Hringamyndun og samþjöppun valds í íslenskri fjölmiðlun

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:25:55 (4182)


[16:25]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er engin tilviljun að erlendar þjóðir sem kenna sig við lýðræði hafa sett sér lög um að ekki megi safnast vald, m.a. í fjölmiðlum, á fárra hendur. Ég held að við megum ekki vera svo kokhraust eða hrokafull að líta ekki á það dæmi. Því miður höfum við dæmi um það hér á landi. Og jafnvel þeir sem hafa komið nálægt blaðamennsku sem hér hafa verið vita að það hefur verið gerð athugasemd við stjórn fjölmiðla af hálfu þeirra sem þar starfa einmitt vegna áhrifa eignarhalds. Sem betur fer er það liðin tíð að tilteknar bílategundir lentu ekki í árekstri í vissum fjölmiðlum og það er fortíð sem við fáum vonandi aldrei yfir okkur aftur. En við stöndum á þröskuldi nýrrar miðlunar og það er mjög mikilvægt að við getum unnið vel að því og þar megum við ekki vera svo bláeyg að við gerum okkur ekki grein fyrir því að peningar eru ákveðið vald í þeim heimi eins og öllum þeim heimi sem við lifum og hrærumst í. Við getum staðið frammi fyrir því að það skipti máli hver og hvernig þessi miðlun er notuð. Þar á ég við þessa margmiðlun. Ég veit að það er mikið af hæfileikaríku fólki sem starfar hjá hinni nýju samsteypu og ég vona það sannarlega að þeirra kraftar nýtist sem best.
    Ég held að það sé miklu heillavænlegra að styðja og styrkja sem víðtækast eignarform á slíkri margmiðlun og að þar hefur öll þjóðin, hvort sem hún gerir það í krafti einhvers konar ríkisvalds eða sem ég tel að væri æskilegra með almenningsframtaki, miklu meira að segja og það skiptir máli að öll sú miðlun sem við stöndum frammi fyrir verði sem lýðræðislegust á allan hátt.