Lán til viðgerða á félagslegum íbúðum

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:23:39 (4203)


[17:23]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í 10. gr. þess frv. sem hér hefur verið um rætt þá er þar mjög ítarlegt ákvæði til handa Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi lánveitingarheimild til endurbóta og viðhalds. Ég tel að með því ætti að fást alveg viðunandi lagaheimild til þess.
    Ég vil taka það fram, vegna orða þingmannsins, og við höfum rætt það í umræðu um þá fsp. sem ég var að svara hér fyrir stuttu að þetta frv. er á dagskrá þingsins síðar í þessari viku. Ég hef lagt mikla áherslu á það að reyna að fá gott samráð um frv. af hálfu þeirra sem telja að þeir eigi hagsmuna að gæta. Þar nefni ég helst verkalýðshreyfinguna og Samband sveitarfélaga og tel að þar sé fenginn stuðningur við þetta frv. þannig að ef þingmenn telja sér fært að afgreiða það skjótt þá á það að vera vel fært. Sjálf mun ég leggja svo mikla áherslu á þær úrbætur sem er að finna í þessu frv. að ég mun hvetja til þess við félmn. að sleppa fremur ákvæðum sem ágreiningur væri hugsanlega um heldur en að tefja frv. og að ná ekki fram þeim úrbótum sem vitað er að víðtækur stuðningur er við hér í þinginu.