Framtíðarnýting Safnahússins

92. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 18:55:39 (4242)


[18:55]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör. Ég skal viðurkenna að þó málið sé ekki komið lengra af hálfu hæstv. ráðherra þá gladdi það mig mjög að heyra að ekki hefur verið tekin ákvörðun um eitthvað sem ég get ekki fellt mig við en það var það sem ég óttaðist.
    Hér erum við að tala um eitt fallegasta húsið í bænum og það væri mikil synd ef það yrði tekið undir geymslu. Þess vegna þarf að fara þarna fram lifandi starfsemi og ég vil minna á að í lok máls síns þegar málið var til umræðu á síðasta ári þá segir hæstv. menntmrh. svo, með leyfi forseta:
    ,,Af hálfu menntmrn. hefur því ekkert annað verið ætlað en að þarna yrði áfram safn eðs söfn í einni eða annarri mynd.``
    Hæstv. menntmrh. minntist á Þjóðskjalasafnið sem þarna er að hluta til til húsa, mér er kunnugt um það. Ég vil leggja áherslu á að þar sem Þjóðskjalasafnið hefur fengið húsnæði annars staðar í bænum þá verði þetta hús ekki lagt undir þá starfsemi að öllu leyti. Það held ég að sé ekki æskilegt.
    Hæstv. umhvrh. minntist á Náttúrugripasafnið og það er svo sem umræða sem við þekkjum. Ég vil í því sambandi minnast á það að á húsinu eru nöfn bókmenntafrömuða eins og Ara fróða, Guðbrandar Þorlákssonar o.s.frv. þannig að það eflir okkur kannski í þeirri trú og þeirri skoðun að þarna eigi fyrst og fremst að vera safn og starfsemi bókmenntalegs eðlis. Í lok minnar ræðu í fyrra þegar þetta mál var til umræðu hvatti ég hæstv. menntmrh. til þess að ljúka þessu máli og að einmitt slík starfsemi fari fram í þessu fallega húsi sem er, eins og hér hefur komið fram, friðað og eitt fallegasta hús landsins.