Fræðsla um bókhald og fjárreiður ríkisstofnana

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:54:37 (4193)


[16:54]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að taka undir þau almennu sjónarmið sem komu fram í þessari umræðu og ætlaði að bæta því við og hef reyndar nefnt það áður úr þessum ræðustól að það sé eðlilegt að mínu mati að það verði tekin ákvörðun um það í fyrsta lagi að fella ákvæðin um yfirskoðunarmenn ríkisreiknings út úr stjórnarskránni. Þau eru tímaskekkja þar. Ég hef nefnt að það verði gert núna af því að menn eru hvort eð er að skoða stjórnarskrána þá eigi að smeygja þeirri breytingu með.
    Í öðru lagi finnst mér að það eigi jafnframt að taka ákvörðun um það hvernig farið verði með slíkar skýrslur í þessari stofnun af því að það er engin meðferð á skýrslunum eins og sakir standa og þýðir það að það er engin meðferð á því góða fólki sem er að vinna einhverjar skýrslur fyrir okkur inni í Ríkisendurskoðun ef við sinnum því ekki betur en gert hefur verið. Ég er því sammála sjónarmiði hæstv. fjmrh. og tel raunar að hann hafi alveg eins verið að taka undir mín sjónarmið eins og ég undir hans.