Alferðir

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:27:59 (4232)


[18:27]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ef lengra er gengið með lögunum en samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði kveður á um þá er þar um mistök að ræða og óhjákvæmilegt að fá úr því skorið. Ég hef falið lögfræðingum ráðuneytisins að athuga það sérstaklega og gaumgæfilega í hverju sá mismunur liggur vegna þess að það er ekki í samræmi við það sem ég lagði fyrir þegar frv. um alferðir var samið. Það er heldur ekki í samræmi við þann skilning sem ég hafði þegar málið var lagt fyrir Alþingi á sínum tíma. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fá úr því skorið hver sá munur er, hvers eðlis hann sé og ég er sammála hv. þm. um að þá sé nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort þinginu þyki rétt að breyta lögunum. Ég vil fá að sjá niðurstöður þeirrar athugunar.
    Spurningin um það hver eigi að kynna lögin --- ég segi það sama og áður að hver atvinnugrein fyrir sig verður að fylgjast með lögum og reglugerðum. Það eru haldnar fjölmargar ráðstefnur um ferðamál á hverju ári og ég hélt satt að segja að það væri svo gott samband milli einstakra aðila að upplýsingar lægju á lausu og taldi raunar, svo ég tali sérstaklega um Ferðaþjónustu bænda, að framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar hefði lagt sérstaka rækt við það að kynna bændum þær breytingar sem hafa orðið á starfsskilyrðum á grundvelli ferðaþjónustunnar.