Samþykktir Sambands húsnæðisnefnda

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:07:45 (4198)


[17:07]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hún gaf áðan og ég tel að hafi verið greinargóð og glögg. Ég tók eftir því að hún sagði allt of lítið, sérstaklega um vaxtamálin sem eru kannski það erfiðasta í þessu dæmi þar sem vextirnir eru orðnir allt of háir og allt of erfitt fyrir fólk að fara inn í félagslega kerfið af því að vextirnir eru svo háir að fólk ræður ekki við þá. Þess vegna standa margir tugir íbúða í félagslega kerfinu auðar og þess vegna er alveg nauðsynlegt að á því máli verði sérstaklega tekið. Auðvitað þurfum við að eiga sveigjanlegt húsnæðiskerfi þar sem tekið er tillit til mismunandi tekna fólks á mismunandi aldursskeiðum eftir því hvernig stendur á af ýmsum ástæðum. Æskilegt væri ef fólk er að taka upp húsnæðiskerfi á annað borð eins og tillögur liggja fyrir um að farið væri mjög almennt í það mál. En það er alveg rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að tíminn til stefnu í þessum efnum er mjög stuttur.
    Ég vil hins vegar benda á að það er skoðun mín að það er nauðsynlegt að farið verði í þessar umræður sem allra fyrst því að þetta eru stórmál og þau taka dálítinn tíma. Ég tel satt að segja að þessi mál sem hér eru nefnd, þ.e. breytingar á húsnæðislöggjöfinni, séu brýnni en ýmis önnur mál sem ríkisstjórnin er að tala um að ljúka á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þessu þingi. Þess vegna hvet ég hæstv. félmrh. til að fylgja eftir sínum málum svo sem kostur er í umræðum næstu daga.