Barnaklám

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:54:13 (4217)


[17:54]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans og ég skil hann þannig að hafin sé vinna í dómsmrn. sem miðar að því að hér á landi verði sett lög sem geri það óheimilt að hafa þetta efni undir höndum. Ég get þó ekki staðist að segja við hæstv. ráðherra að mér fyndist hann hefði getað verið búinn að grípa til aðgerða aðeins fyrr en núna á síðustu vikum þessa kjörtímabils. En það er þó aðalatriðið að málið er komið í þann farveg sem ég held að flestir Íslendingar hljóti að vilja að það sé í, að við setjum lög sem geri óheimilt að hafa undir höndum efni sem inniheldur barnaklám.
    Hæstv. forseti. Það er óhugnanlegt að hugsa til þess að það skuli vera rekin starfsemi á sviði ferðamannaiðnaðar sem byggir á kynferðislegri misnotkun á börnum og þar á ég við ferðir eins og til Tælands, Sri Lanka, Filippseyja og fleiri landa. Ég ætla ekki að halda því fram að slík starfsemi sé rekin hér á landi en staðreyndin er sú að hún er rekin í Svíþjóð og í Danmörku og það hefur a.m.k. verið fullyrt að Íslendingar hafi tekið þátt í slíkum ferðum þó þær hafi ekki verið í gegnum íslenskar ferðaskrifstofur.
    En þetta er eins og hér kom fram hjá hv. 6. þm. Vestf. að hluta til ákvæði sem snertir frelsi einstaklingsins og friðhelgi heimilisins en ég get ekki trúað því þó að þau ákvæði verði til þess að við Íslendingar, rétt eins og okkar nágrannaþjóðir, getum ekki sett löggjöf sem tekur á þessum málum því það er vilji fólksins. Það er ég alveg sannfærð um.