Dragnótaveiðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:42:20 (4212)


[17:42]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég skil það þannig að hæstv. ráðherra hafi ekki lýst því yfir að hann ætli að beita sér fyrir takmörkunum á dragnótaveiðinni í Faxaflóanum. Mér þykir það miður. En ég tel að það sé a.m.k. full ástæða til þess að farið verði í það að rannsaka þessi mál betur en fyrir liggur og það eru kröfur um það allt í kringum landið að það verði gert. Það er ömurlegt að fá það svar hvað eftir annað frá fiskifræðingum að það sé pólitísk spurning hvernig eigi að veiða fisk við Ísland og að við skulum ekki vera komnir lengra í rannsóknum á áhrifum veiðarfæra að því sé svarað nánast út úr af fiskifræðingum þegar þeir eru spurðir eins og ég lýsti hér áðan.
    Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að það verði settar af stað meiri rannsóknir sem skýri það hver áhrif af dragnótaveiðum og öðrum veiðarfærum eru á lífríki sjávar.