Fræðsla um bókhald og fjárreiður ríkisstofnana

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:40:10 (4189)


[16:40]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Nýlega barst á borð okkar þingmanna skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun á ríkisreikningi 1993. Í þessari skýrslu sem er í raun meiri að vöxtum en oft áður er sérstaklega fjallað um fjárreiður og bókhald ýmissa ríkisstofnana. Þar kemur það fram að Ríkisendurskoðun er ár eftir ár að gera athugasemdir við oft og tíðum sömu atriðin hjá sömu stofnunum. Sem dæmi um athugasemdir mætti nefna, með leyfi forseta:
    1. Ekki eru í gildi nægilega skýr ákvæði um hvort ber að færa ýmsar greiðslur úr ríkissjóði sem gjöld eða til frádráttar frá tekjum. Sama máli gegnir hvort ýmis framlög eigi að færa til eignar eða sem gjöld.
    2. Hjá sömu stofnunum þarf að vanda betur til færslu bókhalds, afstemningar á sjóði, bankareikningum, viðskiptareikningum og fleiru. Kostnaðarreikningar eru víða ekki áritaðir af til þess bærum aðila áður en þeir eru greiddir.
    4. Reglur ríkisins mæla fyrir um að kostnaður vegna ferðalaga, bæði innan lands og utan, sé gerður upp á sérstökum ferðareikningi. Uppgjör á þessum kostnaði er víða ófullnægjandi. Ýmist eru ferðareikningar ekki gerðir upp, aðeins hluti kostnaðar færður á þá ef úr hömlu dregst að ljúka uppgjöri eða greitt fyrir útgjöld sem starfsmaður á ekki rétt á að fá endurgreidd.
    5. Ýmsar stofnanir sem hafa með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskattskyldu leggja ekki virðisaukaskatt á hliðarstarfsemina sem er í samkeppni við sambærilega þjónustu við einkaaðila. Má þar nefna rekstur mötuneyta fyrir starfsfólk, eigin þjónustu, útselda sérfræðiþjónustu o.fl.
    Ég tel að það sé fjmrn. að sjá til þess að önnur ráðuneyti og stofnanir ríkisins taki formlega afstöðu til þeirra athugasemda sem gerðar eru með ríkisreikningi og lagfæri síðan málið í framhaldi af því. Það er með öllu óviðunandi að sífellt sé verið að gera athugasemdir af þessu tagi við fjármál ríkisins sem eiga að vera hafin yfir allan vafa um að rétt sé að málum staðið.
    Þá er það einnig ljóst að bæta þarf innra eftirlit stofnunar til að koma í veg fyrir hugsanlegt misferli í fjármálum en það virðist hafa orðið uppvíst hjá þó nokkrum ríkisstofnunum á árinu 1993. Því hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrn. á þskj. 631 svohjóðandi:
    ,,Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar í ríkisreikningi 1993 til starfsmanna ríkisins þar sem segir ,,að full ástæða sé til þess að auka upplýsingagjöf og fræðslu fyrir þá sem sinna bókhaldi og fjárreiðum ríkisstofnana?``
    Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að fá svar við þessu. Ég geri ekki ráð fyrir því að um ríkisreikning 1993 verði neitt fjallað á þessu þingi þar sem mjög lítið er eftir af því og ég tel því alveg tilvalið að hæstv. ráðherra svari því hvernig hann ætlar að bæta hér úr.