Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:25:48 (4205)

[17:25]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 582 leyfi ég mér að bera upp fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. um dragnótaveiðar.
    Meðal sjómanna eru mjög skiptar skoðanir um það hvort dragnótaveiðar séu skaðlegar lífríki sjávar á þeim veiðislóðum þar sem dragnótaveiðar eru stundaðar.
    Á síðasta þingi fluttu þingmenn Vesturl. till. til þál. um lokun Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum. Sú tillaga var ekki afgreidd á því þingi. Talsmenn smábátasjómanna sem gera út frá höfnum Faxaflóa hafa mjög amast við snurvoðarveiðum og hvatt til þess að banna þær á þeim svæðum. Á sama hátt hafa sjómenn og útgerðarmenn snurvoðabáta mælt með því veiðarfæri og telja það skaðlaust lífríkinu og eitt hagkvæmasta veiðarfæri sem um getur. Þær deilur sem eru uppi um dragnótaveiðar verða trúlega ekki settar niður hér úr þessum ræðustóli svo heitar sem þær eru yfirleitt.
    Á það má benda að bátar sem stunda dragnótaveiðar frá Breiðafjarðarhöfnum hafa stundað þær með mjög góðum árangri. En þess má geta að þar er um að ræða skipstjóra og skipshafnir sem stunda þessar veiðar með ágætum og raunar með mjög góðum árangri og er þar um þýðingarmikla útgerð og mikinn afla oft á tíðum að ræða fyrir viðkomandi verstöðvar.
    Þar hafa hins vegar ekki verið uppi mjög alvarlegar deilur á borð við þær sem hafa heyrst við Faxaflóann. Til þess að endurmeta stöðu málsins og varpa betra ljósi á það hef ég lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. sjútvrh.:
    1. Hversu mikill var afli dragnótabáta tvö sl. fiskveiðiár eftir veiðisvæðum við landið?
    2. Hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum dragnótaveiða á lífríki sjávar?
    3. Hver er afstaða Hafrannsóknastofnunar og ráðherra til dragnótaveiða?
    4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir takmörkun á dragnótaveiðum í Faxaflóa eða á öðrum svæðum við landið?