Samþykktir Sambands húsnæðisnefnda

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:06:07 (4197)


[17:06]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og ráðherranum svör hans. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að full þörf er á því að afgreiða svo skjótt sem verða má í þinginu það stjfrv. sem fyrir liggur um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ.e. þau ákvæði frv. sem sæmileg samstaða á að geta náðst um í þinginu. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að geti náðst góð samstaða um margt af því sem í frv. er, þar með talið fyrningarprósentu og fleira sem verulegu máli skiptir við að ákvarða kostnað þeirra sem búa í íbúðunum. Ég vænti þess að þingmenn muni gera það sem í þeirra valdi stendur til að flýta málinu a.m.k. að því marki sem ég gat um áðan.