Vegtenging milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:30:21 (4233)


[18:30]
     Fyrirspyrjandi (Sverrir Sveinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. til samgrh. um vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Ég flutti tillögu um þessa vegtengingu árið 1989 og 1990. Meðflm. að tillögunni voru Halldór Blöndal, núv. hæstv. samgrh., Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ragnar Arnalds og Pálmi Jónsson, núv. formaður samgn. Alþingis, allir úr kjördæmum Norðurl. v. og Norðurl. e. Eftir umræðuna um tillöguna í allshn. var hún afgreidd með eftirfarandi hætti:
    ,,Allshn. hefur fjallað um 62. mál þingsins, þál. um gerð jarðganga og vegalagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla.

    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og stuðst við umsagnir frá síðasta þingi, þ.e. frá bæjarstjórnum Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, Fjórðungssambandi Norðlendinga og Vegagerð ríkisins.
    Nefnd þingmanna úr öllum flokkum vinnur nú ásamt Vegagerð ríkisins að gerð langtímaáætlunar í samgöngumálum. Virðast efni tillögunnar falla inn í verkefni þeirrar nefndar. Nefndarmenn eru því sammála um að heppilegast sé að umræða um jarðgangagerð og könnun hennar fari fram í þeirri nefnd sem vinnur að langtímaáætluninni.
    Í trausti þess að efni þessarar tillögu verði komið á framfæri við fyrrgreinda þingmannanefnd leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta skrifar Guðni Ágústsson, formaður nefndarinnar, Jón Kristjánsson, Karl Steinar Guðnason, Kristinn Pétursson, Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson og Eggert Haukdal.
    Í greinargerð með upphaflegu tillögunni var lagt til að það yrði kannað hvort hagkvæmt væri að athuga jarðgangagerð borið saman við aðra valkosti við vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og hafa þá sérstaklega hliðsjón af stofnkostnaði, notagildi, viðhaldskostnaði, Byggðaþróun, félagslegum sjónarmiðum, samtengingu þéttbýlisstaða og styttingu vega.
    Virðulegi forseti. Í greinargerð með þessari þáltill. sagði svo að árið 1986 hafi þáv. samgrh. skipað nefnd til þess að gera langtímaáætlun um jarðgöng með tilliti til samgöngubóta á þjóðvegakerfi landsins. Markmið þessarar áætlunar voru skilgreind í skipunarbréfi að tengja þau byggðarlög við vegakerfi landsins sem ekki eiga völ á fullnægjandi tengingu með öðrum hætti. Enn fremur að tengja saman byggðarlög sem mynda eðlilega, félagslega og atvinnulega heild en geta ekki komið á viðunandi sambandi milli sín nema með jarðgöngum eða öðrum álíka mannvirkjum. Átti nefndin að hafa að leiðarljósi í starfi sínu eftirtalin atriði:
    1. Samanburð jarðganga við aðrar mögulegar lausnir með tilliti til stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar, notagildis og umferðaröryggis.
    2. Röðun verkefna.
    3. Framkvæmdahraða og hugmyndir um fjármögnun miðað við að unnið sé samfellt að jarðgangagerð.
    Í framhaldi af þessu veit ég til þess, virðulegi forseti, að að það hafa farið fram snjómælingar á Lágheiði og í framhaldi af því þykir mér eðlilegt að spyrja hæstv. samgrh.:
    ,,Hvað líður samanburði á vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með jarðgöngum um Héðinsfjörð og gerð heilsársvegar um Lágheiði?``