Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:37:18 (4209)


[17:37]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Deilur um það hvort leyfa eigi dragnótaveiðar í Faxaflóa hafa staðið í marga áratugi, bæði hér á Alþingi og meðal sjómanna við Faxaflóa. Nú hafa þessar veiðar verið leyfðar í tilraunaskyni í 15 ár. Fyrst í stað með tveimur bátum en undanfarin ár með a.m.k. 15 bátum sem hafa stundað þessar veiðar og þær eiga auðvitað ekkert skylt við tilraunir.
    Smábátaeigendur hafa ítrekað mótmælt þessum veiðum og nýlega samþykkti Landssamband smábátaeigenda að skora á stjórnvöld að banna snurvoðarveiðar í Faxaflóa. Með þessari samþykkt fylgdi

svohljóðandi greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Við smábátasjómenn við Faxaflóa höfum stórar áhyggjur af veiðum snurvoðarbáta í Faxaflóa. Við teljum brýnt og raunar krefjumst þess að rannsökuð verði tengsl stöðugt aukinnar snurvoðarveiða í Faxaflóa og minnkandi fiskigengdar. Við vekjum athygli á því að Faxaflóinn er hrygningarsvæði og mjög mikilvæg uppeldisstöð fyrir ungfisk. Öll röskun á viðkvæmu jafnvægi lífríkis getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir bátaútgerð við Faxaflóa og reyndar fyrir fiskstofnana í heild. Hagsmunir útgerða snurvoðarbátanna eru smámunir miðað við það hrun á fiskstofnum í Faxaflóa sem er að verða að veruleika að okkar áliti.
    Okkur smábátamönnum þykir það furðulegt að á tímum umhverfisverndar og vitundar um viðkvæmt lífríki sjávar skuli botndregin veiðarfæri enn vera leyfð á uppeldis- og hrygningarsvæðum fisks.
    Við skorum á stjórnvöld að banna snurvoðarveiðar í Faxaflóa frá og með næsta vori og láta fara fram ítarlega rannsókn á afleiðingum þeirra á lífríki Faxaflóans.``
    Svipaðar samþykktir hafa hin einstöku félög smábátaútgerðarmanna við flóann gert, m.a. Smábátafélag Reykjaness sem samþykkti mjög harðorð mótmæli gegn snurvoðarveiðum á fundi sínum í október sl.
    Ég vil taka undir þessi orð sem ég las úr greinargerð Landssambands smábátaeigenda og hvet hæstv. sjútvrh. til að hlusta grannt á þessi sjónarmið.