Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:43:33 (4237)


[18:43]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég ber fram fyrirspurn á þskj. 592 til hæstv. menntmrh. um framtíðarnýtingu Safnahússins. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hefur verið tekin ákvörðun um framtíðarnýtingu Safnahússins við Hverfisgötu?
    2. Ef svo er, hver er hún?``
    Þetta kemur í framhaldi af því að í fyrra, nánar tiltekið þann 28. mars, bar ég fram fyrirspurn til

hæstv. menntmrh. um Safnahúsið og þá spurði ég svo, með leyfi forseta;
    ,,Hver er fyrirhuguð nýting Safnahússins við Hverfisgötu eftir að Þjóðarbókhlaðan hefur verið tekin í notkun?``
    Það er skemmtileg tilviljun að þessi umræða fór fram 28. mars, en Safnahúsið var einmitt formlega vígt 28. mars 1909. Í svari hæstv. menntmrh. kom það m.a. fram að ákvörðun um framtíðarnýtingu Safnahússins hafði ekki verið tekin þá en hann taldi þá æskilegt að sú ákvörðun lægi fyrir innan tíðar og eins og hann orðaði það, áður en brottflutningi Landsbókasafnsins lyki.
    Hæstv. menntmrh. talaði þá um þriggja manna nefnd og í skipunarbréfi þeirrar nefndar hefði m.a. komið fram að það skyldi einkum ætlast til að nefndin athugaði hvort nýta mætti húsið í þágu íslenskra fræða að fornu og nýju og bókmennta. En hann minntist einnig á að fleiri hugmyndir hefðu komið upp og meðal annars hefði komið upp sú hugmynd að húsið yrði nýtt sem aðsetur fyrir skrifstofu forseta Íslands. Fleiri hugmyndir nefndi hæstv. menntmrh. í svari sínu fyrir um það bil ári. En ég taldi rétt núna þar sem þingi er að ljúka og það hefur ekki komið um það nein frétt svo ég hafi orðið vör við að þessi framtíðarnýting hafi verið ákveðin. Mér er mjög annt um þetta hús, þó ég sé ekki þingmaður Reykvíkinga þá hef ég fullt leyfi til þess, og því spyr ég hæstv. menntmrh. þessarar spurningar.