Alferðir

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:25:37 (4231)


[18:25]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það er nú þannig að þegar óbreyttir þingmenn bera fram fsp. þá virðist ýmislegt fara að gerast í ráðuneytunum oft á tíðum. Þá koma út reglugerðir og allt hvað eina. En ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svör og ég er ekkert að gera því skóna að hann hafi ætlað sér að þessi löggjöf gengi lengra en tilskipun Evrópusambandsins. Engu að síður er staðreynd að svo er vegna þess að þar er kveðið á um það að þeir sem setja saman slíka ferð aðeins stöku sinnum þurfi ekki að heyra undir þau ákvæði sem kveðið er á um í lögum hér og eru mjög ströng og óþægileg fyrir þá sem eru að stunda þessa atvinnugrein í litlum mæli eins og t.d. er með bændur.
    Ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að setji bóndi saman ferð um gæsaveiði og gistingu þá þurfi hann að kaupa sér tryggingu sem kosti 6 millj. þó ekki sé annað upp talið.
    Hæstv. ráðherra hafði ekki svör við því á þessari stundu hvort gildissviðið er víðtækara hér en nauðsynlegt er miðað við hans orð áðan. Ég vil þá spyrja hann: Mun hann, ef það liggur fyrir á allra næstu dögum að íslenska löggjöfin gengur óþarflega langt og er óþarflega íþyngjandi fyrir þá sem stunda þessa atvinnugrein í smáum stíl, beita sér fyrir því að lögunum verði breytt á þeim örfáu dögum sem eftir eru af þessu þingi? Ég er reyndar sannfærð um að það getur myndast samstaða um það að breyta þessum lögum ef þau eru óþarflega íþyngjandi.
    Þá vil ég spyrja hann líka: Hver telur hann að sé rétti aðilinn til að kynna lögin?