Löggæslukostnaður

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 17:56:59 (4218)


[17:56]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 625 er að finna fsp. til dómsmrh. um löggæslukostnað og er ég borinn fyrir henni. Það hefur gleymst að geta þess að hugmyndin var að með mér væri á fsp. Kristinn H. Gunnarsson en okkur hefur láðst að láta prenta þetta upp.
    Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Hefur ráðherra gefið fyrirmæli til sýslumanna um innheimtu löggæslukostnaðar vegna skemmtana, m.a. af framlengingarleyfum hjá veitingahúsum úti um land, þannig að tryggt sé að mismunun í þessum efnum sé úr sögunni og ef svo er frá hvaða tíma?``
    Tilefni þessarar fsp. er væntanlega nokkuð auðskilið. Við fjárlagaafgreiðslu var þetta mál til umfjöllunar og þá mælti formaður fjárln. við 3. umræðu fyrir nýjum fjárlagaliðum eða breytingum og þar er að finna, með leyfi forseta, svohljóðandi um fjárlagalið 413-434 Ýmis sýslumannsembætti.
    ,,Áætlað er að sértekjur nokkurra sýslumannsembætta hafi verið endurskoðaðar þar sem innheimtukostnaður við löggæslu verður minni en áður var ætlað. Fallið verður frá innheimtu hjá samkomuhúsum vegna löggæslu. Alls er gert ráð fyrir að lækkun sértekna nemi 7,8 millj. kr. og hækkar þá framlag til embættanna um sömu fjárhæð. Embættin og fjárhæðin eru sýndar í nál. meiri hluta.``
    Með því sem þarna var boðað á að vera afnumin mismunun sem hefur verið talsvert til umræðu og mikill þyrnir í augum þeirra sem vilja að nokkurn veginn eitt gangi yfir aðila í þessu landi. Þetta hefur verið rætt hér öðru hvoru í þinginu og ég minni á álit umboðsmanns Alþingis að gefnu tilefni varðandi túlkun á lögum að þessu leyti þar sem umboðsmaður benti á að þessi mismunun fengist tæpast staðið bókstaf laganna. Það var sem sagt innheimtur löggæslukostnaður hjá veitingahúsum m.a. úti um landið á meðan veitingahús á höfuðborgarsvæðinu sluppu við greiðslu á slíkum kostnaði.
    Eitthvað bar á því í byrjun ársins að málsmeðferð í þessu sambandi var mismunandi eftir embættum og það er kveikjan að þessari fsp. að fá það alveg á hreint frá hæstv. dómsmrh. hvaða fyrirmæli hann hefur gefið og hvenær til embættanna því við verðum auðvitað að treysta því að með þessu verði endir bundinn á þessa mismunun gagnvart þeim sem hafa greitt þennan löggæslukostnað. En síðan kemur hitt sem snýr að embættunum hvort þau í raun fái minnkandi tekjur bættar eins og hér er gefið fyrirheit um. Væri gott ef hæstv. ráðherra hefði tíma til að víkja einnig að því atriði í sambandi við málið.