Ferðaþjónusta

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:07:05 (4224)

[18:07]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að bera hér fram fyrirspurn er hv. varaþm., Hermann Níelsson, flytur. Eins og komið hefur fram hefur hann farið af hv. Alþingi nú um sinn.
    Fyrirspurnin beinist að hæstv. samgrh. og hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvaða markvissar aðgerðir hafa átt sér stað til eflingar ferðaþjónustu svo að hún megi verða ein af aðalatvinnugreinum þjóðarinnar?
    2. Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um framtíðaruppbyggingu greinarinnar?``
    Hæstv. forseti. Ég held að þetta séu spurningar í tíma talaðar. Það er alveg ljóst að ferðaþjónustan gegnir afar mikilvægu hlutverki í okkar atvinnulífi og hlutverk hennar fer vaxandi. Velta ferðaþjónustunnar á árinu 1994 er talin hafa verið um 16,8 milljarðar kr. sem segir sína sögu um mikilvægi þessarar atvinnugreinar fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Það er mjög brýnt að þannig sé staðið að verki hvað varðar alla skipulagningu og áætlanagerð fyrir ferðaþjónustuna að þar fari allt eins vel og kostur er. Einnig vil ég leggja áherslu á það að ferðaþjónustan er mannfrek atvinnugrein sem þarf á mörgum að halda til starfa og þess vegna er brýnt að þessi grein megi eflast og styrkjast í framtíðinni.