Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:33:50 (4207)


[17:33]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það sem rekur mig hér upp í stólinn er einfaldlega það að taka undir það með hæstv. ráðherra að það er hægt með því að afla mikillar þekkingar á málunum að leyfa veiðar sem annars eru gagnrýndar svo framarlega sem það liggur fyrir þekking á umhverfinu. En það sem við kvennalistakonur höfum ávallt bent á er hversu mikið skortir á hjá okkur að könnuð hafi verið áhrif einstakra veiðarfæra á umhverfið, mismunandi umhverfi á mismunandi stöðum. Það er ekki nóg að byggja bara á heildaraflahámarki og ætla að taka allar ákvarðanir út frá því ef ekki er aflað mikillar þekkingar á því hvaða svæði ber að friða fyrir hvaða veiðarfærum og á hvaða tímum. Þetta held ég að sé það grundvallaratriði sem framtíðarstefna í fiskveiðum okkar hlýtur að byggjast á.
    Því miður höfum við talað fyrir daufum eyrum þangað til e.t.v. á allra seinustu árum þegar vísindamenn hafa í æ ríkari mæli farið að taka tillit til þessara sjónarmiða og ég held að þær upplýsingar sem hér er verið að biðja um, þær upplýsingar sem hér fara að koma fram, sýni það svo ekki verði um villst að það er hægt að vinna þetta mál. Ég held að þeim peningum sem er varið í slíkar rannsóknir sé mjög vel varið og geti þegar til lengri tíma er litið fært okkur betri auðlind, betra umhverfi og meiri afrakstur án þess að ganga á auðlindir sjávar.