Vegtenging milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:41:28 (4236)


[18:41]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að það er mjög brýnt að reyna að vanda sig vel við framhald þessa máls. Vegur frá Ólafsfirði yfir í Fljótin er einhver snjóþyngsti vegur sem byggður yrði upp hér á landi ef ekki sá allra snjóþyngsti þannig að hér er sannarlega nauðsynlegt að sjá vel fram og athuga sinn gang. En við höfum tímann fyrir okkur og ég hef eins og ég áður sagði lagt áherslu á að til alls þessa undirbúnings verði mjög vel vandað.
    Ég tek undir með hv. þm. að það er oft vandamál að finna leiðir til þess að afla fjár til vega sem liggja milli kjördæma. Það getur verið miklum erfiðleikum bundið. Svo að ég tali um mitt kjördæmi, Norðurl. e., þá er um fjórar leiðir að velja þó að hálendinu sé sleppt suður um land og allar kostnaðarsamar og það hefur reynst okkur mjög örðugt Norðlendingum að finna fé til slíkrar tengingar og það er auðvitað ástæðan fyrir því hversu hljótt hefur verið um Lágheiðina að sú heiði tengir saman tvö kjördæmi.