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:
    1. Er ekki nauðsynlegt að setja í lög á Íslandi reglur sem knýja á um það, eins og í ýmsum öðrum löndum Evrópu, að ákveðinn tími þurfi að líða frá því að ákvarðanir séu teknar um slíkan samruna fjölmiðla þar til þeim er hrint í framkvæmd og slíkur biðtími sé notaður til þess að samkeppnisstofnanir og aðrir aðilar kanni málið mjög rækilega og þá fyrst þegar gengið hefur verið frá því að allt sé með felldu

og engin óeðlileg áhrif séu þessu samfara sé leyfið veitt?
    2. Er ekki rétt að setja í lög á Íslandi, eins og gert er víða um heim, að hafi dagblað ákveðna markaðsdrottnun yfir tilteknum mörkum og hafi sjónvarp og útvarpsstöð líka markaðsdrottnun yfir ákveðnum mörkum þá megi ekki steypa slíkum fjölmiðlum eignalega saman í einn hring? Í Bandaríkjunum var hinn mikli fjölmiðlarisi Rupert Murdoch knúinn til þess að selja hlut sinn í dagblöðum vegna þess að hann vildi kaupa sig inn í sjónvarpsstöðvar en í Bandaríkjunum var það talið fullkomlega óeðlilegt að sömu einstaklingarnir gætu ráðið þannig sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum.
    3. Er ekki nauðsynlegt að setja í lög á Íslandi reglur sem tryggja að starfshættir slíkra fjölmiðla séu með þeim hætti að þeir séu opnir, það ríki ákveðinn trúnaður og það ríki rík upplýsingaskylda? Ég vil t.d. vekja athygli á því að því miður hafa engar upplýsingar komið fram opinberlega um kaupverðið í þessum viðskiptum. Það skapar ekki tiltrú að það eina sem komið hefur í DV um þetta mikla og stóra mál er lítil tveggja dálka frétt á baksíðu á föstudag, ekkert á laugardag og ekkert í dag. Það sýnir að blaðið sjálft er auðvitað heft í umfjöllun sinni um þetta mál.
    Að lokum sjáum við það öll í hendi okkar að við höfum á borðum mikla skýrslu um hringamyndun í íslensku atvinnulífi: í sjávarútvegi, í samgöngum, í tryggingafélögum og á fjölmörgum öðrum sviðum. Ef álíka hringamyndun verður í fjölmiðlum og orðið hefur á þeim sviðum atvinnulífsins sem kennd eru við kolkrabbann og smokkfiskinn þá er verið að stefna lýðræðislegu eðli íslenskrar fjölmiðlunar í hættu. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, biðja hæstv. menntmrh. að lýsa yfir viðhorfum sínum til þess að setja löggjöf með þessum hætti og jafnvel knýja á um það áður en þingi lýkur.