Samþykktir Sambands húsnæðisnefnda

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 16:59:05 (4195)

[16:59]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að svara þessari fyrirspurn varðandi félagslegar íbúðir sem hv. þm. Svavar Gestsson leggur hér fram. Í samþykktum Sambands húsnæðisnefnda er þess farið á leit við félmrh. að hann beiti sér sem fyrst fyrir endurskoðun á lögum nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, hvað varðar þau sex atriði sem fram koma í tillögum Sambands húsnæðisnefnda. Tillögur sambandsins verða teknar orðrétt upp í sex liðum:
    1. Fyrsta tillagan felur í sér að fyrningarprósenta verði lækkuð úr 1,5% í 1%. Samkvæmt frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994, sem lagt er fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi en það er mál nr. 338, þá er lagt til að reglur um fyrningu verði samræmdar á íbúðum sem byggðar hafa verið frá og með gildistöku laga nr. 51/1980. Þannig verði 1% fyrning á öllum þessum íbúðum enda eru þær með fullverðtryggð lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Þetta er í 26. gr. frv., g-lið.
    2. Vaxtaákvörðun verði sveigjanleg, þ.e. samsvarandi ákvæði verði um lækkun vaxta og nú er um hækkun þeirra ef breyting verður á tekjum íbúa. Í 2. mgr. 25. gr. frv. er gert ráð fyrir því að vextir geti jafnt hækkað sem lækkað eftir aðstæðum lántakenda og þannig geti lántakandinn sótt um breytingu á vöxtum sýni hann fram á að tekjur hans hafi lækkað svo að þær falli á ný undir tekjur skv. 64. gr. laganna. Hins vegar vil ég um leið og ég bendi á þetta ákvæði nefna að þetta ákvæði er reyndar í skoðun, þ.e. hvort e.t.v. sé æskilegra að tryggja eða kanna enn betur að aðstæður viðkomandi hafi í raun breyst á þann veg að réttlætanlegt sé að vextir hækki áður en vaxtaákvörðun er tekin eða vaxtahækkun er gerð fremur en fara e.t.v. út í það að vera með hreyfanlega vexti eftir tekjum. Þetta atriði er í skoðun núna en það verður mælt fyrir frv. í lok vikunnar og þar mun að sjálfsögðu koma fram hver niðurstaðan verður á þessu ákvæði.
    3. Vaxtaprósenta verði óháð eignarformi, þ.e. því hvort íbúð er keypt eða leigð, en eins og kunnugt er eru vextir ekki lagaatriði heldur ákvörðun ríkisstjórnar að fenginni umsögn Seðlabankans. Þegar lög nr. 70/1991 og núgildandi kafli laganna um félagslegar íbúðir voru samþykkt voru vextir 1% af eignar- og leiguíbúðum að undanskildum almennum kaupleiguíbúðum en vextir af þeim eru 4,5%. Síðan hækkaði ríkisstjórnin vexti af félagslegum eignaríbúðum í 2,4% en leigubúðir voru áfram með 1% vexti. Vextir af almennum kaupleiguíbúðum í leigu voru hafðir óbreyttir, þ.e. 4,5%, og af félagslegum leiguíbúðum þar sem ekki var fyrir hendi aðgerðir til að jafna húsnæðiskostnað milli leigjenda, þ.e. húsaleigubætur en vaxtabætur jafna húsnæðiskostnað íbúðareiganda að því marki sem vaxtabætur hafa þar áhrif á greiðslu- og eignarstöðu. Þetta kom auðvitað skýrt fram í greinargerð húsnæðismálastjórnar frá því í september 1992 sem fjallaði um þetta. En húsaleigubætur ná sem kunnugt er ekki til félagslegra leiguíbúða í eigu sveitarfélaga nema þegar um almennar kaupleiguíbúðir er að ræða og langflestar félagslegar leiguíbúðir eru því utan húsaleigubótakerfisins og þess vegna e.t.v. rök fyrir því að ekki séu sömu vextir á félagslegum leigu- og eignaríbúðum. Auk þess nær húsaleigubótakerfið enn sem komið er til mun þrengri hóps en vaxtabæturnar og tekjumörkin eru lægri en í félagslega kerfinu.
    4. Lagt var til að við útreikning á meðaltekjum verði aldur barna miðaður við 20 ár í stað 16 ára og það er einmitt tillaga um það í 15. gr. frv. Um að veittar verði auknar heimildir um að veita undanþágu frá tekjumörkum ef um er að ræða slæma fjárhagsstöðu og samsvarandi undanþágur þurfa að vera á eignarmörkum ef tekjur eru lágar og einnig spurt um lán til viðhalds og endurbóta utan húss. Hvor tveggja þessi ákvæði eru í frv. sem hefur verið lagt fram og ég mun nánar gera grein fyrir hér síðar.