Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:39:34 (4210)

[17:39]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Við þingmenn Vesturlands lögðum sameiginlega fram till. til þál. í fyrra um bann við dragnótaveiðum í Faxaflóa.
    Það er skemmst frá því að segja að sú tillaga fékk ekki góðar undirtektir á hinu háa Alþingi. Þær spurningar sem hér hafa verið lagðar fram hafa oft heyrst og svörin eru svipuð nema hvað mér fannst koma fram í máli hæstv. sjútvrh. áðan að hann viðurkenndi að leyfin væru of mörg í Faxaflóa, að dragnótaveiðileyfin væru of mörg. Ef það er rétt skilið hjá mér þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann ætli ekki að fækka þessum leyfum.
    Hann sagði einnig í sinni ræðu, sem er líka nýtt, að á sumum svæðum væri sóknin of mikil. Mig langar að spyrja: Á hvaða svæðum er sóknin of mikil?